05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að taka þátt í þessum umr. Ég held að út af fyrir sig sé ekkert á móti því að hv. Alþingi fjalli um mál af þessu tagi og það er að mörgu leyti þakkarvert að þeir þm. BJ skuli hafa komið þessu máli á dagskrá hér þing eftir þing eins og þeir hafa gert þó að ég sé ekki sammála þeirra till., því fer víðs fjarri. Þau rök sem ég hef uppi í þeim efnum eru eftirfarandi — og ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta mál þó að það væri kannske ástæða til að ræða um það mjög ítarlega. Rökin eru í fyrsta lagi þau að ég tel að það fyrirkomulag sem hér er gerð till. um mundi veikja samtakamátt verkalýðsstéttarinnar í heild. Það er röksemd nr. eitt og ég held að hún sé í raun og veru þýðingarmest í þessu sambandi. Það kann að vera að á einstaka vinnustað gætu menn náð fram meiri kauphækkunum hjá fyrirtækjum sem eru mjög efnum búin og eiga mikinn afgang til þess að dreifa hugsanlega til sinna starfsmanna. En í það heila tekið er ég þeirrar skoðunar að fyrirkomulag á verkalýðshreyfingunni af því tagi sem hér er verið að tala um muni veikja samtakamátt verkalýðsstéttarinnar í heild. Það er röksemd nr. eitt í mínum huga.

Í öðru lagi tel ég að það sé út af fyrir sig ekkert á móti því að Alþingi ræði mál af þessum toga. En ég er þeirrar skoðunar að í þeim efnum þurfi áður að hafa átt sér stað ítarleg umræða um þessi mál á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég er ekki að segja að þeir eigi að ráða þessu endilega í einu og öllu 100%, en ég held að það sé mjög óráðlegt að Alþingi fari að fyrirskipa samskiptareglur á hinum almenna vinnumarkaði, eins og hér er gerð tillaga um, með því að taka eitt ákveðið atriði út úr. Það út af fyrir sig er nægileg röksemd fyrir mig til þess að setja spurningarmerki við þetta frv.

Í þriðja lagi minni ég á það að þing Alþýðusambands Íslands stendur ný fyrir dyrum og þar verður sérstaklega, ef ég man rétt, fjallað um þessi skipulagsmál og þá einkum um samþykktina frá 1958, hvort menn eiga áfram að reyna að glíma við að hrinda henni í framkvæmd. Ég skal ekkert um það segja hver verður niðurstaða þessa Alþýðusambandsþings núna. Mér heyrist þó að margir séu þeirrar skoðunar að hæpið sé að gera ráð fyrir því að unnt verði að framkvæma þá stefnu til hlítar sem var verið að glíma við á árunum 1958–1960. Síðan er liðinn heill aldarfjórðungur og þetta hefur ekki þokast neitt áleiðis að marki að öðru leyti en því að stofnuð hafa verið svokölluð starfsgreinasambönd. Ástæðan til þess að þetta hefur ekki þokast neitt áleiðis er ekki sú að það hafi ekki margir í verkalýðshreyfingunni viljað taka á þessum skipulagsmálum og að það séu ekki margir sem sjá að þar er víða um að ræða mjög alvarlegan skipulagslegan vanda, t.d. þegar mjög mörg verkalýðsfélög gera samninga fyrir fólk á sama vinnustaðnum, eins og þetta er núna. Það eru dæmi um fjölda verkalýðsfélaga á einum og sama vinnustaðnum og menn benda á að það fyrirkomulag sé með vissum hætti veikleiki hjá verkalýðshreyfingunni. Það eru margir sammála um það í verkalýðssamtökunum. En menn hafa ekki komist fram úr þessu máli af ýmsum ástæðum. Því ráða margvísleg sjónarmið. Oft eru þau að vísu þannig að það er varla ástæða til að hrópa ferfall húrra fyrir þeim. En það eru þó sjónarmið sem eru gild og hafa ráðið þarna úrslitum.

Í viðtali sem ég tók við Björn Jónsson og Guðmund J. Guðmundsson fyrir tímaritið Rétt 1976 og vitnað er til í grg. með frv. hv. flm., 1. landsk. þm. og hv. þm. Guðmundar Einarssonar kemur það fram að Guðmundur J. Guðmundsson telur að ein ástæðan til þess að skipulagsmálin hafi ekki þokast áleiðis sé það sem hann kallar „smákóngasjónarmið“. Það getur vel verið að eitthvað slíkt hafi flækst fyrir mönnum í þessum efnum. En reynslan af samþykktinni frá 1960 er sú — þó að á bak við hana hafi verið að heita má einróma vilji Alþýðusambandsins á þeim tíma-að ekkert hefur þokast að marki í þessa átt, ef frá er talin stofnun starfsgreinasambandanna sem er vissulega mikilvægt skref.

