29.05.1985
Neðri deild: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5752 í B-deild Alþingistíðinda. (5077)

448. mál, hækkun elli- og örorkulífeyris

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur legið nokkuð hér fyrir þinginu og fjallar um hækkun elli- og örorkulífeyris. Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að elli- og örorkulífeyrir verði hækkaður um 20% hinn 1. maí s. l., lagagreinin miðast við þessa dagsetningu.

Tilefnið er augljóst. Kaupmáttur elli- og örorkulífeyris hefur fallið mjög á undanförnum árum. Sé t. d. miðað við árið 1978 þá er kaupmáttur hins almenna ellilífeyris einungis 64% af því sem hann var þá, þ. e. innan við 2/3, hann hefur verið skertur um meira en þriðjung. Þessi tala var sú sem gilti í aprílmánuði. Hún hefur lítillega breyst með nýjustu ákvörðun ríkisstj. En verðbólgan heldur áfram og spá mín er sú að áður en mánuður eða tveir eru liðnir verði kaupmáttur hins almenna elli- og örorkulífeyrisþáttar orðinn þessi 64%. En ætli hann hafi ekki hækkað um fáein prósentustig skv. nýjustu ákvörðun ríkisstj.

Af þessu er vitaskuld ljóst að margir elli- og örorkulífeyrisþegar hafa axlað langtum meiri byrði en jafnvel almennir launþegar í landinu. Það kom líka nýlega fram í opinberum fjölmiðli, sjónvarpinu, að stór hópur eldra fólks hafi þjáðst af næringarskorti í skemmri eða lengri tíma. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma mönnum svo mjög á óvart þegar menn hafa í huga hve bágar þessar lífeyrisgreiðslur eru.

Þegar við tölum um þróun kaupmáttar tala menn gjarnan um að það hafi orðið launaskrið og menn tala um að skattalækkanir hafi komið launþegum til góða og þess vegna skuli menn ekki horfa á kauptaxta. En ekkert launaskrið er hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, ekki heldur njóta þeir góðs af skattalækkunum sem eru á elli- og örorkulífeyri vegna þess að þeir eru yfirleitt ekki með skatta og hafa þá ekki notið skattalækkunar. Þegar menn nota þau meðaltöl sem algeng eru í umr. horfa menn fram hjá þessu. Það er einmitt af þessum sökum m. a. sem elli- og örorkulífeyrisþegar hafa verið að dragast enn þá frekar aftur úr en aðrir hér í þjóðfélaginu. Það er ekki til nema eitt ráð til að bregðast við þessu, þ. e. að hækka lífeyrinn þeim mun meira.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að brúa þetta bil að nokkru leyti, að hækka elli- og örorkulífeyri svo og tekjutryggingu um 20%. Ekki mundum við ná sama kaupmætti og 1978, sem núna er einungis 64% af því sem hann var þá. Að því er tekjutrygginguna varðar þá er það svo að hún þyrfti að hækka um 25% til þess að ná sama kaupmætti og 1978. En með slíkri hækkun, sem hér er gerð till. um, mætti ná svipuðum kaupmætti tekjutryggingar og var að meðaltali árin 1979–1981. En að því er almennan elli- og örorkulífeyri varðar kæmumst við ekki nema helminginn af þessu skrefi en við næðum hugsanlega meðaltali fyrri árshelmings 1983, eða tímanum rétt áður en núverandi ríkisstjórn komst til valda. Engu að síður mundi kaupmáttur hins almenna lífeyris enn vera um 23% lægri en hann var á árinu 1978. Af þessu ættu menn að sjá að það sem hér er gerð till. um er einungis lágmarksleiðrétting.

Ég held að alþm. hljóti að koma á óvart hversu miklar byrðar hafa verið lagðar á þennan tekjulægsta hóp í þjóðfélaginu, elli- og örorkulífeyrisþega. Ég held að alþm. hljóti að þykja óréttlátt að byrðunum hafi verið dreift með þessum hætti og þeim ætlað að axla meiri byrðar en öðrum, sem þeir hafa gert. Elli- og örorkulífeyrisþegar koma ekki fram sem hávær þrýstihópur, þeir eiga sitt undir því að ráðamenn þjóðarinnar í ríkisstj. eða á Alþingi taki til hendinni og verndi hag þeirra. Það er af þeim sökum sem þetta mál hlýtur að koma til kasta Alþingis og af þeim sökum sem það er flutt.

Ég tók eftir því í umr. um þetta mál fyrir mánuði síðan eða svo að hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði að það gerði ekki mikið til þó hinn almenni ellilífeyrir rýrnaði að kaupmætti, það væru svo margir komnir með greiðslur úr lífeyrissjóðum. En hafa menn hugleitt hvað menn eru að gera jafnvel þó menn séu í lífeyrissjóðum og hafi þaðan greiðslur? Kaupmáttur þessa fólks hefur verið skertur. Ekki hafa greiðslurnar úr lífeyrissjóðunum hækkað nema í samræmi við kauptaxta. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar hafa verið skertar að kaupmatti nákvæmlega jafnmikið og kauptaxtarnir. Ekki í þeim efnum heldur njóta elli- og örorkulífeyrisþegar launaskriðs í landinu eða tekjuskattsívilnana sem hér er stundum talað hátt um. En viðbótin, sem var hluti af þeirra tekjum, hluti af þeirra lífsframfæri, hinn almenni ellilífeyrir, hefur verið skertur um meira en 1/3, niður í 64%. Lífskjör þessa fólks hafa því verið skert hörmulega. Þegar menn tala um að það geri heldur ekkert til að þetta gerist að því er varðar þá sem eru í lífeyrissjóðum, ef það bara gerist ekki í sama mæli varðandi þá sem eru með tekjutryggingu, þá eru menn að segja að þeir, sem hafa lagt það á sig að greiða í lífeyrissjóð, lagt til hliðar af tekjum sínum til þess að greiða í lífeyrissjóð, skuli taka sérstaka tekjuskerðingu meðan aðrir, sem ekki greiddu í lífeyrissjóð, ekki lögðu til hliðar í lífeyrissjóð og eru þess vegna á tekjutryggingu, eiga ekki að taka skerðinguna. Hér er þeim hegnt sem hefur sparað með því að leggja í lífeyrissjóð. Sú stefna getur heldur ekki verið rétt.

Ég held að alla Íslendinga hljóti að hrylla við þeirri stefnu sem hér er fylgt, að heyra að stór hópur aldraðra, sem hefur skilað æviverki sínu í þágu lands og þjóðar, búi við krappari kjör og meiri tekjuskerðingu en aðrir hópar í þjóðfélaginu og stórir hópar meðal þessa fólks búi við vannæringu og enn stærri hópur við neyðarkjör. Þannig má þetta ekki vera og þannig á þetta ekki að vera.

Því miður er það skref, sem ríkisstj. steig í lok aprílmánaðar, allt of skammt til þess að það skili neinu. Þess vegna er engu að síður- þó að þar hafi átt sér stað svolítil leiðrétting — þörf á því að þessi mál séu tekin sérstaklega fyrir og Alþingi ákveði sérstaklega að rétta hlut þessa fólks sem hefur verið skertur svo hrikalega sem ég hef hér gert að umtalsefni, og það meira en að ósekju, vegna þess að síst af öllu ætti þetta fólk að bera þyngri byrðar en aðrir.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til heilbr.- og trn.