28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5717 í B-deild Alþingistíðinda. (4997)

149. mál, siglingalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 976 og raunar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, frsm. n., hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og ég tel rétt að gera með örfáum orðum grein fyrir því hvers vegna ég skrifa undir með fyrirvara. Sá fyrirvari snýr einvörðungu að 19. brtt., þ. e. við 230. gr.

Eins og hv. þdm. er örugglega um kunnugt hefur starfað í nokkurn tíma nefnd sem kölluð hefur verið öryggismálanefnd sjómanna og eitt af þeim málefnum sem þar hafa verið rædd og ekki það sísta er spurningin um hvernig bæta megi úr og koma í veg fyrir að sjóslys eigi sér stað og koma rannsóknum á sjóslysum sem verða í sem best horf. Í þeim tilvikum hafa menn borið sig nokkuð saman við hvernig staðið er að rannsóknum þegar flugslys eiga sér stað. Ég vil ekki kalla það ágreining við meðnm. mína þó að ég hafi sérskoðanir. Hér er lagt til, með leyfi forseta:

Samgrh. er heimilt að skipa sérstaka nefnd kunnáttumanna til að rannsaka tiltekin sjóslys ef ríkar ástæður mæla með því, t. d. ef sjóslys hefur orðið eða líkur benda til að rannsókn muni verða óvenjuumfangsmikil.“

Eins og allir vita er til rannsóknanefnd sjóslysa sem er ekki rannsóknaraðili í þessu tilviki heldur sá aðili sem fylgist með rannsókninni. Í rannsóknanefnd sjóslysa eru svokallaðir hagsmunaaðilar og á engan hátt vil ég gefa í skyn að þeir mundu í einu eða neinu tilviki misbeita aðstöðu sinni í þeirri nefnd. Ég er hins vegar sannfærður um að nauðsyn er á því að hafa til staðar nefnd sérfræðinga sem eru óháðir öllum hagsmunaaðilum sem að þessu gætu komið. Mín skoðun er sú að þessi sérstaka nefnd kunnáttumanna, sérfræðinga, eigi að vera fastanefnd, eigi að vera til staðar, skipuð, og það þurfi ekki nema eitt símtal af hálfu viðkomandi ráðh. til þess að sú nefnd sé komin af stað ef á annað borð er talið að hún eigi að rannsaka slys. Ég óttast það nefnilega að ef á að fara að skipa þessa nefnd í hvert skipti sem til hennar þyrfti að taka gæti það tekið of langan tíma.

Ég vek athygli á því að þetta sjónarmið hefur komið fram hjá núverandi siglingamálastjóra. Hann hefur lagt á það nokkra áherslu að hann teldi, eins og augljóst má vera, að í flestum tilvikum mætti engan tíma missa og nauðsynlegt sé því að slíkir aðilar geti komið á vettvang sem allra fyrst. Það er af þessu tilefni sem ég tel að eðlilegra hefði verið að gera ráð fyrir að hér væri föst nefnd en starfaði eigi að síður ekki nema því aðeins að ráðh. ákvarðaði slíkt og þá í hvert skipti. Eins og brtt. er núna er ráðh. heimilt að skipa þessa nefnd og mun þá gera það í hverju tilviki sem hann telur þurfa. Breytingin er einvörðungu sú að fastanefndin yrði til og í hana kallað ef ráðh. teldi til þess ástæðu.

Ég veit að í umræðum um öryggismálanefnd sjómanna hafa allir nm. og allir þeir sem komið hafa til viðtals við nefndina um þennan þátt mála lagt á það áherslu að allt verði gert til að tryggja eins og mögulegt er að ítarlegar rannsóknir eigi sér stað á þeim sjóslysum sem verða þannig að allar upplýsingar sem hugsanlegt er að fá geti legið fyrir sem víti til varnaðar í þessu mikilvæga máli. Menn staðnæmdust þá fyrst og fremst við það og sérfræðingar ræddu um það að t. d. þegar flugslys eiga sér stað væri þannig við brugðist sem hvað best hefði tryggt eðlilegar, nauðsynlegar rannsóknir í tilvikum sem þeim.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég ítreka að hér er ekki um neinn meginágreining af minni hálfu að ræða við nm., en ég taldi þó rétt að koma þessu á framfæri í þingdeildinni svo að menn veltu því fyrir sér hvort ekki væri æskilegra að fara hina leiðina. Ég er ekki með brtt., en ég held að þarna eigi ekki, þó svo að það kostaði meira að hafa fastanefnd, að horfa í peninga ef það gæti orðið til þess að tryggja á sem bestan hátt að öll kurl kæmu til grafar í rannsókn, ef um slys er að ræða, sem gæti orðið til þess að forða öðrum frá álíka sem síðar kæmu. Ég tel að það þyrfti ekki að kosta neitt meira, en ég tel að tryggingin sé mjög mikil í því að nefndin sé til staðar, hægt sé í hana að kalla svo að segja á stundinni, ef til þess þyrfti að koma, og það hefði verið réttara að hafa þessa nefnd fastanefnd en að hafa hana nánast lausbeislaða eins og sú till. sem hér liggur fyrir gerir í raun og veru ráð fyrir að verði.