30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5769 í B-deild Alþingistíðinda. (5088)

485. mál, málefni myndlistarmanna

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins kveðja. mér hljóðs til að þakka þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. menntmrh. og ég vil einnig þakka fyrir þær upplýsingar sem fram hafa komið í ræðum þeirra beggja um stöðu þeirra mála sem hreyft er í þessari þáltill. Mætti margt um það segja sem þau hér ræddu en ég ætla ekki að fara ítarlega út í það efnislega. Ég ætla þó að taka út úr eitt atriði sem mér fannst sérstaklega ánægjulegt, það voru upplýsingar um að í vetur hefði fengist aukafjárveiting vegna Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Þannig hefur ríkið í raun og veru þegar tekið ákvörðun um að reyna að hjálpa til við að varðveita þennan stað sem Sigurjón lætur okkur eftir og ég vil fagna þessari yfirlýsingu menntmrh. alveg sérstaklega.

Ég bendi á að þessi till. sem hér er flutt gengur í rauninni út á það að fela ríkisstj. að skipa í samvinnu við Samband ísl. myndlistarmanna nefnd sem vinni að tillögum um úrbætur í hagsmunamálum myndlistarmanna og síðan er nefndinni bent á nokkur atriði. Í sjálfu sér held ég að það gæti vel verið hugsanlegt að Alþingi samþykkti þegar á þessu vori, þótt skammt lifi þings, þessa hugmynd um nefndarskipun í þessu skyni. Það er auðvitað ekki hægt að leysa alla hluti með því að skipa nefndir og þegar allt kemur til alls þá er þetta spurning um fjármuni. En þrátt fyrir allt þá held ég að hér sé um að ræða málaflokk sem vissulega væri réttlætanlegt að Alþingi kysi nefnd til að vinna að. Ég tel að iðulega hafi það gerst — svo ekki sé meira sagt — að Alþingi hafi kosið nefndir af minna tilefni en því sem hér hefur verið rætt.

Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka þakkir fyrir þær góðu undirtektir sem þessi till. hér hefur fengið.