04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5843 í B-deild Alþingistíðinda. (5194)

434. mál, atvinnumál í Hafnarfirði

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrst nánar um atvinnuleysistölur. Í fyrstu upplýsingum sem ég fékk, sem eru dags. 26. apríl 1985, segir:

„Nú eru á atvinnuleysisskrá 62 manns, 27 konur og 35 karlar, sem er 92 manns færra en voru á skrá um síðustu mánaðamót“, þ. e. mánaðamótin mars-apríl. Þessum tölum og því sem nemur fram í fulltrúaráði verkalýðsfélaganna ber nokkuð illa saman nema tölurnar séu frá mismunandi tíma. Athyglisvert er að upplýst er af Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar að af þeim 62 sem voru á atvinnuleysisskrá 26. apríl hafi aðeins 8 konur og 6 karlmenn unnið hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar eða 0.2% af þeim sem eru á vinnumarkaði í Hafnarfirði, eins og hér segir. Þannig virðast hafa verið atvinnulausir um mánaðamótin mars-apríl um 155 manns, en fer síðan ört minnkandi og eru núna 42 á skrá. Það hefur því farið miklu betur en horfði.

Hv. þm. spurði hvers bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði óskað. Mér sýnist rétt, með leyfi forseta, að ég lesi kafla úr því bréfi sem ég fékk 26. apríl s. l. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að tillögu nefndarinnar var nýlega stofnað almenningshlutafélag, Útgerðarfélag Hafnarfjarðar hf., sem ætlað er að kaupa frystihús og togara Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Eignirnar verða greiddar með yfirtöku langtímaskulda, hlutafé og skuldabréfum til tíu ára. Miðað er við að eignir nýja félagsins verði a. m. k. 20% umfram skuldir. Nú stendur yfir almennt hlutafjárútboð.

Einnig er verið að kanna með sölu togarans Júní til annarra aðila. Nokkur hluti núverandi eigna verður áfram hjá bæjarsjóði ásamt töluverðu af skuldum bæjarútgerðarinnar.

Bæjaryfirvöld hafa leitað til kröfuhafa um samning á skuldum sem flytja á til hins nýja hlutafélags og þeim skuldum sem bæjarsjóður mun taka að sér að greiða. Langtímaskuldir bæjarútgerðarinnar eru einkum við opinbera sjóði, banka og lífeyrissjóði. Óskað hefur verið eftir því við sjóðina að vanskilum á þessa árs afborgunum verði skuldbreytt og lán lengd a. m. k. til átta ára.

Ríkisábyrgðasjóður hefur samþykkt skuldbreytinguna á vanskilum og lengd lánstíma og Fiskveiðasjóður hefur samþykkt að breyta hluta af skuldum við sjóðinn. Viðræður standa yfir við Útvegsbankann, en Byggðasjóður hefur hafnað erindi bæjaryfirvalda. Þá skuldar Bæjarútgerðin Póstgíróstofunni um 11 millj. kr. Óskað hefur verið eftir því að fá að greiða skuld þessa í áföngum á næstu tólf mánuðum. Einnig hefur viðskiptaaðilum útgerðarinnar öllum verið ritað bréf þar sem þeim er gert tilboð um að bæjarsjóður taki að sér greiðslu skuldar við þá.

Vegna skuldbreytinga og greiðslu viðskiptaskulda þarf á næstunni að greiða og semja um greiðslur á kröfum að fjárhæð um 80 millj. kr. Auk þess þarf að gera við tvo togara útgerðarinnar fyrir a. m. k. 20 millj. kr. áður en þeir verða athentir hinu nýja hlutafélagi. Bæjarsjóði er nauðsyn að fá lán til að kosta viðgerð skipanna og til skuldaskila vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Þegar hefur verið leitað eftir láni að fjárhæð allt að 40 millj. kr. Síðan mun koma til frekari lántaka vegna skuldbindinga sem bæjarsjóður tekur á sig.

Þess er vænst að ríkisstj. veiti liðsinni sitt til að samningar takist um nauðsynlegar skuldbreytingar við opinbera sjóði og stofnanir og að fjárhagsleg fyrirgreiðsla fáist að fjárhæð allt að 40 millj. kr. vegna viðgerðar á skipunum og til skuldaskila.“

Eins og fram kemur í því sem ég hef lesið er, þegar bréfið er skrifað, margt mjög óljóst í þessu máli. Það liggur t. d. ekki fyrir hve mikið hlutafé muni safnast. Það liggur ekki fyrir á hvaða verði unnt reynist að selja togara fyrirtækisins og fleira, eins og hérna hefur komið fram. Það liggja ekki fyrir svör frá ýmsum aðilum sem til hefur verið leitað, eins og t. d. Útvegsbankanum.

Ég gerði ráð fyrir því þegar við áttum þann fund sem ég nefndi áðan með bæjarstjórninni að þeir kæmu til ríkisstj. með nánara erindi þegar ljóst væri hvernig málin stæðu. Síðan hafa atburðir verið að gerast í Hafnarfirði, eins og allir þekkja. M. a. kom nýlegt tilboð annars staðar að af landinu í eignir Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Mér hefur verið tjáð að þessi mál séu enn þá á uppgjörsstigi. En það eina sem við töldum okkur ekki fært að verða við var, eins og ég sagði áðan, að taka inn á lánsfjárlög heimild til erlendrar lántöku vegna Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.