31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5790 í B-deild Alþingistíðinda. (5128)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni með það að þetta frv. til laga um breytingu á lögum um þörungavinnslu við Breiðafjörð skuli hafa litið dagsins ljós. Þar með er eytt þeirri miklu óvissu sem ríki hefur um framtíð þessa mikilvæga atvinnufyrirtækis í Austur-Barðastrandarsýslu. Eins og kom fram í máli hæstv. iðnrh. blöstu við fjórir meginkostir um framtíð þörungaverksmiðjunnar. Það er í fyrsta lagi einfaldlega að leggja niður þetta fyrirtæki og hætta starfsemi þess þegar. Í öðru lagi að reyna að selja fyrirtækið öðrum aðilum. Í þriðja lagi að halda áfram rekstri. Og í fjórða lagi að afhenda það heimamönnum með einhverjum hætti.

Nú hefur verið tekið af skarið í þessu máli og sú óvissa, sem grúft hefur yfir fyrirtækinu, vonandi úr sögunni. Vestur í Reykhólasveit tala menn um að íslenska þjóðin eigi þrjú börn, þ. e. óskabarnið Eimskip, vandræðabarnið SÍS og olnbogabarnið þörungaverksmiðjuna. Hvort svo sem þessi lýsing er rétt eður ei, er það engu að síður þannig að þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur verið dæmd ærið hart af býsna mörgum. Ég er þeirrar skoðunar að sá dómur hafi oft og tíðum verið ómaklegur, að margt hafi þarna unnist í rekstri verksmiðjunnar sem við munum búa að í framtíðinni. Við höfum fengið í gegnum rekstur á verksmiðjunni ákaflega mikilvæga þekkingu, bæði á markaðsmálum og eins framleiðslumálum þessarar athyglisverðu afurðar.

Hins vegar hafa margs konar áföll riðið yfir þessa verksmiðju sem ekki voru í augsýn þegar hún hóf starfsemi fyrir allmörgum árum. Þá er fyrst til að taka það alvarlega áfall sem varð árið 1980 þegar aðalsöluaðili þörungaverksmiðjunnar rifti sölusamningnum. Afleiðingin varð sú að í fyrsta lagi varð 40% samdráttur í sölu til Alginate Industries Ltd. sem var aðalkaupandi afurðanna. Í öðru lagi stórlækkaði verðið á þeim afurðum sem fyrirtækið keypti áfram.

Það var þá hugmynd þeirra sem stóðu við stjórnvölinn í þessari verksmiðju að bregðast við með því að hefja framleiðslu á öðrum framleiðsluvörum, þurrka fisk og selja á Nígeríumarkað sem þá var opinn og virtist að mörgu leyti fýsilegur kostur. En þá varð sú hörmung að sá markaður lokaðist enn og þar með var sú útgönguleiðin lokuð.

Þannig hafa ýmiss konar áföll, sem ekki voru fyrirséð í upphafi, dunið yfir þetta fyrirtæki og gert það að verkum að rekstur þess hefur orðið æ erfiðari. Það er margt sem bendir til þess að fyrirtækið geti unnið sig út úr þessum vanda ef þannig verður að málum staðið sem lagt er til í þessu frv. Það er t. d. ljóst að núverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa reynt að hefja nýja markaðssókn og þróa nýjar afurðir. Það kemur t. d. fram í ýmsum gögnum sem tengjast þessu máli að nú eru afurðir fyrirtækisins seldar til u. þ. b. 26 aðila í einum 14 löndum. Höfuðkaupandi að afurðum fyrirtækisins, Alginate Industries Ltd., keypti aðeins 30% afurðanna í fyrra en 95% árið 1979. Enn fremur er ljóst að margt hefur verið gert til að auka á fjölbreytni í framleiðslu fyrirtækisins og þannig fjölga þeim stoðum sem fyrirtækið sjálft stendur á.

Hins vegar skulum við ekki ganga þess dulin að ýmis ljón eru í veginum. Þetta fyrirtæki þarf að keppa á mjög erfiðum heimsmarkaði. Það þarf þess vegna að efla þá markaðsþekkingu sem til staðar er í fyrirtækinu, styrkja hana. Enn fremur er ljóst að vinna þarf að margs konar endurbótum, sérstaklega á búnaði verksmiðjunnar, m. a. í þeim tilgangi að hægt sé að lækka tilkostnaðinn í framleiðslunni og gera fyrirtækið þannig betur samkeppnisfært.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að til þess að takast á við þetta séu engir menn líklegri til að ná árangri en einmitt heimamenn í Reykhólasveit. Þeir hafa, eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh., sýnt mikinn samhug í þessu máli. Það kom í ljós ekki síst nú fyrir skemmstu þegar ótrúlega góður árangur náðist við söfnun hlutafjár. Ég tel þess vegna að þó að ýmsar blikur kunni að vera á lofti, jafnvel eftir að þetta frv. er komið fram, þá sé engin ástæða til þess að örvænta. Þau miklu og góðu viðbrögð, sem menn í héraði hafa sýnt varðandi þetta mál, hljóta að efla okkur í voninni um að vel takist til.