28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5723 í B-deild Alþingistíðinda. (5007)

478. mál, tónlistarskólar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá hv. 3. þm. Vestf., að hjá menntmn. liggur frv. um tónlistarskóla sem grípur inn á byggingu húsnæðis. Það frv. sem hér er til umr. fjallar aftur á móti ekki um húsnæði. Húsnæði tónlistarskóla nýtur ekki stuðnings frá ríkinu samkv. þeim lögum sem eru í gildi eða þeim lögum sem yrðu í gildi eftir samþykkt þessa frv. Það náðist ekki samstaða í n. um að taka inn ákvæði um kostnaðarhlutdeild ríkisins í tónlistarskólum. Það urðu nokkrar umræður um þetta og var horft sérstaklega til tveggja staða í því sambandi, annars vegar til Ísafjarðar og hins vegar til Akureyrar, hvernig þessi mál stæðu. Þar kom til staðarþekking nefndarmanna. Má vera að það sé mun víðar sem þessi mál eru í óleystu formi, en víða hafa þó tónlistarskólar fengið inni hjá þeim skólum sem eru á stöðunum. Það má vera að ríkið eigi vannotað húsnæði á ýmsum stöðum sem hugsanlegt væri að taka undir starfsemi tónlistarskóla og hugsanlegt er að taka á þessu máli í tengslum við fjárlög þó að það sé ekki gert í tengslum við það frv. sem hér er afgreitt.

Hvort hitt málið verður saltað í n. eða hvort það verður afgreitt treysti ég mér ekki til að svara á þessari stundu. Ég hef út af fyrir sig verið hlynntur því að málið færi úr nefnd, en ég veit ekki hvort það hefur nægan byr til þess að það sé líklegt til að það bæri árangur.