29.05.1985
Neðri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5738 í B-deild Alþingistíðinda. (5053)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Frsm. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir) (frh.):

Herra forseti. Fyrir helgi frestaði ég að ósk forseta framsögu þar sem ég mælti fyrir áliti minni hl. félmn. um frv. til l. um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Var ég þar komin í ræðu minni að gera grein fyrir sjónarmiðum sem fram komu á ráðstefnu sem haldin var fyrir réttu ári síðan um tæknibreytingar í atvinnulífinu með tilliti til jafnréttis kynjanna. Þegar ég varð að fresta ræðu minni var ég komin að tilvitnun í orð fulltrúa Framsfl. á þessari ráðstefnu, Helgu Jónsdóttur, aðstoðarmanns forsrh.

Aðstoðarmaður forsrh. vitnaði í kafla úr bók sem út kom á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf. Ber kaflinn yfirskriftina: „Hvers vegna að óttast örtölvutæknina?“ Þar kemur fram að svartsýnisspár um að tölvutækni hafi í för með sér stórfellt atvinnuleysi hafi hreint ekki ræst. Hins vegar verði óhjákvæmilega miklar breytingar á störfum. M. a. er mikil eftirspurn eftir fólki til ýmissa rútínustarfa sem kvenfólk hefur að mestu gegnt hingað til. Á það t. d. við um vélritun, hraðritun, bókfærslu og skjalavörslu og viss gjaldkerastörf.

Aðstoðarmaður forsrh. benti á að það væri ekki aðeins á Íslandi sem það tíðkaðist að karlar væru í ábyrgðarmeiri og tekjuhærri störfum en kvenmenn. Samkvæmt nýlegri könnun í Svíþjóð eru 90% yfirmanna í tölvuvinnslu karlkyns en 97% almennu starfanna í tölvumötuninni eru unnin af kvenmönnum. Þessi niðurstaða er skýrð þannig að konur sæki síður ýmiss konar námskeið í starfsþjálfun og nýjum greinum á vegum atvinnurekenda en karlar. Fulltrúi Sjálfstfl. á þessari ráðstefnu, Magnús L. Sveinsson. benti á að aukin notkun örtölvu og háþróaðrar tækni mundi hafa áhrif á hæfni íslensks vinnuafls í framtíðinni. Minni þörf yrði fyrir verkkunnáttu en meiri þörf fyrir hugvit. Þetta mundi hafa mikil áhrif á þjálfun og endurmenntunarþörf í ýmsum greinum atvinnulífsins. Sérstaklega yrði mikil eftirspurn eftir vel þjálfuðu starfsfólki með sérþekkingu á örtölvum og tölvutækni. Orðrétt sagði Magnús L. Sveinsson, fulltrúi Sjálfstfl., í sínu erindi:

„Ljóst er að mjög mikil breyting mun verða í flestum starfsgreinum og munu sumar hefðbundnar starfsgreinar jafnvel leggjast niður með öllu. Nám sem fjöldi manna hefur gengið í gegnum nýtist ekki lengur og fólk verður að ganga í gegnum nýja starfsmenntun og tileinka sér algerlega nýjar starfsaðferðir.“

Hilmar Jónsson talaði á þessari ráðstefnu fyrir hönd Alþýðusambands Íslands. Hann sagði m. a.:

„Íframleiðslunni hafa vélmennin ýmsa kosti umfram mannfólkið. Þau lúta ekki sömu reglum um hættuleg efni, vinnuvernd og vinnutíma. Það er jafnvel í alsjálfvirkum verksmiðjum hægt að láta vélmenni ganga allan sólarhringinn án þess að það þurfi að kveikja ljós yfir nóttina. Auðvitað er gott að geta losað fólk undan óþrifalegum og hættulegum störfum en breyting á starfsfyrirkomulagi, sem leiðir af sér fækkun starfa, leiðir af sér mörg vandamál. Á það skal bent að tölvutækni mun hafa mjög mismunandi áhrif á einstakar greinar framleiðslu- og atvinnulífs. Neikvæðustu áhrifin verða í þjónustugreinum. Þó getur einnig orðið um hlutfallslega mikil áhrif að ræða í frumvinnslugreinum. En þegar haft er í huga að atvinnutækin eru þegar orðin fá í þessum greinum gætir áhrifanna ekki eins mikið.“

