03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5822 í B-deild Alþingistíðinda. (5180)

456. mál, Byggðastofnun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var auðheyrt á ræðu hv. síðasta ræðumanns að byggðamálin eru eitt þeirra mála sem allir hafa vit á og fljótlegt er að finna patentlausnir á. Ég hef satt að segja aldrei áttað mig almennilega á því fyrr en ég hlustaði á hann flytja mál sitt hér áðan hversu auðvelt er í hugum sumra að rétta við hag þess fólks sem býr úti á landsbyggðinni. Lausnarorðin eru tvö, þ. e. fylkisstjórnir og þróunarstofur landshlutanna og síðan er með yfirlæti hafnað því að færa til nafnspjöld á kontór hér inni við Rauðarárstíg. Þetta gefur til kynna að sá sem talar haldi að vöxtur og viðgangur atvinnulífsins hér fyrir utan Reykjavíkursvæðið sé eitthvert reikningsdæmi inni á kontórum hér í Reykjavík, eitthvert kapphlaup um mælsku eða annað þvílíkt. Það er nú síður en svo. Það er hægt að færa afskaplega glögg rök fyrir því hvernig á því stendur að byggðarlög eru í mismunandi vexti. Stundum hefur hver starfandi hönd svo miklu að sinna að hún verður að vera myrkranna á milli að. Stundum kemur uppihald og hlé. Þetta er komið undir árferði, veðurfari og ýmsu öðru.

Ég hef hér ásamt hv. 3. þm. Reykv. flutt sérstaklega brtt. um að Byggðastofnun hafi heimili og varnarþing á Akureyri. Það er eðlilegt að spurt sé hvernig á því stendur að við skulum leggja þetta til og hvernig skuli standa á því, svo að ég reyni að skilja það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég vilji setja upp nafnspjöld á einhverjar hurðir fyrir norðan ef Byggðastofnun er ekki annað en nafnspjöld. Skýringin er að sjálfsögðu sú og krafan reist á því að stjórnir, höfuðstöðvar allra peningastofnana á landinu eru hér í Reykjavík, allra peningastofnana sem máli skipta. Skiptir þá engu máli hvort talað er um einkabanka, ríkisbanka, sjóði, hvort við tölum um það hvar lífeyrissjóðir stéttafélaga hafi sínar höfuðstöðvar ef þær eru á einhverjum stað. Það skiptir ekki heldur máli hvort við tölum um einstök hagsmunafélög sem ná til landsins alls, landsfélög. Það skiptir ekki máli hvort við spyrjum um hvar Stéttarsamband bænda hafi sínar höfuðstöðvar, sjómannasambandið, útgerðarmenn, ekki heldur Samband ísl. samvinnufélaga. Það er jafnvel svo að höfuðstöðvar tilrauna í landbúnaði eru búsettar í Reykjavík.

Öllu þessu valdi og öllum þessu áhrifum hefur verið dengt hingað á þetta svæði hér við Faxaflóa, hér við Kollafjörð, og ég held að það breyti engu um það þótt við reynum hér á Alþingi að búa til einhvern pappír um fylkisstjórnir og þróunarstofur landshluta. Ekki var nú reisnin meiri hjá síðasta ræðumanni en svo að hann hugsaði sér að landshlutarnir ættu að hafa einhverja þróunarstofu, einhverja stássstofu. Það væri ekki einu sinni heilt hús sem hann hugsaði sér í allri þessari endurreisn landshlutanna. Það varð að vera stofa, stássstofa, puntstofa fyrir stefnuskrána eða eitthvað svoleiðis, þar sem hægt væri að hengja upp plakötin um það að menn hugsuðu út fyrir Reykjavík. En við sem erum eldri í hettunni og höfum starfað jöfnum höndum úti á landi og hér í Reykjavík vitum að það sem mjög miklu máli skiptir um uppgang atvinnulífs hvar sem er er aðgangur að fjármagni.

