31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5805 í B-deild Alþingistíðinda. (5155)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni fyrir jákvæðar undirtektir við flutning þessa máls. Hins vegar þótti mér miður að hlýða á málflutning hv. þm. Ólafs Þórðarsonar og mér þykir einnig miður að þurfa að standa í deilum við hann eða aðra um þetta að mér finnst sjálfsagða réttlætismál. Ég vonast til þess að öllum sé ljóst að hér eru gífurlegir hagsmunir í veði. Þetta er auðvitað angi af sjálfstæðisbaráttu. Þetta er angi af því að Íslendingar standi fast á sínum rétti og séu frjálsir að því að stunda siglingar og stunda flutninga til og frá landinu.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson gefur það í skyn að þetta frv. sé flutt í hefndarskyni. Nú hélt ég að hv. þm. væri fróður maður í Íslandssögunni og hefði kynnt sér m. a. málflutning stjórnmálamanna þeirra tíma þegar þeir stóðu í baráttunni gagnvart Dönum og erlendu valdi. Þá fluttu menn hér margvísleg mál sem sjálfsagt hafa stangast á við dönsk lög og sjálfsagt hefur einhver útlendingurinn móðgast yfir framhleypni og málflutningi Íslendinga í þá daga. En ég átta mig ekki á því hvaða hvatir liggja á bak við að halda því fram að Íslendingar séu að leggja slík mál fram í hefndarskyni, hvorki nú né áður, þegar þeir vilja standa fast á sínum rétti. Það má sjálfsagt halda því fram að hér sé látinn koma krókur á móti bragði.

Þetta mál er flutt vegna þess að mér hefur þótt fullreynt að málstaður okkar og réttur nær ekki fram að ganga með viðræðum utanríkisráðuneyta. Þær hafa farið fram, eftir því sem upplýst er, og ekki borið árangur. Og þó að við séum seinþreyttir til vandræða held ég að nú sé kominn tími til að þessu máli sé hreyft með þeim hætti sem hér er gert.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson spyr hver viðbrögð Bandaríkjamanna verði ef farskip þeirra verði stöðvuð í 30 daga vegna þess að flutningar á þeirra vegum stangist á við þau lög sem frv. gerir ráð fyrir. Vitaskuld er það laukrétt hjá þm. að Íslendingar geta ekki breytt lögum í Bandaríkjunum, enda veit ég ekki til þess að ég hafi verið að gefa það í skyn að Alþingi Íslendinga væri svo máttugt að það gæti breytt lögum í Bandaríkjunum. En við erum hér að setja lög til þess að vernda okkar rétt og okkar hagsmuni, og ef ekki verður farið eftir þessum íslensku lögum og áfram verður haldið vöruflutningum til og frá landinu fyrir varnarliðið á bandarískum flutningaskipum sem starfa í skjóli einokunar, þá kemur auðvitað að því að það verður að stöðva þá flutninga og stöðva skipið í lengri eða skemmri tíma. Hver viðbrögð Bandaríkjamanna við því verða kemur mér ekki skapaðan hlut við og mér er alveg útilokað að geta spáð nokkuð í það. Ég hef ekki það mikla minnimáttarkennd fyrir þessari stóru og ágætu þjóð að ég hafi nokkrar áhyggjur af því.

Og hverjir tapa á því ef þessir flutningar stöðvast? Fyrir hverja er verið að flytja nema varnarliðið? Það eru almennir flutningar á vegum varnarliðsins. Það er ekki um að ræða hergögn eða olíu. Þetta eru flutningar á matvörum og húsgögnum, byggingarvörum og almennum varningi. Það hlýtur að koma að því að blessað varnarliðið finni fyrir því ef flutningarnir stöðvast og það er rétt að láta á það reyna hver viðbrögðin verða. Bandaríkjamenn hafa grafið upp þessi gömlu lög og eru að halda verndarhendi yfir flutningum til landsins í skjóli þessara einokunarlaga, vísa til þeirra og yppa öxlum þegar Íslendingar benda á að þetta sé hvorki í samræmi við frelsi né réttlæti eða hagsmuni. Hvers vegna getum við þá ekki sjálfir sett lög þar sem við kveðum á um það hvernig með flutninga skuli farið til og frá okkar eigin landi? Eigum við að fara að hlíta því að erlendar þjóðir ákveði hvernig vörur eru fluttar til og frá landinu? Það kemur auðvitað ekki til greina. Mér finnst vera til vanvirðu fyrir Íslendinga að hafa ekki lamið almennilega í borðið miklu fyrr og tekið af skarið um að þetta gengi ekki. Varnarliðið hér, eins og ég sagði áðan, er ekki fyrir Bandaríkjamenn. Það er í þágu okkar og það er í þágu allra hinna vestrænu þjóða. Það getur engin ein þjóð skorið sig úr og sagt: Við höfum einkarétt á að flytja vörur til og frá Íslandi ef okkur sýnist svo skv. einhverjum gömlum lögum.

Ég vonast til að þetta sé hv. þm. ljóst. Eins og ég sagði áðan þykir mér miður að þurfa að standa í deilum og skilja ummæli Ólafs Þórðarsonar þannig að hann sé að agnúast við þetta frv. Ég hafði vænst þess að menn gætu verið nokkuð sammála um frv. hvort sem menn eru með eða móti varnarliði. Hvort sem menn eru hlynntir Bandaríkjamönnum eða ekki ættu þeir samt að geta staðið vörð um þá hagsmuni sem hér eru í húfi.