Síðar í erindi sínu sagði Hilmar:

„Í dag verða tæknibreytingar í fyrirtækjum víðast þannig að stjórnendur þeirra leita að hagkvæmustu framleiðsluaðferðum á hverjum tíma og telji þeir að athugun lokinni skynsamlegt að innleiða nýja tækni, þá gera þeir það. Það er undir hælinn lagt hvort talað er við starfsfólk fyrr en ef til þess kemur að flytja þurfi það til, þjálfa fyrir ný verkefni eða því er sagt upp.“

Orðrétt sagði síðan Hilmar Jónsson hjá Alþýðusambandi Íslands:

„Það skiptir okkur öllu að sjá fyrir í tíma hvert tækniþróunin stefnir og á hvaða sviði er líklegast að ný tækni muni valda straumhvörfum á næstu árum. Ef vélmenni leysa mannshöndina af hólmi í fiskvinnslu á næstu árum gæti orðið alvarlegt ástand í flestum landshlutum. Hvert fyrirtæki um sig væri þess ef til vill ekki megnugt að stýra þróuninni. Valið fyrir hvert fyrirtæki gæti verið val milli þess að hætta rekstri eða fækka yrði starfsfólki. Það er brýnt að stytta vinnutíma á Íslandi, en sú stytting má ekki vera þannig að upp komi atvinnuleysi í einstökum greinum og landshlutum. Það er mál þjóðarinnar allrar að taka á þeim vandamálum sem tæknibreytingunni fylgja. Stjórnvöld verða að gangast fyrir rannsókn á tölvuþróun og leitast við að stýra henni á heillavænlegan hátt í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Stjórnvöld verða á sama hátt að haga efnahagsstefnunni þannig að hugsanlegum samdrætti í starfsmannafjölda í einni grein verði mætt með þenslu á öðrum sviðum.“

Í lok erindisins sagði Hilmar:

„Þegar litið er til þess hvaða áhrif tölvutæknin komi til með að hafa á störf kvenna á vinnumarkaði má ætla að þau verði einnig í iðnaði og verslun. Tölvustýrð tæki koma til með að leysa af hólmi konur í fataiðnaði og jafnvel fiskiðnaði. Í verslun og skrifstofurekstri minnkar þörf fyrir störf kvenna vegna nýrrar tækni.“

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þau erindi sem fram komu á þessari ráðstefnu Jafnréttisráðs um áhrif tæknibreytingar á atvinnulífið með tilliti til jafnréttis kynjanna. Ég tel að niðurstaðan af þessari ráðstefnu sé reyndar á einn veg og styðji svo ekki verði um villst að samþykkja beri það frv. sem hér liggur fyrir um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Fulltrúar stjórnmálaflokka og samtaka sem þar töluðu bentu í reynd allir á mikilvægi þess að tryggja atvinnuöryggi starfsfólks, skapa því skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni og að brýn þörf væri á starfsþjálfun og endurmenntun og þá ekki síst að skapa skilyrði fyrir ófaglært fólk að aðlagast tæknivæðingunni.

Herra forseti. Við þetta mál verður ekki skilið nú, þegar í það stefnir hér á hv. Alþingi að fresta að taka ákvörðun í þessu máli og vísa því frá, og er óhjákvæmilegt að gera nokkra grein fyrir þeirri skýrslu sem nýlega er út komin á vegum Kvenréttindafélags Íslands og fjallar um tölvutæknina, hlut kvenna og karla á vinnumarkaðinum. Til að lengja ekki þessar umræður frekar en orðið er vil ég aðeins með örfáum orðum vitna í það athyglisverðasta sem fram kemur í þessari skýrslu, jafnframt því sem ég hvet hv. þm. til að kynna sér þessa merku skýrslu. Í skýrslunni segir m. a.:

