28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5714 í B-deild Alþingistíðinda. (4996)

149. mál, siglingalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á nál. á þskj. 976 kemur fram að samgn. hefur rætt þetta frv. á tíu fundum. mörgum þeirra löngum, og gert nokkrar brtt. Þetta frv. er komið frá Ed., en samt sem áður bárust samgn. Nd. ýmsar ábendingar og umsagnir um þetta frv. sem leiddi til breytinga, þ. á m. frá Stýrimannafélagi Íslands. Þá barst umsögn frá Arnljóti Björnssyni prófessor, frá Steingrími Gaut Kristjánssyni og Friðgeiri Björnssyni, sem eru stjórnarmenn í Dómarafélagi Reykjavíkur, og frá Pétri Sigurðssyni alþm. og raunar ýmsum fleirum. Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri kom á fund nefndarinnar. Tryggingafræðingarnir Þórir Bergsson og Björgvin Þórðarson mættu einnig á fundum hjá nefndinni og gáfu henni margvíslegar upplýsingar. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Jón H. Magnússon, Kristján Ragnarsson, Ingólfur Stefánsson, Halldór Rósmundsson og Guðjón Kristjánsson. Einnig Ragnhildur Hjaltadóttir lögfræðingur í samgrn. og skrifstofustjóri þess Halldór S. Kristjánsson og 'ráðuneytisstjórinn, Ólafur Steinar Valdimarsson. Páll Sigurðsson dósent, sem var formaður þeirrar nefndar sem samdi frv., sat alla fundi nefndarinnar og veitti henni margvíslegar upplýsingar sem reyndust nefndinni ómetanlegar.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykki með þeim breytingum sem fylgja á sérstöku þingskjali. Undir þetta skrifa allir nm., en hv. þm. Karvel Pálmason skrifar undir nál. með fyrirvara og mun gera grein fyrir þeim fyrirvara hér á eftir.

Brtt., sem eru allmargar, víkja hvergi frá meginstefnu þeirri sem mörkuð er í frv. um einstök atriði. Að frátöldum þessum brtt. getur n. sem sagt fallist á að frv. sé í því formi sem það hefur verið eftir 2. umr. í Ed.

Við 6. gr. er gerð till. um breytt orðalag í 1. mgr. sem miðar að einföldun orðalags og auknum skýrleika. Í 2. mgr. er skv. till. nefndarinnar tekið af skarið um að rannsókn sú sem þar er talað um fari eftir því sem fyrir er mælt í lögum nr. 52/1970, um eftirlit með skipum. Í 3. mgr. þykir rétt að nota orðið „mengunarlögsaga“ í stað „landhelgi“ til að taka af öll tvímæli í því efni.

Við 20. gr. Síðasti málsl. 1. mgr. er óþarfur eftir að 2. mgr. 6. gr. hefur verið breytt svo sem nefndin leggur til því að skv. lögum um eftirlit með skipum getur skip eftir þess háttar skoðun eigi látið úr höfn nema hafa til þess tilskilin leyfi.

Við 26. gr. Upphafi greinarinnar er breytt lítillega til samræmis við orðalag í 1. mgr. 124. gr.

Við 42. gr. Rétt þykir að taka sérstaklega fram að vara sé merkt skv. hinum afþjóðlegu reglum um flutning á hættulegum varningi.

Við 68., 71., 72., 73. og 102. gr. eru gerðar till. um minni háttar orðalagsbreytingar sem m. a. er ætlað að tryggja að viðkomandi ákvæði séu í fullkomnu samræmi við hina svokölluðu Haag-Grimsby-reglu sem lagt er til að íslenska ríkið fullgildi.

Í 159. gr. er orðalagsbreyting sem ekki þarfnast sérstakrar skýringar.

