05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumanni varð svo tíðrætt um meðalgreind að ég vil taka það fram í upphafi að mér hefur láðst að fara í greindarvísitölupróf svo að ég veit ekki hvort ég er hæfur til að fjalla um það mál sem hér er á dagskrá. (Gripið fram í.) Ég ætla þó að hætta á það.

Fyrsti flm. frv. tók fram í upphafi máls síns að þetta frv. hefði efnislega verið flutt hér fjórum sinnum áður og hann væri nú að flytja það hér í fimmta skipti. Og þar sem ég hef ekki tjáð mig um það áður, þó að ég hafi auðvitað fylgst með umr. um þetta mál, þá tek ég nú til máls og vek í upphafi athygli á því að það segir sína sögu um þróunina á þessum vettvangi á undanförnum fimm árum að ég minnist þess að þegar málið var fyrst flutt þótti það hálfgerð framúrstefna og fjarstæðukennt að til greina kæmi að samþykkja eitthvað í þessa áttina. Ég held að þróunin og atburðarásin á síðustu árum og jafnvel mánuðum hafi verið þannig að við getum flest verið sammála um að þetta mál er allrar athygli vert og þess virði að það sé skoðað með opnum huga. Við tökum t.d. eftir því að í þeim samningaviðræðum sem að vísu er nú u.þ.b. að ljúka en hafa staðið mjög lengi, þá voru það fyrstu viðbrögð Alþýðusambands Íslands, forustunnar þar, að gefa samningana frjálsa ef svo má segja, þ.e. að vísa samningaviðræðum og kröfum um bætt kjör meira heim til föðurhúsanna, til hinna einstöku stéttarfélaga. Auðvitað gerir Alþýðusambandið þetta vegna þess að það telur að árangur náist betri og meiri með þessum vinnubrögðum. Og þetta gekk eftir. Það var yfirleitt samið á þessu ári og til að byrja með gengu samningar út á það að einstök stéttarsambönd og jafnvel einstök stéttarfélög sóttu á um bætt kjör, hvert á sínum stað. Þannig að þróunin er augljós, hún er í þá áttina að völd og umsvif einstakra stéttarfélaga, jafnvel starfsmannafélaga aukast með tímanum.

Þrátt fyrir skelegga ræðu síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vestf., hefur það gerst um nokkuð langt skeið að ýmis sambönd innan verkalýðshreyfingarinnar hafa ávallt lagt áherslu á sjálfstæði sitt þegar til kjarasamninga kemur. Ég minni á þá gömlu hefð sem hefur ríkt vestur á fjörðum. Alþýðusamband Vestfjarða hefur lagt megináherslu á það að fá að standa sjálfstætt og semja fyrir sig. Það hafa þeir Vestfirðingar gert og áreiðanlega náð góðum samningum fyrir sína umbjóðendur. Þetta hafa þeir gert vegna þess að það hefur verið þeim hagstæðast. Og hvers vegna má ekki heimfæra þessi vinnubrögð upp á ýmsa aðra?

Nú skil ég ekki þetta frv. svo að verið sé að hafna landssamtökum eða kasta rýrð á hlutverk þeirra. Hvað sem frsm. þessa frv. hefur látið sér um munn fara áðan, þá held ég að hnútukast í garð landssamtaka innan verkalýðshreyfingarinnar sé óþarft. Samtökin eiga fullan rétt á sér. Þau eiga að standa vörð um hin félagslegu réttindi launþeganna. En á sama tíma eiga þau ekki heldur að vera þröskuldur eða ljón í veginum fyrir því að launþegarnir geti náð betri kjörum með öðrum vinnubrögðum ef þess er kostur. Þess vegna eiga landssamtökin eða málsvarar þeirra ekki fyrir fram að dæma þetta frv. dautt og ómerkt, heldur að átta sig vel á því hvort það kunni að vera í þágu hagsmuna umbjóðenda verkalýðsforustunnar að þetta frv. eða eitthvað í þessa áttina verði samþykkt.

Mér líst sem sagt alls ekki illa á þetta frv. Ég held að vel geti komið til greina að breyta lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur í þessa áttina. Um leið og ég tel það ámælisvert að vera í sömu andránni með hnútakast í garð landssamtaka innan verkalýðshreyfingarinnar tel ég líka alveg óþarft fyrir sjálfskipaða málsvara Alþýðusambandsins eða hinnar hefðbundnu verkalýðshreyfingar að láta það allt út úr sér fara sem síðasti ræðumaður gerði hér. Hann talar um að það ríki bara hnefarétturinn ef þetta frv. verði samþykkt, hefur stór orð um að hér muni ríkja lögmál frumskógarins. Það er ákaflega einkennilegt að í hvert skipti sem menn vilja auka frelsið á einum eða öðrum vettvangi þá er alltaf talað um lögmál frumskógarins. Það virðist alveg útilokað að treysta fólki fyrir nokkrum sköpuðum hlut í þessu landi, þá sé það allt í einu bara orðinn frumskógarrétturinn sem ráði. Ég held að það sé alger óþarfi að vera með þessa viðkvæmni þegar verið er að gagnrýna eitt og annað í starfsemi verkalýðshreyfingarinnar eða stéttarfélaganna. Við vitum öll að þar er pottur brotinn. Verkalýðshreyfingin sjálf hefur haft áhyggjur af því hvað félagsstarf er dautt og hvað hinn almenni launþegi tekur lítið virkan þátt í kröfugerð eða almennum félagsstörfum innan hreyfingarinnar. Þetta er almennt viðurkennt vandamál og áhyggjuefni þeirra sem í forustu verkalýðshreyfingarinnar eru. Menn eiga ekki að vera með neinn tvískinnung eða viðkvæmni út af því þótt á þetta sé drepið hér í þessum umr.

