05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að eðlilegt er að þessu máli sé vísað til félmn. en ekki allshn. og vil gera till. um að farið sé að þingvenjum í þeim efnum.

Ég vil aðeins segja í tilefni af þessu frv. að hér er hreyft mjög athyglisverðri hugmynd, sem er síður en svo ný af nálinni, þar sem gert er ráð fyrir því að launþegar, sem taki laun hjá sama atvinnurekanda, geti stofnað félög á vinnustað sem hafi með samninga að gera og taki í einu og öllu við réttindum og skyldum stéttarfélaga. Ég álít nauðsynlegt, ekki síst í ljósi nýlegra atburða, að sú n. sem fær þetta til meðferðar, félmn. að ég ætla, taki þetta mál til athugunar á jákvæðan hátt og velti því fyrir sér hvernig hægt sé að bæta það skipulag sem nú hefur verið um nær hálfrar aldar skeið lögfest um stéttarfélög og vinnudeilur.

Reynslan t.d. af prentaraverkfallinu eða verkfalli bókagerðarmanna sýnir okkur að ótímabær verkföll einstakra starfsgreinahópa geta stofnað atvinnuöryggi annarra hópa í hættu, eins og gerðist um blaðamenn í því verkfalli. Í nauðvörn gripu fyrirtæki til þess að setja verkbann á blaðamenn til að draga úr því tjóni sem verkfallið hafði á rekstur viðkomandi fyrirtækja. Sérstaklega með hliðsjón af því að bókagerðarmenn bættu síður en svo aðstöðu sína í verkfallinu er ljóst að þarna var mjög rasað um ráð fram og ávinningurinn af þessu verkfalli enginn, hvorki fyrir bókagerðarmenn eða aðra. Á hinn bóginn má færa fyrir því gild rök að þetta ótímabæra verkfall hafi valdið því að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki sömu aðstöðu og áður til að vinna að hagræðingu innan sinna veggja og taka nýja og betri tækni í þjónustu sína.

Ég skal ekki í þessu samhengi ræða það hvílík aðför að prentfrelsinu, hinu frjálsa orði, er fólgin í ótímabærum verkföllum af þessu tagi. Til þess gefst tilefni síðar.

En það er að sjálfsögðu alveg ljóst að við því verður að reisa einhverjar skorður að einstakir hópar geti valdið öðrum hópum mjög verulegu tjóni. Það gerðist í þessu verkfalli, um það hygg ég að allir séu sammála. Ég er á hinn bóginn ekki sannfærður um að lagagreinin eins og hún er orðuð hér í frv. sé nægilega hugsuð. Kemur þar margt til. Margvísleg starfsemi stéttarfélaga veitir félögum sínum vissulega mikil réttindi og vernd og þarf mjög að athuga sinn gang áður en höggvið er á hnútinn með þessum hætti.

En ég ítreka það að hér er fylgt úr hlaði mjög merkilegu máli sem nauðsynleg t er að taka afstöðu til. Ég vænti þess að sú n. sem fær málið til meðferðar reyni að hraða afgreiðslu frv. og kryfja efni þess þannig að afstöðu verði hægt að taka á því þingi sem nú situr.