31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5775 í B-deild Alþingistíðinda. (5095)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér lagt fram frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga. Þessu frv. fylgir annað frv. um hliðstæðar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt í samræmi við efni þessa frv.

Ég vil lýsa því yfir að frá sjónarmiði okkar Alþb.manna er það eitt höfuðviðfangsefni íslenskra efnahagsmála að efla innlendan sparnað. Þær skattaívilnanir, sem samþykktar voru á þingi hér í fyrra, höfðu þann mikla ágalla að þær voru fyrst og fremst ívilnanir í þágu þeirra sem fjárfesta í fyrirtækjum og rekstri og því ekki í raun hentugar fyrir allan almenning sem ekki er tengdur atvinnurekstri eða hyggst ekki tengjast atvinnurekstri. Ég lýsti því þá yfir sem skoðun minni að nær væri að taka upp eitthvert það sparnaðarkerfi sem væri í þágu allra þjóðfélagsþegna og allir þegnar ættu jafnan aðgang að og væru líklegir til að taka fullan þátt í og lýsti fylgi mínu við slíkt sparnaðarform. Mér er ánægja að lýsa því yfir hér að ég tel að það frv. sem hér er á ferðinni stefni í þessa átt og ég er því almennt jákvæður gagnvart efni þessa frv.

Síðan frjálsir vextir voru ákveðnir með samkomulagi forustumanna Sjálfstfl. og Framsfl. fyrir rúmu hálfu ári hafa miklar breytingar orðið í vaxta- og lánamálum eins og kunnugt er. Það hefur gengið yfir hálfgert vaxtaæði í þjóðfélaginu, vextir hafa hækkað upp úr öllu valdi, bæði bankavextir og vextir á verðbréfamörkuðum, og auðvitað hefur ríkissjóður ekki getað látið sinn hlut liggja eftir og hefur því orðið að sæta því að selja spariskírteini sín með slíkum kjörum að til hreinna vandræða horfir þegar til lengri tíma er litið. Því miður á það eftir að koma ríkissjóði mjög í koll síðar meir að þurfa að standa undir þeim spariskírteinum sem seld hafa verið með 7 og 8% vöxtum en tvöfalda verðgildi sitt á aðeins tíu árum eða jafnvel skemmri tíma.

Því miður verður að viðurkenna að opinberir aðilar hafa, þrátt fyrir að þeir hafi boðið þessa háu vexti á spariskírteinum, látið undan síga í þessari samkeppni og æ meira af skuldabréfum á markaðnum hefur færst í hendur verðbréfasala utan hins almenna bankakerfis. Þetta er ekki eðlileg þróun, að mínu viti. Hún er á margan hátt mjög hættuleg og hlýtur auðvitað að skerða mjög möguleika opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, til að fjármagna sameiginlegt verkefni vegna þess að innlend lánsfjáröflun fer öll úr böndum í samkeppni við hina ýmsu aðila sem alltaf geta yfirboðið bæði banka og opinbera aðila með því að bjóða eitthvað betur en gert er af hálfu ríkis og bankakerfis.

En opinberir aðilar — og þá fyrst og fremst ríkið — eiga krók á móti bragði og sá krókur er að bjóða skattaívilnun. Það er einmitt það sem gert er með þessu frv. Það er boðið upp á að þeir sem binda fé sitt til tíu ára í hinu almenna bankakerfi geti notið sérstakra hlunninda í formi skattaívilnunar. Vissulega er óljóst hversu mikil hlunnindi verður hér um að ræða þegar til lengri tíma er litið ef svo fer sem að er stefnt að tekjuskattur verði afnuminn af almennum launatekjum. Það má vera að reikningar af þessu tagi hafi þá ekki það aðdráttarafl sem þeir kynnu að hafa nú. Þó tel ég tvímælalaust rétt að reyna þessa leið og fagna því að þetta frv. er flutt. Það er líka álitamál hversu mikil þessi hlunnindi eiga að vera og hve miklu menn treysta sér til að fórna af fé ríkissjóðs í þessu skyni.

Ég áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til að athuga þetta frv. nánar við meðferð málsins í nefnd, þau ýmsu framkvæmdaatriði sem á því eru, en er hlynntur þeirri hugmynd sem í því felst.