Í 172. gr. Nefndin telur fulla ástæðu til að lögfesta það samkomulag um orðalag þessarar greinar frv., sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi gerðu með ser hinn 28. febr. s. l. og sem var liður í lausn þáverandi kjaradeilu milli útvegsmanna og sjómanna, svo sem samgn. Ed. lagði einnig til. Nefndin leggur þó til að það frávik verði gert frá því sem lagt var til í samkomulaginu varðandi makabætur einvörðungu að sé eftirlifandi maki 45 ára og eldri þegar slys ber að höndum og eigi með barn eða börn á framfæri sínu sem bætur taka vegna sama slyss skuli maki halda mánaðarlegum bótum í sex ár eða í helmingi lengri tíma en ella er gert ráð fyrir í frv. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að í umræddu samkomulagi var það í þessu eina tilviki sem aðilar standa verr að vígi en skv. gildandi lögum. Nefndinni þykir full ástæða til að vernda þannig hagsmuni kvenna sem komnar eru á eða yfir miðjan aldur ef þær missa mann sinn af slysförum sem starfi hans tengjast, enda er allt óvíst um aðstöðu þeirra kvenna á almennum vinnumarkaði. Væri ella hætta á því að aðstaða þeirra yrði skerf verulega frá því sem er að núgildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að ekknabætur haldist í átta ár. Sjómannskonur sem komnar eru yfir þennan aldur eru ekki margar þegar á heildina er litið og þarf því ekki mikla iðgjaldaaukningu að leiða af þessari breytingu. Á hinn bóginn leggur nefndin einnig til að ekknabætur gangi ekki í arf, enda ekki brýn þörf á því, og vegur þetta nokkuð á móti hinni fyrrnefndu breytingu. Brtt. við ákvæði greinarinnar um barnabætur er ekki efnisbreyting, heldur einungis smávægileg orðalagsbreyting sem ekki þarfnast sérstakrar skýringar.

Við 187. gr. er gerð till. um orðalagsbreytingu sem miðar að því að fyllsta samræmis sé gætt í greininni. Við 199. gr. Hér er að mestu byggt á brtt. við þessa grein frv., sem kom frá samgn. Ed., en þó með orðalagsbreytingum sem eru til frekari glöggvunar og fyllingar.

Við 200. gr. er gerð till. um orðalagsbreytingu sem ekki þarfnast sérstakrar skýringar. Óþarfi er að telja upp útgerðarmenn og skipstjóra því að það er gert í 1. mgr. greinarinnar, enda er lagt til að 7. mgr. 126. gr. frv. falli brott.

Við 121. gr. Orðalagsbreyting á upphafi 2. mgr. þarfnast ekki sérstakrar skýringar og þær breytingar í formi viðauka, sem að öðru leyti er lagt til að verði gerðar á 121. gr., skýra sig einnig sjálfar.

Við 222. og 226. gr. Lagt er til að í greinum þessum sé eigi rætt um eftirlitsmenn Siglingamálastofnunar, heldur eingöngu um stofnunina sjálfa. Réttara þykir að hún taki fyrir sitt leyti ákvörðun um hvernig hún bregst við tilkynningu um sjóslys, t. d. hvern hún sendir sem fulltrúa sinn í sjópróf af því tilefni.

Við 230. gr. Hér er mestmegnis um að ræða auðskildar orðalagsbreytingar frá því sem er í frv. Mikilvægt er að sjálfstæði og úrræði sérstakrar rannsóknanefndar sé vel tryggt, en nefndin leggur áherslu á að hér sé ekki um fastanefnd að ræða og ætla verður að nefnd af þessu tagi verði einungis kvödd saman þegar alvarlegar og sérstakar ástæður mæla með því. Í þessu sambandi vill nefndin taka fram að hún telur að æskilegt hefði verið að í XIII. kafla frv., þar sem fjallað er um rannsóknir sjóslysa, hefði jafnframt verið ákvæði um hina föstu rannsóknanefnd sjóslysa sem starfað hefur um allmörg ár og sem ákvæði eru nú um í 45. gr. laga nr. 52 frá 1970, um eftirlit með skipum. Telur nefndin að síst sé ástæða til að raska eða draga úr starfsemi þeirrar nefndar sem sjálfstæðs rannsóknaraðila. Þrátt fyrir tilkomu nýs ákvæðis um sérstakar rannsóknanefndir í einstaka tilfellum hefði þess háttar ákvæði um rannsóknanefnd sjóslysa þá þurft að vera nokkru fyllra en núverandi ákvæði í 45. gr. laga nr. 52 frá 1970 og a. m. k. á þann veg orðað að starfssvið og heimildir þeirrar nefndar væru skýrari og ótvíræðari en nú er í lögum og því betur tryggt en nú er að hún gæti rækt hið mikilvæga starf sitt á sjálfstæðan hátt og þá m. a. kvatt til aðstoðar rannsóknastofnanir, Landhelgisgæslu o. s. frv. í þeim tilvikum er mál lúta ekki sérstakri rannsókn skv. 230. gr. Örðugt þótti þó að semja slík ákvæði nú þar sem svo mjög er liðið á þingtímann og mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi, en nefndin leggur á það þunga áherslu að á vegum samgrn. og með samráði við rannsóknanefnd sjóslysa verði hið fyrsta hafist handa um samningu frv. til laga um þetta efni sem bætt verði við hin nýju siglingalög og þá verði 45. gr. laga nr. 52 frá 1970 jafnframt afnumin. Vonast nefndin til þess að frv. í þá átt verði lagt fram á Alþingi á hausti komandi.