28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5713 í B-deild Alþingistíðinda. (4992)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki neinu sérstöku við að bæta umfram það sem þegar hefur komið fram. Þetta er augljóslega óttalegt klúður. Það hefur hálfpartinn komið fram hjá öllum ræðumönnum. Mér sýnist einsýnt að það eigi að taka á þessu þannig að taka fyrir leigu lausafjármuna í heild. Þar er augljóslega um verulega hagsmuni að ræða, bæði hagsmuni neytenda og hagsmuni leigusala. Ég held að það verði að leggja í það vinnu að athuga hvort hægt sé og ástæða til að gera sambærilegan bálk við lögin um verslunaratvinnu á sínum tíma. Ég þekki þetta ekki nógu vel til að meta hvort sú yrði útkoman. En mér finnst alveg ótækt fyrir löggjafarsamkunduna að hafa ekki meiri metnað en að vera að bjarga í horn af því að á einni eða tveimur myndbandaleigum úti í bæ þykist menn hafa um það grun að menn brjóti lög endurtekið. Það hljóta að vera leiðir til að koma lögum yfir menn í þeim tilfellum. hvort sem um er að ræða vegna höfundarréttar, skattamála, ósæmilegra kvikmynda eða ofbeldismynda. Jafnvel þó að menn væru fyrst skrýddir leyfinu og síðan sviptir því er ekki þar með sagt að viðkomandi rekstur mundi hætta. Við vitum að það eru ýmsar leiðir til þess að fara í kringum slíkar lagasetningar. Það gæti vel verið að menn kæmust að því að þetta vídeóleigusvið sé þess eðlis að það þurfi um það sérstaka löggjöf sem nái þá yfir siðgæðið og peningamálin allt undir einum hatti.

Ég endurtek þess vegna að við eigum að setja okkur hærri markmið en að bjarga á þennan hátt í horn, hvort sem það er með því að búa til botnlanga við lögin um verslunaratvinnu eða setja þetta undir menntmrn. á þann hátt sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur talað um. Mér finnst það björgun á línu líka vegna þess að það gæti þá komið að því að hestaleigurnar, ef menn yrðu uppvísir að því að leigja út vonda hesta, hrekkjótta eða hasta, yrðu látnar falla undir landbrh. ef menn ætla að halda áfram þessum skyndilausnum á þessu máli. Ég held að menn ættu að sjá sóma sinn í því að fella þessi frumhlaup, sem ég vil kalla, og reyna að koma á þetta skikk, nota til þess sumarið að athuga hvort ástæða sé til að gera annaðhvort samvirka löggjöf yfir allt leigusviðið eða búa til sérstök lög um vídeóleigur, ef það væri niðurstaðan. Svona björgun á línu held ég hins vegar að sé okkur ekki samboðin.