03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5833 í B-deild Alþingistíðinda. (5184)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að ýmsir eru sömu skoðunar og ég lýsti áðan að umræður um innviði þessa tiltekna frv. væru víðs fjarri kjarna málsins. Þá á ég við að þetta frv. fjallar alls ekki um kjarna málsins, um byggð í landinn, heldur fjallar það um innanhússarkitektúr á Rauðarárstíg 25. Mér finnst furðu sæta að menn skuli hreinlega vera svo blindu slegnir. eins og straumarnir liggja allt í kring í þessu samfélagi. að þeir komi ekki auga á að leikur að gullum á Rauðarárstíg í Byggðastofnun er alls ekki kjarni málsins. Svo að ég endurtaki það sem ég sagði áðan: Það er fólk svo þúsundum skiptir, að skipa sér í sveitir út um allt land og það skrifar upp á hver einasti maður í heilum hreppum, heilum héruðum. Og þetta fólk segir: Við viljum fá völd. Við viljum ekki kjósa einhverja héraðshöfðingja á fjögurra ára fresti sem ríða gandreið suður til Reykjavíkur og stjórna svo öllu þaðan. Og þetta eru ekki bara íslensk sjónarmið. Þetta er að gerast allt í kringum okkur, á öllum Vesturlöndum hvert sem við lítum. Hvort sem það er Bretland og Bandaríkin eða Evrópulönd önnur en Bretland, þá er hið stóra pólitíska viðfangsefni samtímans þetta: Hvernig gerum við fólki kleift að ná völdum.

Stjórnkerfið sem við búum við núna ber merki þess hvernig til þess var stofnað. Það var sett upp á þeim tímum þegar það gat tekið vikur eða jafnvel mánuði að koma mönnum til þings. Þeir voru þá alls ófærir eða illa færir um að hafa náið samband við umbjóðendur sína vegna samgönguleysis og sambandsleysis ýmiss konar. Við sjáum þessi gömlu merki á ýmsan hátt í stjórnarfari okkar. En nú er öðruvísi komið. Þekking, sérþekking, upplýsingar, fagkunnátta. er til út um allt og fólk hefur alla burði til að ráða málum sínum sjálft í miklu meira mæli en menn fyrr á tímum. Þessar eru breytingarnar. Þetta er ekki bara að gerast á Íslandi. Það er að gerast hvar sem er. Athugun sem gerð var fyrir nokkrum misserum í Bandaríkjunum sýndi að stöðugt færri ákvarðanir sem varða miklu fyrir líf fólks eru teknar í Washington. Stöðugt fleiri ákvarðanir færast frá Washington heim í fylki. til fylkisstjórna eða frá fylkisstjórnum og til sveitarstjórna og jafnvel frá sveitarstjórnum og til hverfastjórna eða svæðastjórna. Fólk er farið að taka miklu meiri þátt í allri umfjöllun um sitt umhverfi. Það ákveður t. d. hvort það vill þetta árið sjá um sorphreinsunina sjálft. Okkur finnst það kannske skrýtið. En þetta er samt svo. Menn ákveða e. t. v. þetta árið að þeir vilji taka það á sig að sjá um sorphreinsunina. Þá taka þeir afleiðingunum af því og borga skatta skv. því.

Þessi orð eru mælt hér af þeirri sannfæringu að þetta verði hið pólitíska viðfangsefni næstu tveggja til þriggja ára á Íslandi. Það er eins gott að menn búi sig undir það. Fólk mun nefnilega koma og berja virkisveggina að utan og krefjast valda sinna.

Ýmsir ræðumenn ítrekuðu þau sjónarmið að vandamál byggðar á Íslandi eru ekki skipulagsmál inni á byggðakontórum. heldur skipulagsmál stjórnkerfisins. Það hefur komið fram að til þess eru vilji og möguleikar að umfjöllun um stóra hluti og smáa færist meir heim í héruð en nú er og fólkið fer herför um landið og gerir til þess kröfur. Á það verða menn að horfa.

Mig langar að gera að umtalsefni umræðuna um staðsetningu Byggðastofnunar. Hvort hún er á Rauðarárstíg eða á Helgamagrastræti á Akureyri er aukaatriði. Það er snefilsmunur. Ég held að starfsfólk Byggðastofnunar sem væri á Akureyri væri e. t. v. opnara fyrir ýmsum vandamálum og fyrir þeim kröfum sem fólk úti á landi gerir. Ég held að ef höfundar þessa frv. hefðu dvalið við samningu þess á Akureyri — þá á ég við á síðustu misserum — hefði útkoman orðið öðruvísi. Það er sem sagt snefilsmunur. Það væri líklega skömminni skárra að þessi stofnun yrði á Akureyri. En aðalatriðið er að stofnun af þessu tagi á hvergi að vera. Ég hef rætt það við hv. þm. Stefán Guðmundsson að við gætum slegið margar flugur í einu höggi með því að byggja þessa stofnun í Kolbeinsey. Þá gengi fram sú hugsun þm. að styrkja þennan grunnlínupunkt íslenskrar landhelgi. Við kæmum þessari stofnun um leið þangað sem hún gerði minnst ógagn. Þannig gætu byggðamál í landinu haldíð áfram að þróast fyrir frumkvæði fólksins en ekki byggðakontórista.

