03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5826 í B-deild Alþingistíðinda. (5181)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í þskj. hef ég skilað séráliti um þetta mál. Það er á þskj. 1063.

Ég bendi á það í fyrsta lagi að auðvitað sé ekki hægt að skoða þetta frv. til l. um Byggðastofnun eitt sér. heldur verður að skoða það í samhengi við frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands en þessi tvö frv. fela það í sér frekar öðru að skipta Framkvæmdastofnun í tvær stofnanir með sérstjórnum og forstjórum þannig að sú stefna sem fram hefur verið haldið um að minnka báknið virðist hafa eignast það afkvæmi að auka einmitt báknið með því að tvöfalda það sem áður var einfalt. Sannleikurinn er sá að það er nánast engin önnur skipulagsbreyting sem á sér stað skv. þessum tveimur frv. en sú ein að auka báknið með þessum hætti, skipta Framkvæmdastofnuninni í tvær stofnanir og setja sérstaka stjórn og forstjóra yfir hvora um sig.

Það var annars merkilegt í umræðum um þetta mál í nefnd að þeir sem komu til viðræðna við nefndina höfðu orð á því, eins og reyndar sumir nm. aðrir, jafnvel þó að þeir mæli með þessum frv., að það starf sem unnið væri í byggðadeild og í Framkvæmdastofnun væri í heldur lausu lofti. Þar sætu menn við það að semja langar álitsgerðir, stundum „selvfölgeligheder“ svo notað sé orðalag eins hv. nm., og það væri ekki séð að hvaða gagni þessi nál. kæmu, enda væri ekki vitað að þessi álit eða þessar álitsgerðir þessarar deildar eða stofnunar hefðu verið notaðar við ákvarðanatöku yfirleitt, heldur væri hlutskipti þessara álitsgerða og áætlana yfirleitt það að rykfalla niðri í skúffu nema þá ef vera skyldi að rykið félli á þær uppi í hillu.

Þetta var eiginlega inntakið í þeirri umræðu sem fór fram um þau verk sem unnin væru í þessari stofnun. Menn höfðu það líka á orði að hér væri verið að framlengja galla þess skipulags sem menn hefðu búið við og menn mættu þá vænta þess í framhaldi af því að skrifaðar yrðu álitsgerðir og grg. og áætlanir sem ekki styddust við raunveruleikann, heldur væru fyrst og fremst gerðar þeim til dundurs sem þetta verk væru að vinna. Afraksturinn af því starfi væri þess vegna nánast enginn. Þetta kom fram í umfjöllun nm. um þetta frv. Þetta kom fram hjá ýmsum þeim aðilum sem komu til heimsóknar við nefndina, svo sem fulltrúum ýmissa landshlutasamtaka eða réttara sagt forstöðumönnum þeirra.

Það sem er gallinn á því skipulagi sem við búum við er nefnilega það að þær álitsgerðir og þær áætlanir sem unnar eru í þessum stað eru ekki í tengslum við raunveruleikann né heldur þá aðila sem ákvarðanirnar eiga að taka og bera ábyrgð á framkvæmdinni. Þær eru ekki í höndum þeirra aðila á hverjum heitast brennur að vinna að byggðajafnvægi eða draga úr byggðaröskun, ekki í höndum þeirra sem ábyrgðina bera í þeim efnum, heldur er þetta starf unnið í lausum tengslum við raunveruleikann og í nánast engum tengslum við þá sem ákvarðanirnar eiga að taka og ábyrgðina bera. Um þetta hafa menn sagt að hér sé verið að framlengja galla þess fyrirkomulags sem við búum við. Sannleikurinn er þá einfaldlega sá að ekki er tekið á því skipulagsvandamáli sem hér er við að stríða. Það eru ekki tengd saman framkvæmdin og vinnan við áætlunargerðina eða skýrslugerðina. Það er þetta sem skortir á. Hér er einhver aðill sem safnar upplýsingum og skrifar álitsgerðir, en ákvörðunaraðilinn er einhvers staðar allt annars staðar og víðs fjarri og þetta tengist ekki saman.

Ég held að það fari ekki milli mála að byggðaþróunarmál og byggðaáætlanir séu einmitt best komnar í höndum þeirra sem bera ábyrgðina á framkvæmdinni og þá jafnframt hjá þeim sem líklegastir eru til þess að þekkja best til. Í samræmi við þetta er eðlilegast að færa þessi verkefni út í héröðin og reyndar þá að mínum dómi til lýðræðislega kjörinna héraðsstjórna eða fylkisstjórna eða hliðstæðra eininga. Ég held að það væri nær að taka á því verkefni að koma málum þannig fyrir en að gera þá skipulagsbreytingu eina, sem hér er lagt til. að gera tvíhöfða yfirstjórn úr einni.

Það er einmitt af þessum sökum og þar sem fyrir liggur að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir valddreifingu og stefnir þess vegna ekki til framfara í þessum efnum sem ég tel að það sé ekki til neins að vera að samþykkja þetta frv. En ég segi líka að samþykki frv. af þessu tagi verður mönnum til afsökunar, afsökunar fyrir því að takast ekki á við það verkefni sem ég tel að hér þurfi að vinna og hvers ágöllum ég hef reynt að lýsa hér í máli mínu að framan, verkefni sem á að vera fólgið í því að gera raunverulega skipulagsbreytingu og koma á raunverulegri valddreifingu og flytja framkvæmdina, ábyrgðina og áætlunargerðina til sama aðilans þannig að það vinnuafl sem við þetta vinnur nýtist.

Með því að hér er farin sú afsökunarleið, sem ég hef hér gert að umtalsefni, að gera nánast ekkert í þessum málum, og með því að það er líklegt til þess að tefja fyrir því að menn snúi sér að hinum raunverulegu verkefnum í skipulagsmálum, þá legg ég til að þetta frv. verði fellt svo að menn geti snúið sér að því verkefni sem þeir raunverulega eiga að vera að vinna.