05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Þetta mál fer nú að verða allítarlega rætt hér í þessari hv. deild og ég hefði satt best að segja ekki kvatt mér hljóðs hér aftur ef ekki hefði komið til sú endemis ræða, leyfi ég mér að segja, sem hv. þm. Árni Johnsen, 3. þm. Suðurl., flutti áðan. Ég vona sannarlega að hans flokksblað geri þessari ræðu hans mjög ítarleg skil á morgun og birti hana helst orðrétta. Þá væri raunar ástæða til þess að blaðið birti þannig fleiri ræður sem þessi hv. þm. flytur, þannig að hans kjósendur á Suðurlandi megi gjörla sjá og lesa með hverjum hætti málflutningur hans er á hinu háa Alþingi.

Hann ræddi um að það hefði verið ýjað að því að þessi útvarpsrekstur í Valhöll hefði verið á vegum sjálfstfl. og nú skal ég segja hv. þm. Árna Johnsen hvers vegna menn segja það.

Í fyrsta lagi hefur framkvæmdastjóri Sjálfstfl. greint frá því í viðtali við Morgunblaðið að hann hafi staðið að þessum útvarpsrekstri og átt að honum aðild og haft þar nokkurt frumkvæði. Hann vissi að vísu ekki nákvæmlega hvað sent var út allan tímann, eins og hann orðaði það í viðtalinu við blaðamanninn.

Það kemur fram líka í þessu viðtali að það hafi verið sent út úr bíl sem hafi staðið þarna á Valhallarhlaðinu. Halda menn að radíóeftirlitsmenn Landssímans, sem komu með miðunartæki þarna á staðinn, hefðu ekki fundið það og séð ef útsending hefði átt sér stað út úr bíl þarna fyrir framan húsið?

Það hefur líka komið fram í þessum umræðum að framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstfl. átti aðild að þessu máli og starfaði við þetta útvarp.

Það hefur komið fram í þessum umræðum að þessar útsendingar fóru fram úr húsi Sjálfstfl., Valhöll. Það var sagt frá því í þessu útvarpi að teknar hefðu verið myndir fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar af þessari starfsemi. Þær voru teknar í Valhöll.

Hvers vegna koma menn ekki hreint fram í þessu máli og viðurkenna það sem rétt er, viðurkenna að þarna hafi orðið mistök? Þá hefði aldrei orðið neitt mál úr þessu, menn hefðu bara viðurkennt það og harmað að þetta skyldi hafa átt sér stað undir verndarvæng stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Menn kusu að gera það ekki. Það er verið að hylma yfir þetta í Morgunblaðinu og búa til einhvers konar nýjan hálfsannleik. Svo er verið að velta Sjálfstfl. upp úr þessu, sagði hv. þm. Er það nokkuð óeðlilegt? Þessar staðreyndir liggja fyrir. Og við sem flytjum þessa till. til þál., sem hér er til umr., viljum að hér verði staðreyndirnar dregnar fram í dagsljósið og að ljós verði afskipti ráðh. af þessu máli. Hvers vegna máttu radíóeftirlitsmennirnir ekki fara upp á þak Valhallar og skoða þar loftnet og leiðslur? Hvers vegna? Ef menn höfðu ekkert að fela í því húsi eða þar uppi á þaki, hver var þá ástæðan fyrir þessari neitun?

