31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5804 í B-deild Alþingistíðinda. (5154)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er hreyft með nýstárlegum hætti máli sem oft hefur borið á góma hér í þinginu en hefur reynst harla erfitt að fá viðunandi niðurstöðu í og þess vegna ekki nema von að menn reyni að leita nýrra leiða í því sambandi. Mig langar af þessu tilefni til að vitna eilítið til greinar sem hefur birst í fréttabréfi frá Eimskipafélaginu, 5. tbl. 6. árg., maí 1985, með leyfi forseta. Þar er það m. a. rifjað upp hverjar forsendurnar hafi verið og séu undir starfsemi Regnbogafyrirtækisins. Þær eru tvíþættar. Svo ég vitni í þetta fréttabréf, þá er það orðað svo í grein sem forstjóri Eimskipafélagsins hefur ritað:

„Forsendur fyrir starfsemi Rainbow í þessum siglingum eru verndarlögin frá 1904 sem veita bandarískum fyrirtækjum forgang að sjóflutningum á vegum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Það er þó skilyrði að skip þau sem annast þessa flutninga sigli undir bandarískum fána, séu byggð í Bandaríkjunum eða hafi siglt undir bandarískum fána í a. m. k. þrjú ár.“

Þetta er að sjálfsögðu kunnugt, en í annan stað er bent á það í þessari grein — og ég vil leyfa mér að vitna í það líka — að tilefni þess að Rainbow hóf siglingar til Íslands á síðasta ári var að bandarísk stjórnvöld buðu fyrirtækinu á leigu með kauprétti skipið Antilla. Skipið var byggt í Bandaríkjunum árið 1979 og styrktu bandarísk stjórnvöld byggingu skipsins. Vegna gjaldþrots þess skipafélags sem áður rak skipið urðu bandarísk stjórnvöld að taka við því aftur og buðu það til leigu eða sölu fyrir rúmu ári. Rainbow leigði skipið og gerði jafnframt kaupsamning um það á mjög lágu verði og er því ljóst að skipið er verulega niðurgreitt til Rainbow af bandarískum stjórnvöldum.

Hér er sem sagt um það að ræða að bæði er notuð sú einokunaraðstaða sem getur verið fólgin í lögunum frá 1904 og í annan stað stuðlað til óeðlilegrar samkeppni með því að skipið er tvíniðurgreitt, bæði í byggingu og eins þegar það er selt til Regnbogafyrirtækisins á sínum tíma.

Enn vil ég leyfa mér að vitna til þessarar greinar þar sem segir að forráðamenn íslensku skipafélaganna hafi margítrekað kröfuna um eðlilega samkeppni í siglingum milli Íslands og Bandaríkjanna. Þegar ljóst var fyrir ári að Rainbow hæfi flutninga á varnarliðsvöru til Íslands lá fyrir að Rainbow hefði forgang að verulegum hluta allra flutninga milli Íslands og Bandaríkjanna. Létu forráðamenn íslensku skipafélaganna í ljós þá skoðun að þar með væri fyrirtækinu tryggð yfirburðasamkeppnisstaða varðandi aðra flutninga til og frá landinu. — Ég endurtek: Varðandi aðra flutninga til og frá landinu. Síðan segir:

„Þessar áhyggjur hafa reynst á rökum reistar. Rainbow hefur þegar notað sér þessa aðstöðu til að ná til sín flutningum fyrir íslenska aðila með undirboðum á markaðinum. Slík „samkeppni“ er ójafn leikur sem íslensk skipafélög eiga enga möguleika á að taka þátt í.“

Hér er komið að kjarna þessa máls. Vegna þess að skipið og skipafélagið nýtur einokunaraðstöðu, vegna þess að skipið er niðurgreitt í tvígang geta þeir undirboðið önnur skipafélög, hvort sem þau eru íslensk eða af öðrum toga, og náð til sín aukinni hlutdeild í flutningunum milli Íslands og Bandaríkjanna. Þetta hlýtur vitaskuld að bitna á okkar skipafélögum.

Svo ég vitni enn og aftur í þessa grein eftir forstjóra Eimskips, þá segir þar á öðrum stað:

„Rétt er að vekja athygli á að síðustu tólf mánuðina hafa tekjur Íslendinga og íslenskra skipafélaga dregist saman um 8 millj. Bandaríkjadala eða um 300 millj. ísl. kr. vegna siglinga Rainbow. Þessi mikla rýrnun á tekjum íslensku skipafélaganna á þessari siglingaleið hlýtur að þýða versnandi afkomu og þjónustu þeirra nema til komi hækkun flutningsgjalda.“

Í mínum huga er hækkun flutningsgjalda líka verri þjónusta en að þau séu lægri. Þannig er augljóst að það sem hér hefur gerst hefur þegar haft þau áhrif að það má ljóst vera að þjónustan versnar.

Og enn heldur höfundur áfram og segir:

„Ef fram heldur sem horfir kann Rainbow í skjóli forréttinda sinna einnig að geta tekið yfir stóran hluta flutninga fyrir Íslendinga til og frá Bandaríkjunum. Ef það gerist mun tekjutap íslenskra skipafélaga enn aukast. Við Íslendingar getum ekki og megum ekki sætta okkur við að bandarísk stjórnvöld veiti þegnum sínum forréttindi með þessum hætti á kostnað okkar. Því megum við aldrei fallast á það að erlend skipafélög hafi forréttindi í siglingum til og frá Íslandi.“

Mér þótti rétt, herra forseti, að þessi grein, sem vissulega á erindi í þessu máli, kæmist á framfæri í þessari umr. vegna þess að hér er tekið í tiltölulega stuttu máli á meginatriðum þessa máls.

Ég tel að sú leið sem hv. flm. leggur til að hér verði farin sé allrar athugunar verð og það sé sjálfsagt fyrir okkur Íslendinga að líta á alla þá möguleika sem við höfum til þess að standa vörð um okkar hagsmuni í þessu máli og til þess að tryggja að þjónusta við okkur verði ekki verri vegna þess sem hér hefur gerst og er að gerast. Þess vegna er það ánægjuefni að frv. skyldi koma fram og ég vænti þess að það fái ítarlega umfjöllun í nefnd.