28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5709 í B-deild Alþingistíðinda. (4989)

342. mál, verslunaratvinna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég tek undir upphafsorð hv. 4. landsk. þm. um að þetta sé skondið mál. Það eru orð að sönnu. Þetta er afar sérkennilegt mál.

Ég varð ekki vör við annað en að þingheimur væri mjög sammála um það fyrr í vetur, þegar rætt var um myndbönd og eftirlit með starfsemi myndbandaleiga með tilliti til höfundaréttar og reglna um önnur atriði, að setja þyrfti lög um fyrirtæki sem hefðu að atvinnu leigu myndbanda og raunar annarra lausafjármuna. Það skýtur e. t. v. nokkuð skökku við að hér skuli rísa upp hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson og vilji nú helst af öllu skjóta skjólshúsi yfir þá viðskiptavinnu sem fram fer án allra laga og tefja það að lögum verði komið yfir þá atvinnu með því að vísa málinu til ríkisstj. Hv. þm. leggur til í staðinn með flutningi frv. að menntmrh. skuli gefa út leyfi til slíkrar starfsemi. Ég þakka flm. traustið, en mér þykir þetta heldur sérkennilegt. Þetta er eins og við legðum til að landbrh. gæfi út leyfi til að reka verslun með landbúnaðarvörur, kannske nýlenduvöruverslun, að iðnrh. gæfi út leyfi til þess að versla með tilbúinn fatnað, sem er iðnaðarvara, og fleiri vörutegundir mætti til telja.

Það er auðvitað tiltekin tegund verslunar eða viðskipta þegar leigt er til afnota. Menn borga ekki fyrir það að fá hlutinn til eignar í þessum tilvikum, heldur til afnota. Það er tekið fram í frv. að hér sé fjallað um leigu lausafjármuna í atvinnuskyni. Það er því ekki sambærilegt við bókasöfnin sem eru rekin sem almannaþjónusta en ekki í atvinnuskyni.

Það má til sanns vegar færa að einstaklingsfrelsið væri meira ef menn þyrftu ekki leyfi til að reka ýmis viðskiptafyrirtæki. En ég hygg að hörðustu einkaframtaksmenn viðurkenni að slíkt sé skynsamlegt og að viðskiptastarfsemin eigi að fara eftir lögum og reglum, slík fyrirtæki eigi að skrá til þess að öllu verði til skila haldið þar eins og annars staðar. Þess vegna var það sem stóð í aths. með frv. þegar hæstv. viðskrh. lagði það fram að gert væri ráð fyrir að verslunarleyfi þyrfti til leigu lausafjármuna í atvinnuskyni, t. d. myndbanda, áhalda og bíla.

Ég hygg að þrátt fyrir þá breytingu sem nefndin leggur til að gerð verði og veldur því að frv. fjallar aðeins um myndböndin sé það mjög til bóta að samþykkja þetta mál eins og það liggur fyrir en ekki að drepa því á dreif með því að flytja tillögur um að það falli undir önnur rn. Ég hygg að það sé einföldun á málum að fylgja þessu máli eins og það liggur fyrir nú. Ég verð að játa að ég hafði ekki alveg áttað mig á nauðsyn þess að breyta frv. í þetta horf sem hv. n. leggur til, en það má vel vera að til þess liggi rök sem ég hef ekki haft ráðrúm til að átta mig á. Ég hefði einmitt talið að skynsamlegt væri að gera frv. að lögum eins og það var lagt fram. Þar með væri fengin allsherjarlöggjöf eins og hv. þm. lýsa eftir hver af öðrum. Slík allsherjarlöggjöf þarf ekki að vera afskaplega margorð. Hún þarf einfaldlega að taka fram að leiga lausafjármuna í atvinnuskyni teljist einnig verslun skv. þessum lögum og þá gilda lögin sjálfkrafa um slíka starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni.

Ég vildi, hæstv. forseti, vekja máls á þessum atriðum, að ég tel leigu í atvinnuskyni alveg tvímælalaust vera viðskiptafyrirtæki og að þau eigi heima á vegum viðskrn. eins og önnur viðskiptafyrirtæki.