29.05.1985
Efri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5729 í B-deild Alþingistíðinda. (5019)

495. mál, sjúkraliðar

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58 28. maí 1984 um sjúkraliða á þskj. 921. 495. mál Ed. Flm. ásamt mér er hv. þm. Stefán Benediktsson.

Í upphafi áttu sjúkraliðar heimild í lögum. Þá heimild var að finna í 8. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974, en þar sagði m. a. að heimilt sé að þjálla sjúkraliða til aðstoðar við hjúkrun og að um nám þeirra, startsréttindi og skyldur skuli kveðið á í reglugerð.

Þegar þetta ákvæði var lögfest var nám sjúkraliða starfsnám sem hægt var að stunda við nokkur stærstu sjúkrahús landsins. Síðan hefur margt breyst og nám sjúkraliða stöðugt verið bætt og er nú að mestu stundað við Sjúkraliðaskóla Íslands og í nokkrum fjölbrautaskólum um landið.

Fyrir ári síðan voru sett lög um sjúkraliða nr. 58 frá 28. maí. Þar segir í 5. gr. að sjúkraliðar skuli aðeins starfa undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðings. Flm. telja rétt að einskorða ekki starfssvið sjúkraliða við störf undir stjórn hjúkrunarfræðinga eingöngu. 1.eggja þeir því til að 5. gr. laganna verði breytt svo að sjúkraliðar geti einnig starfað undir stjórn læknis eða ljósmóður. Þetta er aðeins eðlileg breyting varðandi nám sjúkraliða. Það hefur eflst og þeir geta stundað hjúkrunarstörf sem heyra beint undir lækna. þ. e. fari þeir ekki út fyrir sitt starfssvið.

Það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að sjúkraliðar fari að taka að sér ábyrgðarmeiri störf en þeir hafa gert hingað til heldur eingöngu að þeir geti starfað á ábyrgð lækna jafnt og hjúkrunarfræðinga. Á fæðingardeildum eða á fæðingarheimilum er ekkert sem mælir gegn því að sjúkraliðar starfi undir stjórn ljósmóður við aðhlynningu sængurkvenna og ungbarna. Einnig má benda á að ljósmæður þurfa að afla sér hjúkrunarfræðimenntunar áður en þær hefja nám við Ljósmæðraskóla Íslands. Það er fráleitt að það skuli brjóta í bága við lög ef læknar fá aðstoð fólks sem telst vera á starfssviði sjúkraliða.

Hjúkrunarfræðingar starfa undir stjórn lækna og það má því telja að stéttaskipting leiði af því að hjúkrunarfræðingar stjórna sjúkraliðum. Ef við héldum rökrétt áfram þá áttu gangastúlkur að vera undir stjórn sjúkraliða og svona koll af kolli. Þetta er eingöngu lagt til til samræmis við aðrar heilbrigðisstéttir sem starfa á ábyrgð sérfræðinga eða annarra heilbrigðisstétta en ekki einskorðast við eina stétt.

Ég tel enga þörf á því að hafa langt mál hér um og tel reyndar að ekki komi mótmæli gegn þessu frv. nema jafnvel frá hjúkrunarfræðingum. Ég hef fengið upphringingar frá sjúkraliðafélögum víðs vegar um land og jafnframt læknum þar sem lögð er mjög mikil áhersla á þetta mál og óskað eftir að þessu verði breytt á þennan hátt. Nú er á döfinni að sjúkraliðar fái viðbótarnám varðandi hjúkrun aldraðra. Það leiðir af sjálfu sér að á minni stöðum úti á landi, þar sem öldrunarheimili eru, vantar oft hjúkrunarfræðinga og þurfa því sjúkraliðar að ganga inn í þau störf að annast sjúka og þá undir stjórn lækna. Það mundi því brjóta í bága við lög ef þessu ákvæði yrði ekki breytt.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr- og trn.