Eins og nú er háttað er verksvið kvenna á vinnumarkaðinum þrengra en verksvið karla. Einnig er hlutur kvenna í hinni nýju tæknibyltingu atvinnulífsins lítill sé hann borinn saman við hlut karla. Í sænskri könnun, sem gerð var á kvennaári 1975, kom fram að 80–90% þeirra sem vinna við nýsköpun, þ. e. kerfisritun, áætlanagerð um mötun tölva og stjórnun á tölvusviði voru karlar. Konur voru hins vegar 97% þeirra sem unnu við götun tölvuspjalda og skráningu tölvufræðilegra gagna. Karlar virðast vera brautryðjendur á þessu sviði. Þeir skapa og innleiða hina nýju tækni í atvinnulífinu en konur fylgjast með úr fjarlægð. Í skýrslunni kemur fram að til að athuga stöðu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu sem flytja inn og framleiða tölvubúnað var haft samband við 34 þeirra en könnunin náði til 310 starfsmanna þessara fyrirtækja. Leitað var m. a. upplýsinga um skiptingu kynja á fimm starfssvið innan nefndra fyrirtækja og stofnana. Niðurstaðan varð sú að við sölustörf unnu 85 karlar eða 92% þeirra sem tóku þátt í könnuninni en einungis 7 konur eða 8%. Að þróun hugbúnaðar unnu 92% karlar en einungis 8% konur. Við stjórnun unnu 74 karlar eða 99% þeirra sem spurðir voru og ein kona eða 1%. Ég tel að skýringarinnar sé ekki síst að leita í því að konum er ekki búin viðunandi og eðlileg aðstaða til að aðlagast tæknivæðingunni með endurmenntun og starfsþjálfun. Niðurstaðan er í raun sú að þær konur sem starfa innan þessara fyrirtækja gegna í langflestum tilvikum hinum almennu skrifstofustörfum en karlar gegna nýsköpunar- og stjórnunarstörfum.

Í skýrslunni kemur fram að þegar könnuð var verkaskipting kynja kom í ljós að hlutverk karla í forritunarkerfissetningu er 91% en konur eru þar 9%. Í ritvinnslu, lyklun og skráningu snýst þetta hlutfall við þar sem hlutfall kvenna í þessum störfum er 90% en karla 10%. Í skrifstofustörfum þar sem tölvur eru notaðar eru konur í meiri hluta eða 69% en karlar 31%. Í öðrum störfum innan þeirra fyrirtækja sem þessi könnun tók til og stofnana sem tengjast tölvum beint eða óbeint eru karlar 73% en konur 27%. Stjórnunarstörfin eru nær undantekningarlaust í höndum karla eða 92%.

Í skýrslunni er greint frá því hvaða áhrif það hafði þegar tölvuvæðing var innleidd hjá Gjaldheimtunni. Þar kom fram að síðustu árin áður en innheimta opinberra gjalda var tölvuvædd hafði verið algengt að hver maður ynni 50–100 tíma á mánuði í yfirvinnu. Enn fremur að misjafnlega hefði gengið að fá fólk til að vinna svo mikið. Vinnuaðstaða hefði verið mjög léleg, hávaði í bókhaldsvélum óþolandi og þrengsli mikil. Margir höfðu kvartað yfir höfuðverk og vöðvabólgu, einkum þeir sem unnu í bókhaldsvinnu, en það höfðu alla tíð verið konur. Engum starfsmanni var sagt upp vegna tölvuvæðingar en hins vegar hefur verið áætlað að yfirvinna áður en tölvuvæðingin kom til hafi jafngilt fjórum stöðugildum. Helstu breytingar við tölvuvæðinguna voru þær að yfirvinna hvarf svo til alveg og kom það mest niður á konum, þó einkum þeim sem voru í lægri launaflokkunum. Einnig er á það bent að hjá Sjóvá hafi greinilega orðið vart við fækkun starfsmanna vegna tölvuvæðingarinnar og er talið að áframhald verði á þeirri þróun. Störfum þar hefur fækkað úr u. þ. b. 70 í u. þ. b. 50 á síðustu árum og það væru eingöngu störf sem konur hefðu áður gegnt.

Af þeim kafla í skýrslunni þar sem fjallað er um menntun og menntunarkröfur á vinnumarkaðinum má ráða að konur séu miklu verr undir tölvuvæðinguna búnar en karlar vegna minni menntunar. Af sjálfu leiðir því að þær eru í enn meiri þörf fyrir endurmenntun og starfsþjálfun. Niðurstöður þess kafla eru þær m. a. að konur séu meira í rútínustörfum og í skýrslu frá International Labour Office er því spáð að þau störf muni hverfa fyrst vegna þess að einfaldast er að tölvuvæða þau.

