28.05.1985
Efri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5701 í B-deild Alþingistíðinda. (4969)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þessari frumvarpsnefnu hæstv. iðnrh. má gefa ýmis nöfn. Það mætti t. d. kalla það rökleysufrv. Það hafa engin rök komið fram í umr. á Alþingi né, að því er mér best er kunnugt, í umfjöllun iðnn. um málið sem mæla með þeirri breytingu sem hæstv. iðnrh. leggur til.

Í öðru lagi mætti kannske kalla þetta frv. líka landsfundarfrv. Það kom hér fram rétt fyrir landsfund Sjálfstfl. til þess að hæstv. iðnrh. gæti þar veifað enn einu plagginu um að nú væri hann ýmist að selja. gefa eða láta frá sér með öðrum hætti allar þær eigur ríkisins sem honum var trúað fyrir þegar hann settist í ráðherrastól. En það er sitthvað fleira um þetta frv. að segja.

Hæstv. iðnrh. flutti hér stóryrta ræðu er frsm. nefnda höfðu gert grein fyrir máli sínu. Þótti mér kasta tólfunum þegar ég hlýddi á mál hans. Ég átti satt að segja ekki von á því að hæstv. ráðh. byrjaði á því að snupra stuðningsmenn ríkisstj. sem hafa vogað sér og leyft sér að hafa aðra skoðun á málinu en hæstv. iðnrh., það gerði hann. En hann gekk lengra. Með fullri virðingu fyrir hæstv. iðnrh. þá gekk hann lengra í sínum málflutningi en nokkrum manni er sæmandi hér í ræðustól á Alþingi og það er búið að víkja að því hér nokkrum orðum áður. Ég ber virðingu fyrir hæstv. iðnrh. og met kosti hans á margan hátt en þarna gerðist hann of stórorður og allt of stórorður, í fyrsta lagi þegar sagt er um hv. þm. að þeir kjósi hér daufdumbri kosningu og í öðru lagi um þá einstaklinga, sem kosnir eru til trúnaðarstarfa af hálfu Alþingis til að stjórna ríkisfyrirtækjum, að þeir sitji þar meðvitundarlitlir. Þessu hafa þegar verið gerð skil og það hefur verið minnst á ýmsa ágæta menn sem sæti hafa átt í stjórn þessa fyrirtækis og ég efast ekki um að hafa starfað þar af góðum hug og með hagsmuni fyrirtækisins fyrir augum.

Ég minni á það að einn þeirra manna, sem alllengi áttu sæti í stjórn þessa fyrirtækis, er maður sem nú er búið að kjósa til æðstu trúnaðarstarfa í Háskóla Íslands og gegnir þar rektorsstarfi. Þegar það er sagt hér um hann og ýmsa þá fleiri ágætu menn sem hér hafa verið taldir að þeir hafi setið þarna í stjórn meðvitundarlitlir þá eru það, leyfi ég mér að vona, orð sem hæstv. iðnrh. hafa hrotið hér af tungu án umhugsunar. Ég trúi ekki öðru en að hann komi hér í þennan ræðustól og taki þau orð aftur og biðjist velvirðingar á þessum ummælum sem voru vanhugsuð og sem þeir, sem ummælin voru um höfð, áttu engan veginn skilið. Hæstv. iðnrh. væri sannarlega maður að meiri ef hann gerði það og það vona ég og trúi að hann geri þangað til að annað kemur í ljós.

Það er undarlegt þetta kapp sem lagt er á þetta mál. Fjórir af fimm stjórnarmönnum fyrirtækisins hafa lagst gegn því. Innan bæjarstjórnar Akraness eru uppi raddir um að óska eftir að málinu verði frestað þannig að það geti fengið betri athugun. Ég trúi því ekki að hæstv. iðnrh. ætli að beita valdi sínu með þeim hætti að knýja þetta mál hér fram þrátt fyrir þessa stöðu. Þá gerðist hann sekur um að beita valdi á þann hátt sem í ágætri ævisögu séra Árna Þórarinssonar er kallað ónotavald. Og það er ekki af hinu góða.