Að undanförnu hafa verið í gangi viðræður og umræður innan verkalýðshreyfingarinnar um vissar breytingar í samræmi við þessa samþykkt, t.d. fyrir starfsfólk í húsgagnaiðnaði. Þar hefur verið rætt um það að eðlilegt væri að bæði faglært og ófaglært starfsfólk í húsgagnaiðnaði væri í sama stéttarfélaginu. Þessi mál hafa verið tekin fyrir á vettvangi Alþýðusambandsins og það hefur komið í ljós að um er að ræða mjög flókin markatilfelli á milli verkalýðsfélaga sem menn hafa því miður ekki ráðið fram úr. En hitt er ljóst, að ekki er hægt að saka verkalýðshreyfinguna um að hún hafi ekki fengist til að taka á þessum málum. Það hefur hún vissulega gert þó að það hafi í raun og veru þokast heldur hægt. En mér skilst að næsta Alþýðusambandsþing ætli sér að taka á þessum málum og gera upp þá reynslu sem fengin er af þessari 25 ára gömlu samþykkt Alþýðusambands Íslands.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það launakerfi sem notað er í landinu er út af fyrir sig hægt að gagnrýna og vafalaust má kenna verkalýðshreyfingunni um eitthvað af ágöllum þess. En hitt er þó aðalatriðið, að menn átti sig á því að megingallarnir í launakerfinu eru núna þeir að kauptaxtarnir sem slíkir eru allt of lágir. Hinn svokallaði „frjálsi markaður“ hefur lagt sig fram um að brjóta það kauptaxtakerfi niður með þeim hætti sem menn þekkja nú að undanförnu, þannig að verulegur hluti teknanna, og stærri hluti en áður, er núna fólginn í yfirborgunum. Það er auðvitað eðlilegt að menn taki við yfirborgunum og semji um yfirborganir þar sem menn geta boðið upp á þær. En það er engu að síður ljóst að þetta tvöfalda launakerfi, annars vegar kauptaxtar og hins vegar yfirborganir, veikir þegar fram í sækir samstöðumöguleika verkalýðshreyfingarinnar í heild. Ég held að einmitt yfirborganakerfið, eins og það hefur verið að undanförnu, færi okkur heim sanninn um það að sú tillaga sem hér er flutt af hv. þm. BJ er ekki alveg á réttu róli. Hún mundi í raun og veru staðfesta það frumskógakapphlaup sem er í gangi á vinnumarkaðnum núna, þar sem ríku fyrirtækin geta borgað miklu meira en þau sem eru lakar sett. Ég held að þetta sé mál sem þurfi að taka tillit til líka. Við höfum í raun og veru reynslu af þessu nú þegar að hluta til í yfirborganakerfinu og ég held að það sé ekki það sem verkalýðshreyfingin í landinu eigi að keppa að. Ég held að hún eigi þvert á móti að leggja áherslu á samstöðuna, vegna þess að þegar allt kemur til alls þá reisir hún fyrst þá sem lakast eru settir, það sýnir reynslan, jafnvel þó þeir vinni hjá fyrirtækjum sem eru illa á sig komin eins og oft er t.d. í sjávarútveginum.

Menn ræða nokkuð um lýðræði í verkalýðshreyfingunni í þessu sambandi og það er talað um að það sé lítið. Staðreyndin er þó sú, að valdið í verkalýðsfélögunum er hjá hinum einstöku verkalýðsfélögum um allt land og samböndin, t.d. Alþýðusambandið og fjórðungssamböndin, taka ekki þetta vald af hinum einstöku verkalýðsfélögum. Samningsvaldið er hjá verkalýðsfélögunum sjálfum. Ég hygg því að þegar við lítum yfir verkalýðshreyfinguna á Íslandi annars vegar og hins vegar verkalýðshreyfinguna í Skandinavíu, á Norðurlöndum, þá komumst við að þeirri niðurstöðu að möguleikar verkafólksins til þess að hafa áhrif eru mun meiri hér en þar.

Reynslan er hins vegar ólygnastur vottur um að það er samtakamátturinn sem ræður úrslitum. Það sjáum við úr síðasta verkfalli BSRB. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það var sú ríka samstaða sem þar var um að ræða sem gerði það að verkum að BSRB náði þeim árangri sem þrátt fyrir allt liggur fyrir. Ég er viss um að ef einstök félög hefðu þar verið að reyna að brjótast um hefði verið mun örðugra fyrir þau að ná þeim árangri sem heildarsamtökunum tókst. Ég held þess vegna að BSRB-verkfallið sýni okkur ákaflega vel hvað samtakamátturinn getur skilað miklu, jafnframt því sem BSRB-verkfallið er dæmi um lýðræði í verkalýðshreyfingunni, þar sem fólk tekur þátt í störfum hennar í stórum stíl, mjög virkan þátt. Ég held að við verðum einfaldlega að viðurkenna að það eru allir möguleikar fyrir fólk til að hafa áhrif á störf sinna verkalýðsfélaga, það eru möguleikar til þess. Spurningin er hins vegar um það hvernig fólk nýtir þessa möguleika í fyrsta lagi. Og auðvitað í öðru lagi: Hvað gerir forustan í viðkomandi verkalýðsfélagi til að laða fólk til að nota þessa möguleika? Ég hugsa að það sé mjög misjafnt. Sums staðar er ekki nærri nógu vel að verki staðið í hinum einstöku verkalýðsfélögum. Mætti ýmislegt um það segja.

Ég held sem sagt að þó að það sé gagnlegt að þessi umr. fari fram, og ég hef ekkert við það að athuga og fagna því að þeir Bandalagsmenn skuli koma þessu máli hér á dagskrá þing eftir þing, þá breytir það ekki því að ég hlaut að koma á framfæri þeirri afstöðu minni að ég tel að þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, lagi ekki neitt. Það gæti heldur orðið til bölvunar, gæti heldur orðið til þess að veikja samtakamáttinn. En samtakamátturinn er þrátt fyrir allt og allt besta kauptryggingin sem verkafólkið í landinu hefur.