Samkvæmt þessari könnun var fremur jöfn kynskipting á tölvunámskeiðum hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur var um fremur ójafna kynskiptingu að ræða. Vorið 1980 var boðið upp á námskeið sem alls 146 nemendur tóku þátt í, 114 piltar og 32 stúlkur. Reiknistofnun Háskólans býður upp á námskeið sem ætlað er sérfræðingum í stofnunum og fyrirtækjum. Í maí og júní 1984 sóttu 50 nemendur námskeið hjá stofnuninni, 37 karlar og 13 konur. Bent er á að á síðasta skólaári hafi um 1400 nemendur sótt tölvunámskeið hjá tölvufræðslu Stjórnunarfélags Íslands. Voru hlutföllin þannig milli kynja að karlar voru 52% en konur 48%. En þrátt fyrir fremur jafna skiptingu er þátttaka á námskeiðunum mjög misjöfn eftir kynjum. Karlmenn sækja helst í áætlunargerð, gagnasöfnunarkerfi og forritun. Voru 82% karlmanna t. d. á námskeiðum í áætlunargerð meðan konur sem sóttu námskeið í ritvinnslu voru 90%.

Í skýrslunni er bent á að tölvuvæðing starfa geti gert fólki kleift að stunda a. m. k. hluta vinnu sinnar heima, t. d. með því að staðsetja tölvu á heimili starfsmanna sem síðar verði tengd við tölvunet fyrirtækisins. Það að færa vinnuna heim getur dregið úr aðskilnaði fjölskyldu og atvinnulífs, segir í skýrslunni. Ábyrgð á heimilum hvílir yfirleitt á konum og því gæti heimavinna við tölvu virst vænlegur kostur fyrir þær en jafnframt viðhaldið hinni hefðbundnu verkaskiptingu kynjanna innan heimilisins.

Hin hliðin á þessu er sú að starf sem eingöngu er unnið innan veggja heimilisins getur leitt til félagslegrar einangrunar þess einstaklings sem því sinnir. Störf sem konur taka með sér heim eru oft og tíðum verr launuð en störf úti á vinnumarkaðinum. Ef tölvuvinnsla í heimahúsum fer að færast í aukana er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þeim kjörum sem bjóðast fyrir þá vinnu, segir í þessari skýrslu.

Bent er á að konur séu í miklum meiri hluta þjónustugreina hér á landi eða 64%. Tölvuvæðingin hafi nú þegar haft mikil áhrif á störf í þessum greinum, t. d. í bönkum og tryggingastofnunum. Aukinni hagræðingu gæti m. a. fylgt að störfum fækki og haft þau áhrif á vinnumarkaðinn í heild að atvinnuleysis taki að gæta. Í niðurstöðu þessarar skýrslu, þar sem fjallað er um nýjar leiðir og úrbætur, er ekki síst bent á nauðsyn þess að koma á sérstökum endurmenntunar- og þjálfunarnámskeiðum, m. a. fyrir þá sem missa störf, fyrir eldra fólk og þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn eftir nokkurt hlé og fyrir nýliða. Enn einu sinni bendi ég á að það er einmitt markmið þessa frv., sem nú er lagt til af meiri hl. hv. félmn. að vísa til ríkisstj., að koma á skipulagðri endurmenntun vegna tæknivæðingarinnar.

Enn fremur er bent á það í þessari skýrslu að tæknivæðing og aðlögun að henni haldist í hendur þannig að atvinnugreinar tölvuvæðist með þeim hraða sem þær sjálfar ráða við með tilliti til menntunar og þátttöku starfsfólks.

