05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Í tilefni af aths. hv. 3. þm. Suðurl. Árna Johnsen verð ég að ítreka það, sem ég sagði þegar málið var seinast til umr. hér, að ég varð því harla feginn þegar ég varð var við að þm. Sjálfstfl. blygðast sín fyrir afskipti forustumanna sinna af þessu máli. Og ég er harla feginn því að nú skuli enn einn þm. flokksins hafa bæst í hópinn og dregið í efa að Sjálfstfl. sé ýkja mikið viðriðinn þetta mál. Það sýnir þó, þrátt fyrir ókunnugleikann sem felst í aths., að hv. þm. blygðast sín fyrir að Sjálfstfl. sé dreginn inn í þetta mál eins og hlýtur að vera gert.

Auðvitað er Sjálfstfl. rammflæktur í þetta mál. Það er vitað og er ekki mótmælt af einum eða neinum að rekin var sjóræningjastöð í húsi flokksins og þegar lögreglan kom á vettvang gerðist það, sem mörgum kom á óvart, að í staðinn fyrir að greiða fyrir því að leit gæti farið fram, þannig að úr því fengist skorið hverjir þarna voru að verki, beitti framkvæmdastjóri flokksins aðstöðu sinni til að hindra það að leit færi fram. Í kjölfar þess er líka vitað að ráðherrar flokksins hindruðu að lögreglan gegndi skyldustörfum sínum til að finna þessa stöð í húsinu.

Það er líka sérkennileg staðreynd málsins að þegar taka átti ákvörðun um hvort Ríkisútvarpið hæfi aftur störf með fréttasendingum voru fulltrúar Sjálfstfl. afar tregir til að veita atbeina sinn til þess að slíkt mætti gerast og vildu helst greinilega viðhalda því ástandi sem lengst að sjóræningjastöðvarnar væru í fullum gangi, en Ríkisútvarpið hljótt. Þetta er staðreynd. Þetta eru allt staðreyndir.

En svo er aftur komið að hlutdeild formanns Sjálfstfl. Það má vel vera að menn túlki mismunandi þau orð hans sem mælt voru í Sþ. á öðrum þingdegi. Ég átti von á því að ef formaður Sjálfstfl. minntist á þetta mál hér í þingræðu mundi hann fordæma þau lögbrot sem framin voru á útvarpslögum, en það gerði hann ekki. Og það er það sem er það athyglisverða í málinu. Í stað þess að fordæma lögbrotin lýsti hann því yfir, eins og hér kom fram, að ekkert væri óeðlilegt við að menn settu upp svona stöðvar og var greinilega að hreykjast af því að þessar stöðvar hefðu verið settar upp og Ríkisútvarpið væri óvirkt. Hann var greinilega að nota þetta mál til framgangs og stuðnings ákveðnum baráttumálum Sjálfstfl. Það er þess vegna sem hlutdeild formanns Sjálfstfl. hlýtur að vera dregin inn í myndina.

Að lokum, vegna þess að umr. hefur snúist hér um hvort umrædd starfsemi hafi átt sér stað í húsi Sjálfstfl. eða ekki og tveir hv. þm. hafa dregið það mjög í efa, vil ég benda á í allri hógværð að mér er sagt að einn af hv. þm. Sjálfstfl. sem sæti á í þessari deild viti gjörla hvernig málum var háttað og geti upplýst greiðlega hvort það sé rétt að umrædd útvarpsstöð hafi verið rekin í húsi Sjálfstfl. eða ekki. Sá hv. þm. heitir Eyjólfur Konráð Jónsson og á sæti hér í deild. Ég mundi eindregið mælast til þess, ef hann sæi sér það fært, að hann gerði grein fyrir vitneskju sinni um þetta mál. Ég er ekki að segja að hann hafi staðið fyrir þessum útvarpsrekstri í húsi Sjálfstfl., ég hygg að hann hafi verið lítt hrifinn af þeirri starfsemi, en ég hygg einnig, og hef það eftir ýmsum heimildum, að hann hafi komið nokkuð við sögu þegar stöðin var fjarlægð úr húsinu og mundi því geta veitt mikilvægar upplýsingar í þessu sambandi úr því að hv. þm. Sjálfstfl. eru að leyfa sér þann munað að draga í efa að þessi stöð hafi verið þar starfrækt sem allur landslýður veit og mun sannarlega koma á daginn þegar rannsókninni lýkur.