03.06.1985
Efri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5814 í B-deild Alþingistíðinda. (5164)

416. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka báðum síðustu ræðumönnum fyrir hin vinsamlegu orð í minn garð.

Ég vil taka fram í tilefni af því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að ég hygg að það sé ekki neinn ágreiningur milli okkar né ágreiningur við nokkra aðra hv. þm. um að framkvæmd þessara þingskapalaga þarf að vera með þeim hætti að á engan hátt verði skertir möguleikar þm. til að gegna sínum þingmannsskyldum í umræðum á Alþingi. Raunar var þetta sjónarmið alltaf ríkjandi í störfum nefndarinnar sem vann að samningu þessa frv.

Ég vil svo segja í tilefni af því sem hv. 5. landsk. þm. sagði, en hann átti sæti í þeirri nefnd sem vann að undirbúningi málsins og samningu þessa frv., að það sem var gert er allri nefndinni að þakka, hverjum og einum sem átti sæti í nefndinni. Og ég vil ítreka það, sem ég hef áður sagt um það efni í umr. um þetta frv. og láta það verða mín síðustu orð að þakka þessari þýðingarmiklu nefnd fyrir störfin og fyrir samvinnuna. Og ég vil þakka öllum hv. þm. fyrir þann skilning og þá ábyrgðartilfinningu sem þeir hafa sýnt í þessu mikilsverða máli sem varðar svo mjög starf og virðingu Alþingis.