Ég vil hér í lokin í umfjöllun um þessa skýrslu víkja nokkrum orðum að kaflanum um samantekt og niðurstöður. Þar segir með leyfi forseta:

„Í upphafi var gengið út frá þeirri tilgátu að hlutur kvenna og karla á vinnumarkaðinum eftir tilkomu tölvutækninnar væri fremur ójafn með tilliti til nýsköpunar, stjórnunar og áhrifa á þessu sviði. Þessi tilgáta virðist skv. gerðri athugun hafa við rök að styðjast. Margt bendir til þess að hin hefðbundna kynskipting vinnumarkaðarins sé að teygja anga sína inn á svið tölvutækninnar. Erlendar spár varðandi breytingar á atvinnutækifærum vegna tölvuvæðingar sýna að þau störf sem í dag eru hefðbundin kvennastörf, eins og þjónustu- og skrifstofustörf ýmiss konar, koma ýmist til með að hverfa eða gerbreytast.

Krafa um menntun á sviði tölvutækninnar verður æ meiri. Í þessu sambandi má vekja athygli á að konur sem starfa innan tölvuiðnaðarins hafa mun minni menntun en karlar og fá þar af leiðandi ekki sérhæfð störf á þessum vettvangi heldur þau störf þar sem minni menntunar er krafist. Athugun leiddi í ljós að í skólakerfinu og í hinum ýmsu sérskólum sýna konur minni áhuga á tölvutækninni þó að námsárangur þeirra sé ekki lakari en karla í tölvunámi. Talið er að þeir sem eru orðnir tölvuvanir þegar skólaskyldu lýkur hafi forskot fram yfir hina sem verða að byrja á því að kynna sér þessa tækni og yfirvinna tortryggni í hennar garð.

Af framansögðu má það vera ljóst að hér er á ferðinni varhugaverð þróun hvað varðar hlut kvenna í tölvuvæðingu atvinnulífsins. Full ástæða er fyrir konur að fylgjast náið með framvindu þessara mála og sjá til þess að ekki stefni í það óefni sem ýmislegt virðist nú benda til. Á undanförnum árum hefur margt mikilsvert áunnist í jafnréttisbaráttu kvenna, enda þótt langt sé í land á sumum sviðum, t. d. að konur fái sömu laun og karlar fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna hefur stóraukist undanfarin ár og athuganir hafa sýnt að það þarf tvo til þess að framfleyta meðalstóru heimili. Hvort þessi þróun er til góðs eða ills verður ekki metið hér, en ljóst er að ekki verður lengur horft fram hjá mikilvægi vinnuframlags kvenna í þjóðfélaginu.

Áhrif kvenna á þróun atvinnumála almennt hafa þó verið hverfandi lítil og ekki í hlutfalli við fjölda þeirra á vinnumarkaðinum. Enn þá er það sjaldgæft að konur gegni ábyrgðarstörfum eða séu upphafsmenn nýjunga í atvinnulífinu og er hlutdeild þeirra í tölvuvæðingunni lýsandi dæmi um þetta. Samt er því þannig farið að tölvuvæðingin hefur einmitt komið hvað mest inn á þá starfsgrein sem löngum hefur verið álitin sérgrein kvenna, þ. e. skrifstofustörfin. Á þessu sviði hefur tölvutækninni fleygt fram á síðustu árum en án teljandi þátttöku kvenna í nýsköpun hennar. Konur geta sjálfar að vissu marki ráðið bót á þessu með virkri þátttöku í innleiðingu og mótun nýrra starfshátta sem fylgja í kjölfar tölvuvæðingar. Hugarfarsbreytinga er þörf hjá konum jafnt sem körlum svo að áhrif hinna gamalkunnu viðhorfa til skiptingar í kvenna- og karlastörf megi hverfa. Tölvutæknin er einmitt til þess fallin að draga úr hefðbundinni skiptingu starfa þar sem atriði eins og t. d. líkamsburðir skipta engu máli í störfum þar sem henni er beitt. Þetta gerist ekki sjálfkrafa. Konur verða að vakna til vitundar um nauðsyn menntunar og þess að fylgjast náið með nýjungum á þessu sviði sem öðrum.

