29.05.1985
Efri deild: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5730 í B-deild Alþingistíðinda. (5028)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál er einfalt í sniðum og hv. þdm. þekkja það raunar. Það hefur hlotið einróma afgreiðslu í Nd. Alþingis. Í athugasemdum segir að með þessu lagafrv. sé gerð tillaga um að fella úr gildi ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o. fl. nr. 13/1979, um verðbætur á laun. Þessi ákvæði hafa ekki verið virk nú um tveggja ára skeið en þau mundu öðlast nú 1. júní gildi að nýju er bann við lögum nr. 71/1983 fellur úr gildi.

Í samkomulagi stjórnarflokkanna frá í september í fyrra var talað um að framlengja þessu banni en nú er frá því horfið í samkomulagi við launþegasamtök og aðila vinnumarkaðarins þannig að um frjálsræði verði að ræða varðandi verðbætur á laun en ekki bann við verðbótum.

Hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur einnig einróma samþykkt að mæla með samþykkt þessa frv. en eins og fram kemur í athugasemdum sem ég las hér upp áðan væri í öllu falli skemmtilegra að lög þessi öðluðust gildi fyrir 1. júní n. k. Þar sem ég veit að allir nm. í hv. fjh.- og viðskn. eru sammála um að greiða fyrir þessu máli legg ég til að reynt verði að afgreiða það sem lög frá Alþingi á nýjum fundi hér á eftir ef allir eru sammála um að veita til þess afbrigði.