Þegar ég hugsa um Byggðasjóð og Byggðastofnun geri ég það ævinlega út frá þeirri forsendu að atvinnufyrirtækin geti sótt þangað fyrirgreiðslu til þess sumpart að rétta af eða létta lausafjárstöðu sína ef sérstaklega stendur á, en þó fyrst og fremst, sem er aðalverkefnið, til hins, að fyrirtæki út um landsbyggðina geti fengið stofnlán hjá þessari stofnun, hún geti veitt styrk til þess að halda atvinnulífinu gangandi til þess að byggja upp nýtt, til þess að endurnýja þær vélar sem fyrir eru, til þess að vinna að hagræðingu og rannsóknum á sviði atvinnulífsins.

Það er kannske eðlilegt að menn geti þá spurt á móti: Nægir ekki fyrir þessi fyrirtæki að sækja í stofnlánasjóðina? Eru ekki Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Fiskveiðasjóður fyrir hendi og er það ekki nægilegt fyrir þessi fyrirtæki til þess að þau geti gengið og fái þaðan sömu fyrirgreiðslu og þau fyrirtæki sem staðsett eru t. d. við Faxaflóann, hér við Kollafjörðinn vil ég segja, á stór-Reykjavíkursvæðinu? Og svarið er nei. Ástæðan er einfaldlega sú, að þær fasteignir sem eru úti á landi eru ekki metnar til verðs. Þegar beðið eru um veð fyrir fjárskuldbindingum er ekki miðað við brunabótamat eða byggingarverð húss, heldur er gjarnan miðað við endursöluverð eða fasteignamat. Þetta veldur því að það er nauðsynlegt varðandi uppbygginguna úti á landi að hafa aðrar og nokkuð frjálsari reglur um veð en unnt er hér þar sem fasteignir halda mjög vel verðgildi sínu og hægt er að sjá langt fram í tímann hversu um það verðgildi fer, hvort nokkur hætta sé á því að það hrapi og kannske meiri líkindi til hins, að vel við haldin eign hækki í verði ef hún stendur vel við umferð. Þetta er t. d. mjög áberandi varðandi uppbyggingu í fiskeldi svo að ég taki dæmi.

Þetta er afleiðing af því að íslenskar lánastofnanir hafa of mikið miðað lánveitingar sínar við veðin sem til eru í staðinn fyrir að meta arðsemi þess rekstrar sem í hlut á, arðsemisvonina. Ég vil segja að þá verði margt og mikið breytt þegar sú regla verður upp tekin að arðsemisáætlanir verði uppistaðan í ákvörðunum banka hér á landi til lánveitinga eða stofnfjársjóða til lánaveitinga til stofnlána og þær föstu viðjar, sem slíkar lánveitingar hafa verið í, rofnar. Þetta er ástæðan. Við teljum sem sagt að líka á þeim stöðum þar sem atvinnulíf er í góðu horfi og jafnvel vaxandi sé nauðsynlegt að hafa einhverja stofnun sem lítur öðrum augum á veðin, trygginguna fyrir fénu, en gert er frá hörðu viðskiptabankalegu sjónarmiði. Það er þess vegna sem við leggjum upp úr því að nauðsynlegt sé að hafa traustan og sterkan Byggðasjóð.

Við skulum líka rifja upp hvenær það gerðist að þessi sjóður náði því mikla fjármagni sem síðan hefur í honum verið. Það var á þeim árum þegar samið var um álverið í Straumsvík. Þá var ákveðið að útflutningstekjur ríkissjóðs af álverinu, það hét framleiðslugjald, skyldu renna í atvinnujöfnunarsjóðinn. Það var þannig hugsað að þéttbýlið hér hefði vissulega af því mikinn ávinning að þessi orkufreki iðnaður skyldi rísa í nágrenni Hafnarfjarðar og nauðsynlegt væri, til þess að halda við jöfnuði í byggðinni, að hinum beina afrakstri ríkisins af þessari starfsemi yrði varið til að styrkja undirstöður atvinnulífs utan þessa svæðis og þá voru atvinnufyrirtækin sjálf fyrst og fremst höfð í huga. Ég held að það sé ekki síður ástæða til að hugsa um málið frá þessum grundvelli nú þegar stóriðja hefur risið við Hvalfjörð og nú þegar fyrir liggur að miklar líkur bendi til að helmingsstækkun álversins komi til greina. Og við sjáum að varðandi ýmsa nýsköpun aðra í atvinnurekstri stendur Reykjanesskaginn betur að vígi en fjarlægari byggðir, bæði vegna landkosta af náttúrunnar hendi, en líka vegna nálægðarinnar við eina útflutningsflugvöll landsins, sem getur raunar ráðið úrslitum um það hvort markaðssending flugleiðis beint á markað erlendis með t. d. alifisk er hagkvæm eða ekki, borgar sig eða ekki, eins og t. d. lax. Ég er ekki eins trúaður á álinn eins og laxinn.