Herra forseti. Ég hef talið ástæðu til þess að fara jafnítarlega í þetta mál og raun ber vitni til að sýna fram á mikilvægi ákvæðis þessa frv. fyrir konur, en það er ekki síst hagsmunamál þeirra að þeim verði gefið tækifæri til að fá starfsþjálfun og endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu þar sem allar kannanir, sem gerðar hafa verið, benda ótvírætt til þess að atvinnuöryggi kvenna er ekki síst í hættu vegna tæknivæðingarinnar. Þegar sú er raunin að konur búa við tvöfalt vinnuálag ef þær eru á vinnumarkaðinum, vinna þar kannske fullan vinnudag og eiga þá heimilisstörfin eftir að afloknum störfum á vinnumarkaðinum, þá gefur það auga leið að þær eru ekki í aðstöðu til þess að sækja námskeið sem nú er boðið upp á í tölvunámi eða námskeið til þess að aðlagast tæknivæðingunni. Það er ekki síst nauðsynlegt að hv. alþingismenn skilji þessa staðreynd og hve það er brýnt að konur jafnt sem aðrir og ekki síst ófaglært verkafólk hafi aðstöðu til þess að sækja námskeið til að aðlagast tæknivæðingunni í sínum vinnutíma og þá á launum.

Ég sé líka ástæðu til þess að vitna í ályktun 34. þings Alþýðusambands Íslands um tölvumál en þar segir: „Að því leyti sem ný tækni krefst nýrrar verkkunnáttu verður að gefa starfsfólki kost á endurmenntun þannig að aldrei verði hægt að segja fólki upp störfum í skjóli þess að það kunni ekki með tækninýjungar að fara.“ Í þeirri ályktun er lögð áhersla á að launþegar fái í vinnutíma sínum tækifæri til að fræðast um möguleika tölvanna og þau takmörk sem þeim eru sett og sambandið milli þess hvernig tölvutækninni er beitt og þess hverjir hafa áhrif á tölvuvæðinguna. Segir þar orðrétt að samfara tæknibreytingunni, sem starfsfólk og verkalýðsfélag þess hefur samþykkt, verði starfsfólki tryggð endurmenntun á fullum launum. Niðurstaða 34. þings Alþýðusambands Íslands er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„34. þing ASÍ leggur ríka áherslu á að með samningum og með lagasetningu verði tryggt að sú tækniþróun, sem tölvubyltingin leiðir af sér, verði notuð til þess að bæta lífskjörin og skapa betra mannlíf. Fái atvinnurekendur hins vegar einir að ráða ferðinni og verði tölvuvæðingin eingöngu notuð til þess að þjóna atvinnurekendum munu afleiðingarnar verða stórfellt atvinnuleysi í nær öllum stéttum, störf verða í auknum mæli einhæf og niðurdrepandi og atvinnuöryggi verður minna en það er í dag.

34. þing ASÍ hvetur til almennrar umræðu um þessi vandamál í verkalýðsfélögunum og skorar á verkafólk að vera vel á verði þannig að hlutur þess verði ekki fyrir borð borinn í þessu máli.“

Af skýrslu, sem ég hef undir höndum og unnin er af Þuríði Magnúsdóttur forstöðumanni Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins vegna kynnisferðar sem hún fór í til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs á árinu 1983, kemur fram að menntun starfsmanna í iðnaði á Norðurlöndum er mun fjölþættari en hér og stuðningur ríkisins við námskeiðahald á því sviði mjög mikill. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því hve ríkisframlag t. a. m. Dana, Norðmanna og Svía er mikið varðandi þessi mál, ekki síst í ljósi þess að ég hef orðið vör við það viðhorf í félmn. sem um þetta frv. hefur fjallað og það kom reyndar einnig-fram í framsöguræðu Friðriks Sophussonar, sem talaði fyrir áliti meiri hl., að útilokað sé að standa að samþykkt þessa frv. vegna þess kostnaðar sem það hefur í för með sér. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs hefði þó framlagið einungis orðið skv. ákvæðum frv. 70–80 millj. en miðað við fjárlög í fyrra 58 millj.

