30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5759 í B-deild Alþingistíðinda. (5082)

497. mál, náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja hér örfá orð í belg. Ég tel að hér sé hreyft hinu merkasta máli. Það er full þörf á því að hugað sé að þessu verkefni, brýn nauðsyn. Þetta mál hefur lengi beðið óleyst. En það er stórt og það er kostnaðarsamt. En það skiptir miklu máli að vilji ráðamanna sé fyrir hendi.

Við ræðum um það, hugsum um það og stefnum að því að gera börn okkar læs sem allra fyrst og það er talið mjög af hinu góða að börn séu læs sem yngst að árum. En ég vil bæta því við að ég tel að eitt af því besta, sem við gætum gert fyrir börn okkar á þessum síðustu tímum, væri það að gera þau læs á „bók náttúrunnar“ sem allra fyrst. Það væri einhver besta gjöf sem við gætum gefið börnum okkar og niðjum. Helst að þau yrðu fluglæs eins og bestu náttúruunnendur, náttúruskoðarar og skáld okkar hafa verið. Ég nefni sem dæmi þann fræga mann Jónas Hallgrímsson sem eitt sinn kvað í rúmi sínu á sumardaginn fyrsta 1842, ef ég man rétt. Og ætla ég að hafa það erindi yfir og gera það að lokaorðum, með leyfi forseta:

Leyfðu nú, Drottinn, enn að una

eitt sumar mér við náttúruna.

Kallirðu þá, ég glaður get

gengið til þín hið dimma fet.