En mergurinn málsins er að sá hugsunarháttur sem gerir ráð fyrir því að framfarir í byggðamálum komi út frá einum stað, hvort sem það er í Reykjavík eða Akureyri, er rangur. Þetta er hugsunarháttur hinna gömlu stjórnarhátta sem gera ráð fyrir og gera kröfu til þess að hafa vit fyrir fólki, sem gera ráð fyrir að fólk hafi ekki upplýsingar, hafi ekki kunnáttu og jafnvel ekki vilja til þess að hafa vit fyrir sér. Það sem skiptir fyrst og fremst máli er að menn fari að sjá þetta frá hinu sjónarhorninu, þ. e. að þeir fari að horfa á þessi mál af landsbyggðinni sjálfri. Þó að hv. þm. Halldór Blöndal kysi að fara lítilsvirðandi orðum um hugmyndir um þróunarstofur landshlutanna staðhæfi ég að sá hugsunarháttur sem býr að baki þeirri till., að leggja áherslu á frumkvæði heimamanna, er það sem koma skal í þessum efnum og það er hinn nýi tími. Það er hryggilegt ef þm. er svo blindu sleginn í þessum efnum að hann ætlar að missa sjónar á því.

Varðandi staðsetninguna á Akureyri langar mig að geta þess að ég var þar á fundi nýlega og var að ræða þetta mál. Það var Dalvíkingur á fundinum. Dalvíkingurinn sagði: Akureyringarnir verða ekkert betri en Reykvíkingarnir. — Ég held því að staðsetning einnar stórrar stofnunar skipti ekki máli. Það sem skiptir höfuðmáli er, hvort við skipuleggjum þessi mál með eina stóra stofnun í huga eða segjum: Eflum frumkvæði heimamannanna. Látum þá setja upp stofur eða stofnanir. Við skulum líða þeim að taka völdin í þessum efnum og stofna sínar stofur eða stofnanir. Síðan fylgjast menn með hvað gerist á heimavelli, hjá fólkinu sjálfu.

Það er eitt sem mér finnst afar lýsandi fyrir hugsunarhátt stofnanaveldisins í þessum efnum, þ. e. að oftar en ekki heyri ég talað um að nauðsynlegt sé að vernda byggð, verja byggð eða varðveita byggð og varðveita atvinnulíf og atvinnuhætti fremur en að þróa byggð og aðlaga byggð að nýjum tímum. Það er þessi byggðasafnshugsunarháttur sem kann ekki góðri lukku að stýra í atvinnumálum og atvinnuháttum. Það getur ekki verið stefna stjórnvalda að gera atvinnulíf í landinu að einhverju allsherjar þjóðdansafélagi til þess að gera síðan horft á menn í kúskinnsskóm og vaðmálsbuxum stunda gömlu siðina. Við þurfum ekki að verja eða varðveita. Við þurfum að gera fólki og fyrirtækjum kleift að aðlaga sig og þróast og þá er engin hætta á því að við verðum umheiminum Árbæjarsafn í atvinnumálum og atvinnuháttum.

Ég vildi rekja hérna nokkur dæmi um það sem mér finnst einkenna miðstýringarhugsunarháttinn og þá stjórnarháttu sem munu verða frá Byggðastofnun hvort sem hún er í Reykjavík eða á Akureyri.

Það sem er það versta er að þessi hugsunarháttur neitar heimafólki, neitar þeim sem best þekkja til um aðild og frumkvæði. Sé stjórnað á þennan hátt er fólki neitað um réttmætt vald yfir eigin högum.

Það sem einkennir svona stjórnunarhugsunarhátt líka er fjarlægðin og hið þunga skrifræði sem er svo einkennandi fyrir þetta allt saman. Við þekkjum dæmin um hvernig menn hafa viljað haga þessum hlutum. Við þekkjum Rafmagnsveitur ríkisins, við þekkjum Skógrækt ríkisins og Húsnæðisstofnun ríkisins svo að örfá dæmi séu nefnd. Okkur er tamt að hugsa sem svo að ómögulegt sé að haga starfsemi þessara stofnana á annan hátt en þann að rekinn sé gífurlega stór höfuðkontór og þar séu ráðin ráð fólks og fénaðar út um allt landið. Við sjáum þennan hugsunarhátt birtast í annars konar starfsemi. eins og t. d. bankastarfsemi og fjármálastarfsemi. Allri bankastarfsemi í landinu er stýrt frá örfáum kontórum og er það jafnslæmt hvort sem það er á Akureyri eða í Reykjavík. Við værum engu bættari með allt þetta kerfi þó það væri á Akureyri. Gallinn er að við skulum hafa þetta þunga miðstjórnarkerfi. Það þarf að laga. Allar fjármálaákvarðanir sem máli skipta eru teknar í aðalstöðvunum sjálfum. Þessum hugsunarhætti þarf að bylta.