Ég bendi einnig á að þegar borinn er fyrir sig mikill kostnaður samfara þessu frv. þá verða menn að átta sig á því að það getur kostað þjóðarbúið enn meira til lengri tíma litið ef ekkert er að gert og ef starfsfólk er ekki, vegna skorts á endurmenntun og starfsþjálfun, fært um að takast á við þær tækninýjungar sem þarf til þess að örva hér framleiðni og hagvöxt. Fram kemur í skýrslu Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins, sem ég hér nefndi, að ríkisframlag Dana á árinu 1982 var 941 millj. danskar kr. Ríkisframlag Norðmanna var á árinu 1981 116 millj. norskar kr. og ríkisframlag Svía var á árinu 1981 3891 millj. sænskra króna. En í þessum löndum þiggja þátttakendur á námskeiðum vegna endurmenntunar laun meðan á námi stendur og eru þau að lágmarki jöfn hámarki atvinnuleysisbóta eins og í frv. þessu er gert ráð fyrir. En endurmenntunin hefur þar að sjálfsögðu þau markmið eins og fram kemur í skýrslu hjá Fræðslumiðstöð iðnaðarins að endurmennta fólk sem ekki fær lengur eða getur sinnt störfum sem það hefur reynslu og/eða menntun til að stunda.

Fólk nýtur að meðaltali átta vikna kennslu en þó geta námskeiðin verið allt að átján vikna löng. Fram kemur að frá því 1978 hafi verið lögð áhersla á þjónustu við konur sem koma út á vinnumarkaðinn eftir lengri fjarveru. En einmitt eitt ákvæði þessa frumvarps, sem hér er til umr., fjallar um það efni.

Fram kemur í skýrslu í Danmörku um þróun endurmenntunar á atvinnumarkaði 1971–1981 að á þessu tímabili hafi orðið geysimikill vöxtur í endurmenntun og starfsþjálfun og fjármagnið til endurmenntunar aukist um 170% eða um 34% á ári að jafnaði. Milli áranna 1980/1981 eykst þátttaka í endurmenntun fyrir faglærða um 24% og hlutur endurmenntunar í heild af útgjöldum til menntamála í Danmörku vex á þessu tímabili úr 2.5 í 5%. Fram kemur að í Noregi hafi atvinnumarkaðsmenntunin sem svo er kölluð og styrkir til fyrirtækja til að endurmennta starfsmenn í stað þess að segja þeim upp haft mjög mikla þýðingu.

Í þessari skýrslu kemur fram að í Svíþjóð sé meginmarkmiðið að fyrirbyggja atvinnuleysi með hvers konar endurmenntun og viðbótarmenntun fyrir þá sem eiga á hættu að missa vinnu, fólk sem á erfitt uppdráttar á vinnumarkaðinum o. s. frv. Allir þátttakendur þiggja laun á meðan þeir stunda endurmenntunarnám og er talið að það séu um 1000 kr. íslenskar á dag. Mismun á launum manna og þeim námsstyrkjum sem greiddir eru greiða atvinnurekendur og greiða þeir einnig launatengd gjöld vegna starfsmanna sinna.

Af því sem ég hef hér lýst er ljóst að á hinum Norðurlöndunum er gert mun meira að því að skapa starfsfólki skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni og tryggja atvinnuöryggi þess vegna tækniþróunarinnar en hér á landi.

Sá rökstuðningur, sem er að finna í nál. meiri hl. fyrir að vísa málinu til ríkisstj., finnst mér ansi léttvægur. Vitnað er til þess í nál. að á vegum ríkisstj. hafi verið og sé unnið að þessu máli. Vænti ég þá þess að meiri hl. eigi við þær stjórnskipuðu nefndir sem starfað hafa í þessum málum önnur á vegum menntmrn. og hin á vegum félmrn. Í annan stað er til þess vitnað í nál. meiri hl. að gert sé ráð fyrir að skýrsla um endurmenntunarmál verði lögð fram á næsta þingi.