Þegar lögð eru fram frv. í þessum anda er því miður tilhneiging hjá þeim sem völdin hafa að bregðast við með neikvæðum hætti. Því miður verður ekki annað sagt um þessa síðustu ræðu en að hún hafi verið öll í þá áttina að drepa þetta mál strax í upphafi, í fæðingu. Ég leyfi mér að fullyrða að þar sé ekki um að ræða lögmál frumskógarins heldur lögmál tregðunnar.

Síðasti hv. ræðumaður hafði áhyggjur af því að hinir smæstu og verst settu í verkalýðshreyfingunni mundu gjalda þess ef þetta form yrði tekið upp. Ég er ekki svo viss um það. Ég held jafnvel þvert á móti að hugsanlegt sé að kjör hinna verst settu kynnu jafnvel að batna að mun við það að einstök starfsmannafélög fengju að semja um sitt kaup og sín kjör. Ef laun hækka í einu frystihúsi t.d., þá er það grundvöllur fyrir starfsfólk í öðrum frystihúsum til þess að segja: Þessir menn hafa fengið hækkun. Af hverju ekki við líka? Samningar hljóta alltaf að ganga upp á við og það knýr á um að aðrir fái sambærileg kjör.

Við höfum rætt um það nýlega hér á þingi og það hefur verið aðalvandamál þjóðfélagsins hvernig mætti leysa kjaradeilu opinberra starfsmanna og ríkisins. Það var minnst á það hér fyrir helgi kannske meira í gamni en í alvöru, að kannske væri réttast að stofna einkaskóla til þess að kennarar gætu ráðið sig þar og fengið betri kjör. Nú veit ég ekki hversu mikil alvara var á bak við þetta. En samt getum við ekkert útilokað það að til greina kæmi að stofna einkaskóla til hliðar við grunnskólana og framhaldsskólana, sem eru á vegum ríkis og sveitarfélaga, svo að einhver samanburður fengist um kjör. Ef einkaskólar geta boðið betur, þá ætti það að vera hvatning og þrýstingur á það að hið opinbera borgi kennurum hærri laun. Slíkt er alls ekki útilokað.

Mér finnst sem sagt ekki ná nokkurri átt að líta fyrir fram svo á að þetta frv., sem hér er til umfjöllunar, leiði til þess eins að hinir verst settu verði enn þá verr settir. Auk þess finnst mér styðja þetta frv. sú staðreynd að það er að miklu leyti í samræmi við veruleikann. Við vitum að yfirborganir eða aukagreiðslur eru mjög almennar á Íslandi í mjög fjölmennum stéttum. Við skulum bara nefna eina stétt, verslunarmenn. Þar eru taxtar almennt mjög lágir en gífurlega mikið um yfirborganir, hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Af hverju stafa þær yfirborganir? Það er vegna þess að fyrirtækin, sem þetta verslunarfólk vinnur hjá, bjóða upp á betri kjör en samningar segja til um af því að þau verða að bjóða upp á betri kjör og þau vilja bjóða upp á betri kjör. Þessi þróun hefur verið fyrir hendi og frv. í þessa áttina stuðlar að aðlögun að þeim raunveruleika sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu.

Hér var minnst áðan á verkfall prentaranna og réttilega bent á það að sex eða sjö vikna verkfall prentara hafi leitt til þess að önnur stétt, þ.e. blaðamenn, hafi goldið þessa langa verkfalls á þá lund að þeir voru settir í verkbann. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En til viðbótar við það má nefna að prentarar eru stétt sem vinnur hjá fjölmörgum fyrirtækjum, stórum og smáum, og þeir hafa líka mjög mismunandi kjör. Þetta verkfall, sem stóð yfir hátt á annan mánuð, kom engan veginn öllum prenturum til góða. Kannske hefur stór hópur innan þessarar stéttar fengið út úr þessum samningum það sem hann hafði áður. Það er einn gallinn á núverandi fyrirkomulagi á stéttarfélögum og vinnudeilum að boðað er til verkfalls með atkvæðum tiltölulega fárra einstaklinga innan stéttarinnar, verkfalls sem allir verða að sjálfsögðu að taka þátt í, en hafa mjög mismunandi hag af því. Það fyrirkomulag sem nú er er því engan veginn einhlítt eða fullkomið fyrir launþega í hvaða stétt sem er.

Ég held að í allra næstu framtíð séu stórfelldar breytingar bæði nauðsynlegar og æskilegar á þessum vettvangi. Með breytingum á vinnulöggjöfinni finnst mér að eigi að nálgast viðfangsefnin þannig að starfsfólkið verði í nánari snertingu við vinnuveitandann og framleiðsluna, svo að það hafi bæði félagslega og faglega aðstöðu til þess að láta meira að sér kveða á sínum starfsvettvangi. Ég held að starfsfólk eigi þess vegna að fá að njóta þess arðs sem þess vinna skilar, og að afkoma þess, launalega og með öðrum hætti, geti batnað mjög við það að starfsfólk á hverjum vinnustað, hvort sem það tilheyrir þessu stéttarfélagi eða öðru, geti staðið meira saman um sín eigin kjör, um aðstöðuna sem innan fyrirtækisins ríkir og það geti orðið bæði vinnuveitanda og launþeganum til bóta.

Þessi orð vildi ég láta hér falla, herra forseti. Ég hef ekki haft tækifæri til að tjá mig um þetta frv. fyrr. Ég tel það alls góðs maklegt og að það eigi að fá jákvæða athugun. Ég held að það stefni tvímælalaust í rétta átt.