29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5725 í B-deild Alþingistíðinda. (5013)

284. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar, 284. mál. Sú umfjöllun hefur verið með hefðbundnum hætti, þ. e. að fulltrúar allshn. beggja deilda hafa fjallað um frv. og svo, eins og venja býður, hefur verið fjallað af sömu aðilum um þær umsóknir sem borist hafa réttum aðilum, dómsmrn. og Alþingi, frá því að þetta frv. var samið nokkru fyrr á þessu þingi. Ólafur Ólafsson fulltrúi á skrifstofu Alþingis starfaði með nefndinni að þessari athugun, enda er hann gjörkunnugur því hvernig um þessi mál hefur verið fjallað á umliðnum árum.

Því er skemmst frá að segja að fylgt var sömu meginreglum og gert hefur verið um umliðin ár og þær umsóknir sem fyrir lágu skoðaðar í því ljósi. Ekki fullnægðu þær allar þeim skilyrðum sem til hafa verið sett í þeim efnum. Um nokkra aðila háttar svo til að þeir öðlast þann rétt sem hér um ræðir síðar á þessu ári og var þá farin sú leið að tímaskilyrða veitingu ríkisborgararéttarins í brtt. við frv. eins og oftlega hefur verið gert áður.

Á þskj. 1023 er að finna nál. allshn. þar sem nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 1017. Þar er lagt til að 11 nöfn bætist við greinina. Ég tel ástæðulaust, virðulegi forseti, að lesa þessi nöfn hér upp, þau liggja fyrir á prentuðu þskj. Það er samdóma álit þeirra hv. þm. sem allshn. skipa að leggja til að frv. verði samþykkt með brtt. á þskj. 1017.