05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá upprifjun hv. þm. á fréttinni góðu á sínum tíma, en skemmtilegt hefði nú verið að sjá á ný svipbrigðin á þáverandi fréttamanni þegar hann dró upp spýtuna.

Hv. þm. Eiður Guðnason minntist á súlnadráp í Eldey, átti þar reyndar við súlnadráp í Súlnaskeri. Hann ýjaði hér að gerð fræðslukvikmyndar sem gerð var fyrir sjónvarpið um súlnaveiði í Súlnaskeri við Vestmannaeyjar. Þar slóst sjónvarpið í för í þeim eina tilgangi að gera fræðslumynd um þennan gamla veiðimáta. Hv. þm. Eiður Guðnason gerði texta fyrir hönd sjónvarpsins við þessa mynd. Sem dæmi um það hvernig menn eiga ekki að vinna og hvernig þar var unnið á óeðlilegan hátt var ein setning þar sem veiði átti sér stað, en textahöfundur Eiður Guðnason setti inn þessa setningu: „Hvað skyldu dýraverndunarmenn segja nú?“ Slík setning á ekki heima í hlutlausri fræðslumynd, hvorki á vegum sjónvarpsins né einstakra opinberra fyrirtækja. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig ruglað er saman málum.

Það var loðinmulluleg spurning sem hv. þm. Stefán Benediktsson vildi fá svar við, klippt og klárt svar, og er auðvelt að gefa slíkt. Sjálfstfl. hefur enga aðild átt að rekstri útvarpsstöðva á Íslandi.

Svar við annarri spurningunni, um það hvort undirbúningur aðila sem tengjast Sjálfstfl. hafi ekki átt sér stað: Þetta er spurning sem ég býst nú við að þm. ætlist ekki til að sé svarað hér því þar væri verið að hnýsast í persónulega hætti fólks og ég blanda mér ekki í slíkt hreint út sagt. (StB: Þú vilt sem sé ekki svara.)

Hv. þm. Ragnar Arnalds ítrekaði það sem skoðun sína að Sjálfstfl. væri rammflæktur í útvarpsreksturinn og er þá orðið þéttriðið netið, en nefndi sem dæmi að ráðherrar Sjálfstfl. hefðu staðið í vegi fyrir að leit ætti sér stað í húsinu Valhöll sem hýsir starfsemi margra fyrirtækja — og grundvallaratriðið varðandi þann þátt og þá að öllum líkindum staðreynd að frá þessu húsi komu sendingar. Hann gerði því hins vegar ekki skil hvort laganna verðir hefðu réttar heimildar til þess að ganga inn á ákveðin svæði, að þeir færu að lögum. Það er mergurinn málsins. Frá öllum hliðum séð verður að ætlast til þess að menn fari að lögum ekkert síður lið lögreglunnar en annarra.

Hann vék einnig að því að sjálfstæðismenn hefðu verið á móti því að útvarpsrekstur hæfist í Ríkisútvarpinu. Þetta er auðvitað í sama dúr, útúrsnúningur og blaður. Málið hefur fremur snúist um það, eins og í mörgu öðru er varðaði verkfall BSRB, hvort kjaradeilunefnd væri sá aðili sem ætti að afgreiða mál eða verkfallsnefnd BSRB. Að íslenskum lögum er það kjaradeilunefnd sem á að vera eins konar hæstiréttur í deilumálum er upp kunna að koma og annað er óeðlilegt. Það getur ekki staðist að einstaka verkfallsaðilar, úr hvaða stétt sem er, geti tekið að sér að stjórna Íslandi.

Það má minnast á það, vegna ummæla hv. þm. Ragnars Arnalds um að sendingar hafi átt sér stað frá Valhöll, að ég reikna ekki með að þingflokkur Alþb. vilji bera ábyrgð á því sem þingflokkur Alþfl. samþykkir á þingflokksfundum sínum þótt þeir séu haldnir í sama húsi, þ.e. í hv. Alþingi. En þannig standa nú málin samt. Það er verið að nudda saman vangaveltum og spurningum um það hvort Sjálfstfl. hafi staðið að einhverju ólöglegu eða hvort menn, sjálfstæðir menn, standi að einhverju. Þar verður að gera greinarmun á.