Annað sem gerist við þennan hugsunarhátt miðstýringarinnar er að ríkisstj. og stofnanir hennar kaffæra sig í alls kyns smáverkefnum, verkefnum sem ætti að leysa á heimavelli þar sem menn hafa til þess vit og standa nálægt verkefnunum. Þessi verkefni eru stjórnkerfisins vegna komin í pósthólf þm. eða embættismanna og þvælast þar fram og til baka. Og þá gerist ýmislegt.

Í fyrsta lagi fara menn að taka ákvarðanir um þessi smáu verkefni staddir fjarri vettvangi og það leiðir til þess að ákvarðanirnar hljóta að verða verri.

Í öðru lagi leiðir þetta smáverkefnakraðak til þess að menn hafa ekki tíma til að sinna þeim verkefnum sem alþm. og embættismenn stjórnarráðs fyrir sunnan eiga að sinna. Það er hin almenna stefnumörkun fyrir þjóðina í heild. Það er það sem vantar e. t. v. mest í okkar samfélagi að við leggjum línur, horfum til framtíðar.

Eitt besta dæmið um þetta er t. d. húsnæðismál. Hvað erum við lengi búin að vera að vesenast í skammtímalausnum í húsnæðismálum, redda fólki fyrir horn, kannske nokkra mánuði Aldrei fyrr en rétt á síðustu vikum hafa menn hugað að því að kannske sé eitthvað bogið við það að Íslendingar einir allra þjóða á Vesturlöndum skuli enn þá búa við ómannúðlega húsnæðisstefnu. Hvers vegna hefur íslenskum stjórnvöldum ekki tekist að leysa húsnæðismál eins og gert hefur verið alls staðar annars staðar á vestrænu byggðu bóli Kannske er það vegna þess að þeir hafa verið svo önnum kafnir við að bjarga smámálunum, hinum einstöku verkefnum. Þau geta verið brýn. Ég efast ekki um að forsrh. finnur það á sér brenna þegar til hans er hringt út af erfiðleikum í húsnæðismálum, eins og hann hefur margsinnis lýst opinberlega, og hann bregður við af sínu góða hjarta, hringir í bankastjóra og útvegar lán. Bankastjórinn segir honum um leið að þessa séu mörg fleiri dæmi. Þetta er svo sem ágætt. En væri ekki tíma, orku og viti ráðh. betur til þess varið að reyna að marka heildarstefnu, framtíðarstefnu til þess að það fækkaði þó smáverkefnunum, fækkaði neyðartilvikunum sem menn eru sífellt neyddir til þess að leysa

E. t. v. er þó verst við þessar miðstjórnartilhneigingar að þær drepa fjölbreytileika, frumkvæði og nýjungastarfsemi, tilraunastarfsemi sem er nauðsynleg í öllu atvinnulífi. Þetta er reyndin, ekki bara á Íslandi heldur höfum við um þetta dæmi frá öllum vestrænum löndum. Þetta er hryggilegt og það verðum við að forðast og fram hjá því verðum við að komast.

Þetta voru örfá dæmi um hvernig miðstjórnartilhneigingarnar eru fólki til trafala og leiða beinlínis til neyðar frekar en bjargar.

Ef við lítum í heild á íslenska samfélagið má kannske segja að mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála nú sé að brjóta upp áratuga gamalt stjórnkerfi miðstýringar og hagsmunavörslu. Þá er ég ekki að tala um byggðastefnu einungis. Ég er að tala um stjórnarhætti í heild. Við verðum að finna skýringar á því að þrátt fyrir einhverja mestu verðmætasköpun á öllum Vesturlöndum eru Íslendingar einna lægstir þegar að því kemur að skrá kaupmátt venjulegra launa. Við verðum að fá svar við þeirri spurningu: Hvað gerist frá því að þjóðin bakar sína margrómuðu þjóðarköku og þangað til hver og einn fær sneiðina sína? Skýringanna er að leita í ónýtu stjórnkerfi og ónýtum stjórnarháttum. Um þetta höfum við dæmin á hverjum einasta degi. Þessir stjórnarhættir virðast beinlínis eyðileggja og sóa afrakstri af vinnu landsmanna. Það er þess vegna sem þjóðarkakan verður svo undarlega lítil til skiptanna þó að hún sé svo stór þegar hún er bökuð. Skýringanna á þessu er að leita, eins og ég segi, í úreltum stjórnarháttum. Þessu stjórnarfari verðum við að breyta. Við þekkjum einkennin. Við könnumst við tilhneiginguna til að stjórna stóru og smáu með einni ákvörðun. Við þekkjum heildarkjarasamningana. (Forseti: Mig langar að spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Það er komið yfir þingfundatíma.) Ég á talsvert eftir, því miður. (Forseti: Þá verðum við líklega að fresta núna og láta þessu lokið hér í dag.) Já.