04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5839 í B-deild Alþingistíðinda. (5187)

220. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 264 hefur hv. 4. þm. Norðurl. v. borið fram til mín fsp. og eins og fram kom í máli hans var hún lögð fram samhliða fsp. á þskj. 263 til hæstv. viðskrh. Þeirri fsp. svaraði hæstv. viðskrh. fyrir skömmu. Í svari hans kemur fram að breytingar á framkvæmd á greiðslum rekstrar- og afurðalána beint til bænda í samræmi við þál. Alþingis frá 22. maí 1979, sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til, hafi dregist af ýmsum ástæðum sem tilgreindar voru í svari hæstv. viðskrh. Þess vegna er það að svar hæstv. viðskrh. gefur skýringar að mestu leyti við spurningu nr. 1 og 2 í fsp. á þskj. 264. Hef ég þar litlu við að bæta nema í sambandi við 2. liðinn. Ég held að afurðasölufélög hafi reynt að greiða til bænda eins og þau hafa haft bolmagn til. En það kemur þá kannske frekar inn á fyrri spurningu 3. liðar, hvort sláturhús hafi stuðlað að því að bændur fengju fullt grundvallarverð á síðasta hausti. Ég held að sláturhúsin hafi reynt að gera það sem þeim var kleift í þeim sökum.

Á síðasta hausti var greiðslu afurðalána flýtt meir en oftast hafði verið áður þannig að það gerði sláturhúsunum mögulegt að greiða fyrstu greiðslu miklu fyrr en oftast hafði verið áður, aðeins fáum dögum eða viku eftir afhendingu, og vissulega var það framför til bóta. Hins vegar hækkaði heildarupphæð afurðalánanna ekki á s. l. hausti.

Landbrn. hefur ítrekað gert tillögur um að afurðalánin yrðu hækkuð, en það varð því miður ekki á s. l. hausti. En eftir heildarupphæð afurðalánanna fer greiðslugeta sláturhúsanna ásamt því hvað birgðir seljast ört á meðan lánin eru ekki nægjanleg til þess að greiða haustverðið út. Slíkur aðstöðumunur mun hverfa þegar til framkvæmda koma tillögur nefndar þeirrar sem viðskrh. skipaði á síðasta vetri og hann gat um í svari sínu og hefur það hlutverk að endurskoða reglur um veitingu afurðalána svo að uppgjör haustgrundvallarverðs fari fram í síðasta lagi í desembermánuði ár hvert.

Það er nokkur munur á hversu fljótt sláturhúsin hafa greitt upp í haustgrundvallarverðið á liðnum árum. En það fer nokkuð eftir því hversu ör sala er hjá þeim á birgðunum, hvað mikið þau hafa getað losað þannig af fjármagni fyrir áramót. Mismunurinn mun vera á bilinu frá 75% og allt að 100% fyrir áramót, en þá hefur kannske komið aftur fram mismunur í endanlegu uppgjöri. Þannig er ekki víst að þetta gefi algjörlega rétta mynd af því hversu bændur fá mikið fyrir afurðirnar þar sem vaxtareikningur fer fram frá því um miðjan október skv. fyrirmælum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins til sláturleyfishafa.