Hv. þm. sagði áðan að þeir menn frá landshlutasamtökum sem komu hingað hafi sagt að Byggðastofnun væri pappír og skipti ekki máli. Ég hef að vísu ekki fundið það hjá þeim mönnum, sem ég hef talað við um þau mál og eru í landshlutasamtökum, að þeim þyki litlu skipta hvernig staðið sé að fjárfestingarlánum til atvinnurekstrarins og hvort þjóðfélagið hafi einhverja tryggingu fyrir því að undir bagga sé hlaupið ef byggðarlög verða fyrir miklu áfalli. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Ég held líka að það sé mikill misskilningur að halda að sá samdráttur sem verið hefur á síðustu misserum víðs vegar úti um landið sé því að kenna að Byggðastofnun sé við Rauðarárstíg en ekki hinu og málin væru einhvern veginn öðruvísi ef við hefðum komið upp þróunarstofum út um landshlutana, einhverjum þróunarstofum.

Ég held að þróunarstofa við Eyjafjörð hefði engu breytt um það að þorskveiði, sem er uppistaðan þar í botnfiskaflanum, dróst saman um helming frá árinu 1981 til 1983 og minnkaði enn á árinu 1984. Ég held að þróunarstofa hefði ekki dregið neitt úr þessari aflarýrnun. Og ég held að þeir menn sem þar þekkja til viti að auðvitað skiptir það höfuðmáli fyrir veltuna hvort skipin eru gerð út fyrir norðan allt árið eða fara vestur á vertíð eða hvort það kemur einn fiskur úr sjónum í staðinn fyrir tvo á svo miklu landsvæði. Ég held það dyljist heldur engum nú að miklu fjörugra er þar nú, það er miklu meira líf í atvinnulífinu þar nú en áður, og þó hefur engin þróunarstofa verið reist eða opnuð.

Ég held líka að ef við tölum um afkomu landbúnaðarins sé það mikil einföldun á málinu að halda að þróunarstofan auki eitthvað innanlandsneyslu á dilkakjöti eða mjólk. Ég held að hún hafi nákvæmlega ekkert með það að gera. Ég held að þeir erfiðleikar sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir nú og vissulega bitnar á þeim þjónustukjörnum, þeim þorpum og kaupstöðum sem þjónusta landbúnaðinn eigi miklu dýpri rætur en svo að við getum komist fyrir þá með einfaldri lagabreytingu hér á hinu háa Alþingi. Þvert á móti liggur nú fyrir Alþingi mjög ítarlegt frv. um framleiðsluráð, sem mikil vinna hefur.verið lögð í, og þar er viðfangsefnið einfaldlega þetta: Hvernig tekst okkur að búa til þá umgjörð um landbúnaðinn að bændur geti vel við unað og haldið sómasamlegum kjörum og takist samt sem áður að aðlaga þá þeim nýju sjónarmiðum og nýju tímum sem við erum að tileinka okkur? Þetta held ég að sé nær kjarna málsins.

Svo er síðast en ekki síst það að eftir því sem nær dregur aldamótum virðist þróunin verða sú, með vaxandi hraða raunar, að æ fleiri fara í þjónustustörf af ýmsu tagi og eðli málsins samkvæmt er minna af þeim störfum þar sem atvinnulíf er einhæfara, fólkið færra. Þetta dregur líka kraft úr þessum byggðum sem allt sitt byggja á frumframleiðslunni.