Hann hafði um það hér ýmis orð að með frv. væri verið að auka atvinnulýðræði. Þetta er út í hött. Ef menn vilja auka atvinnulýðræði í þessu ríkisfyrirtæki eins og öðrum þá eru til þess óteljandi leiðir aðrar og á þær hefur verið bent hér á Alþingi, þær hafa bara ekki hlotið náð fyrir augum þess meiri hl. sem nú stjórnar landinu.

Hvaða tilgangi þjónar það í þessu rökleysufrv. að selja 20% hluta ríkisins í þessu fyrirtæki, þ. e. að ríkið eigi 80% en einhverjir aðrir aðilar eigi 20% ? Ég hef haldið því fram að þarna væri með ákveðnum hætti verið að koma hagsmunaaðilum eins og steypustöðvunum inn í rekstur þessa fyrirtækis. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég tel að þetta fyrirtæki sé betur komið í eigu ríkisins alfarið og að þær umbætur, sem menn vilja gera á rekstrinum og á stjórnarfyrirkomulagi, sé hægt að gera með ýmsum öðrum hætti en að selja, gefa eða skenkja burt 20% af eignarhluta ríkisins í fyrirtækinu. Það eru margar leiðir til þess.

Hæstv. ráðh. ræddi hér nokkuð um prentsmiðju ríkisins Gutenberg, gamalt fyrirtæki á gömlum merg. Það var á honum að skilja að Alþingi ætti að kaupa það fyrirtæki, eiga það og reka. Mér sýnist eitt rekast á annars horn í þessum málflutningi. Ef samræmi á að vera í hlutunum, af hverju er þá ekki þetta fyrirtæki selt eða gefið? Það væri eftir öðru.

Það er ekkert á móti því að ríkið eigi svona fyrirtæki, það á ekki að vera nein meginregla og auðvitað eiga ríkisfyrirtæki að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki, það finnst mér vera meginatriði og það má ræða ýmsar leiðir og ýmsa möguleika í sambandi við stjórn þessara fyrirtækja.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa skipað þessu ríkisfyrirtæki, prentsmiðjunni Gutenberg, þriggja manna stjórnarnefnd. Hann sagðist efast um að það stæðist kannske stjórnskipulega, þá mundi hann kalla þetta bara nefnd til að hafa umsjón með þessu fyrirtæki. Mér finnast þetta heldur háskalegar yfirlýsingar og hæpnar hjá hæstv. ráðh. Hann kemur hér og lýsir sínum stjórnarathöfnum þannig að þær kunni að stangast á við reglur um stjórnskipunarrétt. Þetta er ekki goti.

Það hafa komið fram eindregin tilmæli um það að þetta mál fái nánari athugun. Það er ýmislegt hér sem skoða þarf betur. Í staðinn fyrir að snupra þá stuðningsmenn ríkisstj., sem af góðum hug og með gildum rökum leyfa sér að hafa aðrar skoðanir á málinu en ráðh., væri nú sæmst að leyfa þessu máli að doka við. skoða það betur og taka tillit til þeirra eðlilegu andmæla sem fram hafa komið.

Akranesbær á mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta fyrirtæki. Þetta er stærsta fyrirtækið þar í bæ sem hefur verið rekið lengi og það er full ástæða til þess að hlusta á það sem Akurnesingar hafa að segja í þessu máli. Það á ekki að beita ráðherravaldi þannig að þeirra athugasemdir, rök og skoðanir séu fyrir borð borin í þessu máli. Slík vinnubrögð eru ósvinna og ég treysti því og trúi að hæstv. iðnrh. láti það ekki á sig sannast að hann vinni þannig að þessu máli. Hann heldur fullum sóma þó að þetta mál fái enn nánari skoðun. Ég legg það eindregið til og skora á hæstv. ráðh. að falla nú frá að þrýsta þessu máli hér fram með því ónotavaldi sem mér sýnist að hann ætli að beita í því. Ég veit að hann hlustar á rök og hlýðir rökum, þau rök hafa komið fram í þessu máli sem hníga að því að það sé nú látið bíða. Ég held að það sé miklu betra fyrir framgang þessa máls. Ég legg til að hæstv. iðnrh. spari sér nú stóru orðin, menn horfi á þetta mál með skynsemi og rólegri yfirvegun og sá naumi tími sem nú er verði notaður til annars en að þrátta um þetta. Þetta mál má alltaf taka upp á nýju þingi á nýju hausti. Ég legg eindregið til að það verði gert.