Ég vil fyrst segja það varðandi þær tvær stjórnskipuðu nefndir sem starfað hafa á vegum þessara tveggja ráðuneyta, þá er það mitt mat að lítils sé að vænta varðandi endurmenntunarmálin í niðurstöðum þessara nefnda þegar þær liggja fyrir. Á fund félmn. mættu báðir formenn þessara nefnda, þ. e. Ingvar Ásmundsson skólastjóri Iðnskólans, sem er formaður þeirrar nefndar sem starfar á vegum félmrh. og sérstaklega skal athuga hvernig vinnumarkaðurinn getur aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu. Í þeirri áfangaskýrslu, sem fram kom í júní 1984, er lítið að finna varðandi endurmenntunarmálin utan þess sem almennum orðum er talað um nauðsyn endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Ég spurði formann þessarar nefndar, Ingvar Ásmundsson skólastjóra, sérstaklega eftir því þegar hann kom á fund félmn. hvort þess væri að vænta að fram kæmu tillögur frá þessari nefnd, sem starfað hefur á vegum félmrn., um endurmenntunarmál. Ingvar Ásmundsson tjáði félmn. að þessi nefnd mundi fljótlega skila af sér, en orðrétt sagði hann að hann ætti ekki von á því að dýpra yrði farið í endurmenntunarmálin en væri í áfangaskýrslunni. Það væri því hans skoðun að ekki væri ástæða til þess að bíða með afgreiðslu þessa frv. þar til niðurstaða og skýrsla nefndarinnar lægi fyrir.

Að því er varðar þá nefnd sem starfar á vegum menntmrn. til að kanna tengsl atvinnulífs og skóla þá mætti á fund félmn. Halldór Guðjónsson kennslustjóri Háskóla Íslands sem er formaður þeirrar nefndar sem starfar á vegum menntmrn. Svipaða sögu var að segja af störfum þessarar nefndar. Halldór Guðjónsson bjóst ekki við því að neinar tillögur yrðu í niðurstöðum eða skýrslum þeirrar nefndar að því er varðar endurmenntunarmál vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Það eina sem fram kom hjá Halldóri Guðjónssyni var að e. t. v. yrði að finna eina eða tvær setningar um endurmenntunarmál vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu og nefndi hann mikilvægi þess að horfa á endurmenntunarmál út frá sjónarhóli atvinnulífsins og atvinnurekstrarins. Þetta er nú allt og sumt sem ég tel að vænta sé frá þessum nefndum og ekki komi þær fram með neinar tillögur eða beinar úrlausnir á því hvernig taka eigi á þessum endurmenntunarmálum.

Það er gott og vel að hæstv. menntmrh. eða félmrh. gefi Alþingi skýrslur á næsta þingi um endurmenntunarmálin. En ég tel að við höfum ekki efni á því að bíða eftir neinum skýrslum, ekki síst í ljósi þess að lítilla tillagna er að vænta frá þeim stjórnskipuðu nefndum sem starfað hafa í lengri tíma að þessu máli. Mín skoðun er reyndar sú að sú skýrsla, sem hér er sett fram um endurmenntunarmál og fram á að koma á næsta þingi eins og fram kemur í álifi meiri hl., sé nokkurs konar hálmstrá sem meiri hl. hafi fundið upp í samráði við ráðh. til að komast skammlaust frá afgreiðslu þessa máls og þurfa ekki að fella frv. hér í atkvæðagreiðslu.

Herra forseti. Ég hef talið ástæðu til þess að hafa nokkuð langt mál um það frv. sem hér er til umfjöllunar og nú er lagt til af meiri hl. að vísa til ríkisstj. Ég tel að ákvæði þessa frv., sem að efni til hefur að markmiði að gera starfsfólki og launþegum á vinnumarkaðinum kleift að aðlagast tæknivæðingunni og sérstaklega sé hugað að þeim störfum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna sé í hættu, sé forsenda þess að bæta hér kjörin og koma á þeirri nýsköpun í atvinnulífinu og aukinni tæknivæðingu sem leiði til aukinnar framleiðni og hagvaxtar hér á landi. Það er því að vonum að ég hafi tekið mér nokkurn tíma hér í ræðustól til að vekja athygli hv. alþm. á því hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér ef enn á að láta reka á reiðanum í þessu efni.

Minni hl. hv. félmn., sem ég skipa ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, leggur til að þetta frv. verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Þessar brtt. skýra sig að mestu sjálfar og eru að efni til byggðar á athugasemdum sem fram komu í umsögn ASÍ við þetta frv.

Ég vil leyfa mér að vænta þess að þm. hafni þeirri afgreiðslu á málinu sem meiri hl. félmn. hefur lagt til enda getur það skipt sköpum um framþróun í atvinnulífinu og kjör og atvinnuöryggi launþega á vinnumarkaðinum í komandi framtíð að á þessu máli verði þegar í stað tekið og ekki verði á því frekari dráttur en orðinn er.