Ég hjó eftir því líka hjá hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni þegar hann mjög ábúðarfullur lauk sinni ræðu hér áðan og talaði um að hann mundi láta það berast ef sín 4. till. á þskj. 1079 yrði felld. Ég hef nú verið að lesa þessa brtt. yfir og get, með leyfi hæstv. forseta,lesið 2. mgr.:

„Áætlanir, sem fela í sér tillögur um aðgerðir á sviðum sem heyra undir ýmis rn., skulu sendar félmrh. sem gerir ríkisstj. grein fyrir þeim. Viðkomandi rn. skulu síðan fjalla um tillögur Byggðastofnunar.“ Að vísu heyrir Byggðastofnun skv. þessu frv. alls ekki undir félmrh., heldur undir forsrh. (SvG: Þetta byggist á 1. till.) Já, ég tók ekki eftir því. Ég bið afsökunar. Það sýnir að það er samræmi að þessu leyti. Eftir sem áður sé ég ekki hvernig þetta mál kemur undir félmrh., enda er þarna sérstaklega talað um að ef áætlanir eru gerðar og fjalla um aðgerðir á öðrum sviðum skuli samt sem áður demba þessu undir félmrh. Ég held að erindi sem berast Byggðasjóði og Byggðastofnun séu afskaplega fá inni á verksviði félmrh. Ég held að hv. þm. verði að gera miklu gleggri grein fyrir sínum skoðunum en fram kom í ræðu hans hér áðan ef unnt eigi að vera að taka þessar brtt. alvarlega vegna þess að starfsemi Byggðastofnunar, eins og hún hefur verið og eins og hugmyndir eru um að hún verði áfram, eru á allt öðrum nótum en þessi hv. þm. gerir ráð fyrir. Ég held því að það sé einungis þeim mönnum til tekna og góðs ef hv. þm. lætur það sem víðast berast hvaða menn greiða atkv. gegn þessari hans till.

Ég vil svo að síðustu aðeins koma inn á landshlutasamtökin. Það eru sumir að gera því skóna að landshlutasamtökin eigi að hafa meiri þýðingu en verið hefur í sambandi við byggðamálin og í sambandi við útdeilingu á fjármagni sem er til ráðstöfunar til lánveitinga fyrir atvinnulífið úti á landi. Ég verð þá að segja á móti að ekki hefur verið mótuð sú löggjöf um landshlutasamtök enn að gefi tilefni til þess að Alþingi ætli þeim mjög mikið hlutverk af sinni hálfu eða vísi miklu af málum þangað sem eru afgerandi varðandi vöxt og viðgang byggða. Ég held að nauðsynlegt sé, eigi svo að fara, að því sé miklu meiri gaumur gefinn en áður hvernig við viljum standa að landshlutasamtökunum, hvernig við viljum byggja þau upp og hvaða sjónarmið eigi að vera ráðandi innan þeirra, hvernig vægið eigi að vera milli einstakra sveitarfélaga í landshlutasamtökunum, hversu mikið tillit eigi t. d. að taka til þess fjölda sem er í hverju sveitarfélagi, þess fjármagns sem einstök sveitarfélög leggja fram til landshlutasamtakanna. Ég held að þetta sé alveg nauðsynlegt að gera ef hugmyndin er að ætla þeim meiri hlut en verið hefur. Reynslan hefur sýnt að í byggðamálum almennt hefur orðið tilhneiging til mikillar skriffinnsku, tilhneiging til mikilla fundarhalda sem ekki hafa verið markviss né gefið þá niðurstöðu að eftir því hafi verið tekið oft og tíðum.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð mikið lengri. Ég vil sem sagt leggja í fyrsta lagi áherslu á að ég tel að tími sé til þess kominn að einhverjar af þeim peningastofnunum sem safnað hefur verið saman, hrúgað upp hér á höfuðborgarsvæðinu, fái að búa um sig annars staðar. Ég hef flutt tillögu um að það verði á Akureyri, auðvitað vegna þess að við Eyjafjörð er langflest fólk saman komið utan Reykjavíkursvæðisins. Eyjafjarðarsvæðið er í stórum dráttum sjálfstæð verslunar- og þjónustuheild. Ég tel að eðlilegt sé að þetta landnám verði hafið þar og að þar muni gleggst reynsla koma á það hversu það muni reynast þessum undirstöðustofnunum okkar um landsbyggðina.

Ég vil í öðru lagi leggja áherslu á að Byggðasjóður eigi fyrst og fremst að vinna á sviði atvinnumála og beina kröftum sínum og athygli að því að treysta undirstöður atvinnulífsins, bæði með beinum lánveitingum en einnig með áætlanagerð þar sem það á við og leiðbeiningum af öðru tagi.