29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5728 í B-deild Alþingistíðinda. (5017)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. beindi til mín einni spurningu og hún hljóðar svo:

„Ríkti einhugur um reglugerðarsetninguna um kjör bankastjóra þegar reglugerð um bifreiðamál ríkisins var sett 30. apríl 1985?“

Svar mitt getur verið stutt: Það ríkti einhugur um setningu þessarar reglugerðar og ég hef ekki heyrt ádeilu á hana, hvorki frá ráðherrum né heldur frá öðrum. Þessi reglugerð var sett - ekki vegna þeirrar umræðu sem fram fór á þeim tíma um bílamál bankastjóra heldur vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu um langan tíma um bílamál ráðherra. Ég hef ekki annað svar við spurningu fyrirspyrjanda.

En ég vil benda á það — það hefur áður komið fram hjá mér í þessum ræðustól — að ég hef litið á þessi bílafríðindi ráðherra sem eins konar kjaramál ekki síður en bankastjórar líta á sín bílafríðindi og önnur fríðindi sem kjaramál. En mér þótti rétt að setja þessa reglugerð þrátt fyrir það. Ráðherrar eru þá þeir einu í þjóðfélaginu sem hafa tekið á sig kjaraskerðingu og má segja með brosi á vör því ég minnist þess ekki að neinn hafi verið á móti.

Hitt er svo annað mál að við skulum átta okkur á því að ráðherrar eru kosnir til tiltölulega skamms tíma og gegna yfirleitt störfum stuttan tíma, eitt, tvö kjörtímabil, það er undantekning ef það eru einstaklingar sem gegna ráðherrastörfum í mikið lengri tíma. En aftur á móti eru bankastjórar ráðnir til langs tíma og yfirleitt ævilangt. Það er því ekki hægt að bera saman störf þessara tveggja starfshópa.

Ég lít ekki svo á að rn. hafi verið að blanda sér í þau störf sem bankaráðunum ber að sinna. Bankaráðin geta eftir sem áður ákveðið kjör bankastjóra. En bankaráðin tóku þá ákvörðun einhvern tíma — sem ég get nú ekki dagsett — að í bílamálum a. m. k. skyldu kjör bankastjóra vera sambærileg við kjör ráðh. og það hafa þau verið. Ef aftur á móti þessi ákvörðun bankaráðanna á sínum tíma er áfram í gildi þá nær þessi reglugerð yfir bílamál ráðh. líka yfir bílamál bankastjóra. En það er bankaráðanna að taka þá ákvörðun. Ég segi fyrir mína parta að væri ég bankaráðsformaður enn þá mundi ég halda fast við það að bankaráðin ákveði kjör starfsmanna bankans, hvort sem þeir eru bankastjórar eða aðrir.