06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Að þessu sinni get ég með glöðu geði sagt að ég þakka hæstv. fjmrh. greinargóð, skilmerkileg og stórmerk svör. Hæstv. ráðh. tók þann kost að draga saman tvær fyrstu fsp. í eina. Og þá er spurningin: Hver yrði tekjuauki ríkissjóðs ef söluskattsundanþágur yrðu afnumdar á vöru og þjónustu? Í svari hæstv. ráðh. kemur þetta fram: Miðað við að allar vörur aðrar en endursöluvörur, hráefni og útflutningsvörur yrðu söluskattskyldar þá mundi skattstofn söluskatts lauslega áætlað tvöfaldast og brúttótekjuauki ríkissjóðs yrði því nálægt 9 milljörðum kr. Miðað við að hluti af þessum 10% af tekjuaukanum kæmi í hlut hins opinbera yrði nettótekjuauki nálægt 8 milljörðum kr., hvorki meira né minna. Og við erum að ræða um fjárlög af stærðinni 20 milljarðar. Ég endurtek: Hér er um að ræða áætlaðan tekjuauka ríkissjóðs þrátt fyrir að ekki yrði lagður söluskattur á endursöluvörur vegna útflutnings. Engu að síður er um svona gífurlegar upphæðir að ræða.

Þriðja spurningin var: Hver gæti tekjuauki ríkissjóðs orðið vegna bættrar innheimtu ef allar undanþágur yrðu afnumdar? Ég vil bæta hér einu við: Í umræðum um skattalækkunarleið var talað um það í alvöru að lækka tekjuskatt sem svaraði kannske 1100 millj. kr. Í fjárlagafrv. hæstv. ráðh. er í framhaldi af þáltill. Alþfl. og Sjálfstfl. frá fyrra þingi talað um verulega lækkun tekjuskatts eða um 600 millj. Þetta mundi þýða, ef gengið væri lengra í þá átt að afnema hinn óréttláta tekjuskatt, að starfslið skattstofa gæti einbeitt sér að eftirliti með einfaldara og skilvirkara söluskattskerfi, enda segir hæstv. ráðh. í svörum sínum: Ljóst er að niðurfelling á ýmsum núverandi undanþáguliðum, einkum á undanþágum einstakra vörutegunda, mun stórbæta möguleika til skatteftirlits. — Og í því efni vek ég athygli á þáltill. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem samþykkt var á seinasta þingi og spurt er um efndir á hér á eftir undir öðrum dagskrárlið, þ.e. hvað líði störfum nefndar um aukið eftirlit með innheimtu skatta. Niðurfelling á undanþágum mundi þess vegna hvorki meira né minna en hugsanlega geta tvöfaldað tekjur ríkissjóðs fyrir utan það að einfaldara kerfi og bætt eftirlit mundi að áliti hæstv. ráðh. stórbæta möguleika til skatteftirlits.

Þá er komið að þriðja meginatriðinu: Hvað mætti þá lækka núverandi söluskattsálagningu mikið, ef miðað er við að halda óbreyttum tekjum, til þess að ná því markmiði að lækka vöruverð? Þessu svarar hæstv. ráðh. á þá leið að það láti nærri að 72% söluskattur í stað 23.5% skili ríkissjóði sömu tekjum og núverandi skattkerfi. Ef við sleppum öllum fyrirvörum hæstv. ráðuneytismanna um að hér sé gengið lengra en í ýmsum öðrum löndum um afnám undanþága, ef við gefum þeim til eða frá nokkur prósentustig af þeim sökum, þá er það engu að síður staðreynd að að mati ráðuneytisins mætti lækka söluskattinn um helming og halda sömu tekjum og er þó vafalaust ekki að fullu komið til skila hver tekjuaukningin yrði við bætta innheimtu. Nú ætla ég ekkert að halda því fram að ekki séu örðugleikar á svo víðtæku afnámi á undanþágum. Ef sú leið yrði farin er augljóst mál að hluta af tekjuaukanum yrði að verja til beinna greiðslna á móti til barnmargra fjölskyldna í formi barnabóta eða fjölskyldubóta til þess að bæta þeim upp hækkun á matvörum. En engu að síður leiða svör hæstv. ráðh. í ljós að hér er um slíkt stórmál að ræða í ríkisbúskapnum að fátt þolir þar samanburð.

Hér stóð hv. Alþingi á öndinni mánuðum saman á s.l. vetri til þess að ræða eitt visið fjárlagagat upp á 2 milljarða. Hæstv. ríkisstj. kunni engin önnur ráð en þau að leysa það að lokum með auknum erlendum lántökum sem eru ávísun á nýja skatta í framtíðinni. En það hvarflaði ekki að hæstv. ríkisstj. að fara þá leið að viðurkenna þær staðreyndir að við búum við hripleki skattakerfi sem skilar ríkissjóði ekki nema broti af því sem ætla mætti lögum skv. og á það bæði við um söluskatt og tekjuskatt. (Forseti hringir.) — Ég þakka, herra forseti.