04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5843 í B-deild Alþingistíðinda. (5193)

434. mál, atvinnumál í Hafnarfirði

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Eins og kom fram í máli hans og kom fram í máli mínu hefur a. m. k. ræst heldur úr í bili að því er varðar það ískyggilega atvinnuleysi sem hefur verið viðvarandi í Hafnarfirði misserum saman. En það er ekki lengra síðan en í marsmánuði s. l., sbr. það sem ég sagði hér áðan, að það voru 155 á atvinnuleysisskrá í Hafnarfirði á sama tíma og þeir voru 170 á höfuðborgarsvæðinu. Mig uggir að þó að hér hafi heldur lagast um sinn, án þess að neitt sérstakt hafi verið gert, geti aftur farið til hins verri vegar.

Það var athyglisvert að af þeim sem enn eru atvinnulausir sýndist mér í fljótu bragði að 2/3 þeirra hefðu áður starfað hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Það var líka ágætt að fá upplýst hér í þinginu hversu geigvænlegt tapið hefur verið hjá bæjarútgerðinni undir stjórn þeirra aðila sem ábyrgð bera á stjórn bæjarins og þar með bæjarútgerðarinnar á undanförnu ári. Það var líka ágætt að fá upplýst á þessum stað hversu erfið skuldastaðan er.

Ég innti sérstaklega eftir því hér hvort bæjarstjórnin hefði farið fram á aðstoð í þessu máli, hvort einhverjar málaleitanir hefðu borist frá bæjarstjórninni til ríkisstj. eða einstakra ráðh. Ef ég skildi hæstv. forsrh. rétt var ekki farið fram á neina sérstaka aðstoð, heldur einungis almenna aðstoð. Hann orðaði það svo að það hefði verið farið fram á aðstoð við skuldbreytingar eða uppgjör á skuldum bæjarútgerðarinnar. Hann lýsti því líka yfir að því hefði verið heitið af hans hálfu og ríkisstj. að sú aðstoð skyldi veitt. Nú hefur mér heyrst á meirihlutamönnum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að þeim hafi fundist að þeir hafi fengið heldur tregar undirtektir varðandi þá fyrirgreiðslu sem þeir þyrftu á að halda hjá hinum ýmsu sjóðum. Og spurningin er: Tók ríkisstj. svona dræmt undir þetta? Má ekki treysta því að sú yfirlýsing, sem forsrh. gaf áðan um að ríkisstj. væri tilbúin til að aðstoða í öllum efnum, standi? Hér ber greinilega nokkuð á milli.

Ef ég hef skilið hæstv. forsrh. rétt var ekki farið fram á sérstaka lánafyrirgreiðslu í hinum einstöku sjóðum. Kom ekkert sérstaki erindi um það hversu mikla lánafyrirgreiðslu bæjarstjórn Hafnarfjarðar vildi fá hjá Byggðasjóði, Framkvæmdasjóði eða Fiskveiðasjóði? Var þetta allt laust? Var engin tiltekin tala nefnd? Kom ekki neitt formlegt erindi? Þess hlýt ég að spyrja. Sömuleiðis veit ég að bæjarútgerðin skuldar viðskiptabanka sínum, Útvegsbankanum, verulegar fjárhæðir. Var ekki leitað liðsinnis um það að fá sérstaka skuldbreytingu í þeim banka og atbeina ríkisstj. til þess að það mætti fram ganga?

Ég ítreka spurningu mína til forsrh. um þessi sérstöku atriði, um það hvort málaleitan hafi komið fram um fyrirgreiðslu hjá hinum einstöku sjóðum og hversu mikla aðstoð eða lánalengingu eða ný lán bæjarstjórn Hafnarfjarðar teldi sig þurfa að fá og vildi óska eftir atbeina ríkisstj. við.