Hv. þm. seilist langt þegar hann rifjar upp 16 eða 17 ára gamla frétt úr sjónvarpinu þar sem ég átti viðtal við Aðalstein ráðsmann á Korpúlfsstöðum. Það var ekki Þorgeir í Gufunesi og það var enginn bóndi sem þarna kom við sögu. Kveikja þessarar fréttar var sú að Dýraverndunarfélagið, minnir mig, benti okkur á, sem störfuðum á fréttastofu sjónvarpsins, þetta var um miðjan vetur, sjálfsagt í febrúar, að úti í Engey væru hross, en þar væri ekkert vatnsból og þar væri ekkert skjól, aðeins berangur. Hv. þm. Árni Johnsen getur haft hvaða skoðun á því sem hann vill hver minn hlutur að þessu máli var. Staðreynd málsins var sú að hrossin voru flutt burt úr Engey strax eftir þetta viðtal vegna þess að vera þeirra þar stangaðist áreiðanlega á við dýraverndarlög. Ég veit ekki hversu mikill dýravinur hv. þm. Árni Johnsen er, ég veit það ekki. (Gripið fram í.) Já, ég heyri að hv. þm. Valdimar Indriðason minnist á súludráp í Eldey. Ég ætla ekki að gera það neitt að sérstöku umtalsefni. Það kemur svo sem ekki þessu máli við. (ÁJ: Hvaða súludráp í Eldey?) Eða súludráp í Súlnaskeri. (Gripið fram í.) Hann hefur víða komið við sögu súlunnar, þessi hv. þm. Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umtalsefni hér. En mér finnst það nú harla einkennileg röksemdafærsla að þegar verið er að verja málstað Sjálfstfl. í þessu máli skuli seilst 16 ár aftur í tímann, þegar fréttastofa sjónvarpsins var að fjalla um það sem ég held að hafi verið misþyrming á dýrum, og ég er sannfærður um að var misþyrming á dýrum úti í Engey. Ég sé ekki eftir þeim hlut sem ég átti að því máli og tel mér það heldur til tekna frekar en hitt að hafa bent á að þarna var verið að pynta skepnur. (Gripið fram í: Það er samlíkingin.)

Já, það voru ýmsar samlíkingar sem komu fram í ræðu hv. þm., og þó að hann kunni ekki skil og mun á vatnaskilum og flóði og fjöru, þá er engin ástæða til að fara sérstaklega út í það. En það var athyglisvert að þegar hann vitnaði í ræðu síns formanns og samþm. af Suðurlandi las hann ekki alveg nógu langt. Hann hefði átt að hafa tilvitnunina svolítið lengri, þegar hans formaður, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, fór að tala um ástandið í Póllandi og Suður-Ameríku, þar sem í Póllandi hefðu menn stofnað frjáls verkalýðsfélög, og var að bera þetta tvennt saman. Ég held að þetta hafi verið ákaflega óheppilegar samlíkingar hjá hv. formanni Sjálfstfl. Hann sagði líka og það man ég orðrétt, hv. þm.: „Menn hafa fundið æðra lögmál.“ Hv. þm. getur flett þessu upp í þingtíðindunum. Hann bara las ekki nógu langt. Menn hafa fundið æðra lögmál. — Og með því var formaður Sjálfstfl. að segja að þeir sem tóku lögin í sínar hendur og fóru að reka útvarpsstöðvar hér hefðu fundið æðra lögmál. Nú er þetta röksemd sem haldið hefur verið fram í þessu máli, en ég átti satt að segja ekki von á að heyra hana frá formanni Sjálfstfl. Það hefði verið ólíkt meiri mannsbragur að því af hálfu þessa flokks að biðja þjóðina afsökunar á því löglausa athæfi sem átt hafði sér stað í húsakynnum flokksins.

Ég tel alveg víst að þetta hafi ekki verið gert með samþykki formannsins eða annarra stjórnenda flokksins, annarra en þeirra sem ég hef þegar getið, framkvæmdastjóra flokksins og framkvæmdastjóra þingflokksins. Ég held að þetta hafi verið frumhlaup og hrikalegt dómgreindarleysi. En hefðu menn áttað sig á því að biðjast velvirðingar á því sem gerst hafði hefði þetta mál aldrei orðið það mál sem það er núna. Ég hygg líka að hæstv. ráðherrar, sumir hverjir, hafi ástæðu til þess að biðjast afsökunar á sínum afskiptum af þessu máli.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri og held að þetta mál fari senn að verða útrætt að sinni.