28.05.1985
Efri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5704 í B-deild Alþingistíðinda. (4975)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom við 2. umr. þessa frv. um þörungavinnslu við Breiðafjörð varð iðnn. sammála um að mæla með samþykki frv. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Nú er mikið talað um nýsköpun, um nýjar atvinnugreinar á ýmsum sviðum og útflutning á þekkingu í sambandi við jarðhita og sjávarútveg. Jafnvel íslenskir verktakar ræða í fullri alvöru um að taka að sér verkefni erlendis eins og kom fram á fundum n. í sambandi við það mál sem við vorum að afgreiða hér við 3. umr. rétt áðan.

Í mörg ár, áður en Þörungavinnslan á Reykhólum tók til starfa var einmitt iðulega bent á að um nýja atvinnugrein og áhugaverða gæti verið að ræða með vinnslu þörunga. Þörungaverksmiðjan hefur svo verið starfrækt í rúman áratug, á ýmsu hefur gengið hjá fyrirtækinu. Með starfsemi verksmiðjunnar hefur fengist staðfest að grundvöllur er fyrir vinnslu á þangi og þara til ýmissa nytja, til framleiðslu á margháttaðri markaðsvöru. Eftir nokkra byrjunarörðugleika við öflun hráefnis eru þeir erfiðleikar nú að baki og búið að ná fullum tökum á öflun þess. Þá eru að nást tök á hráefnisöflun, þ. e. þara yfir vetrarmánuðina, og vinnslutími verksmiðjunnar þar með aukinn mjög mikið. Unnið hefur verið að þróun nýrra vörutegunda sem aukið geta verðmæti framleiðslunnar. Nauðsynlegt er að tryggja það að fyrirtækið geti á næstu árum haldið áfram því þróunarstarfi sem verið hefur í gangi og einnig að séð verði fyrir því að áfram verði unnið kröftuglega á vegum fyrirtækisins í markaðsleit og markaðsstarfsemi.

Iðnn. deildarinnar fékk til skoðunar skýrslu stjórnar Þörungavinnslunnar fyrir starfsárið 1984. Þar er ítarlega fjallað um stöðu fyrirtækisins. Skýrsla þessi mun vera samin og flutt af Vilhjálmi Lúðvíkssyni stjórnarformanni. Í skýrslunni er bent á nokkur atriði sem hafa ber í huga við þær skipulagsbreytingar sem þetta frv. fjallar um. Þar segir á bls. 5 í skýrslunni, með leyfi virðulegs forseta:

„Enda þótt ýmis batamerki megi sjá á markaðsstöðu og rekstri fyrirtækisins er tímabili rekstrarerfiðleika og áhættu ekki lokið. Ég held að búast þurfi við óvissu og e. t. v. einhverjum taprekstri næstu tvö árin. Nýtt fyrirtæki þarf að þola það.

Þörungavinnslan hf. er fyrirtæki í hörkusamkeppni á alþjóðamarkaði og flytur yfir 99% af framleiðslu sinni út, m. a. til fjarlægra landa á hnettinum. Meðal nýrra eigenda eða meðal nýrra forustumanna í stjórn fyrirtækisins þurfa að verða einhverjir sem bera skynbragð á alþjóðlega markaðsstarfsemi auk sölustjóra og framkvæmdastjóra. Slíka aðila þarf því að fá inn í hið nýja fyrirtæki.

Sá árangur, sem heimamenn líklega helst geta náð til skemmri tíma litið, er lækkun á kostnaðarliðum og aukin afköst. Með hliðsjón af mikilvægi þess að ekki verði áfram beinn hallarekstur legg ég til að megináhersla verði nú lögð á að koma verksmiðjubúnaði í svo gott lag sem auðið er og gera nauðsynlegar endurbætur á tækjabúnaði áður en heimamenn taka við rekstrinum. Ekki er óeðlilegt að heimamenn setji fram kröfu um að það verði gert áður en til afhendingar kemur því að þá eru meiri líkur á að reksturinn gangi eftir að þeir hafa tekið við honum. Í þetta þarf nokkurt fé á þessu ári.

Ég tel ráðlegt að formleg yfirtaka nýs fyrirtækis í höndum heimamanna í rekstri Þörungavinnslunnar fari ekki fram fyrr en um næstu áramót. Rekstur í ár, úr því sem komið er, hlýtur að mótast af stefnu sem ákveðin var fyrr á þessu ári og þeim drætti sem orðið hefur á ákvörðun um framtíð fyrirtækisins. Þann tíma sem eftir er ársins ætti nýtt fyrirtæki heimamanna að nýta sem best til að undirbúa yfirtökuna og móta stefnuna fyrir næsta ár. Næsta stjórn Þörungavinnslunnar mun án efa veita alla þá aðstoð sem hún má í því efni.“

Hér eru nefnd veigamikil atriði sem rétt hefði verið að skoða frekar. Ég taldi rétt að þau kæmu hér fram. Með þessu frv. er lagt til að ríkisstj. sé heimilt að semja við heimamenn um kaup eða leigu á eignum félagsins. Í gær var stofnað hlutafélag á Reykhólum til að standa að þessu verkefni. Því verður varla annað gert nú en að óska þess að hinu nýja hlutafélagi auðnist að ná þeim tökum á rekstri Þörungavinnslunnar að vonir manna rætist um traust atvinnu- og framleiðslufyrirtæki sem styrki byggð við innanverðan Breiðafjörð og framleiði góðar, eftirsóttar og verðmiklar vörur og þar með verði rekstur og framtíð Þörungavinnslunnar tryggð.

Ég hef trú á því að þetta rúmlega áratugs gamla nýsköpunarverkefni sanni ágæti sitt ef vel verður að því staðið nú við þá skipulagsbreytingu sem í hönd fer.