04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5846 í B-deild Alþingistíðinda. (5195)

471. mál, stofnun Útflutningsráðs

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef flutt hér fsp. til viðskrh. á þskj. 816 um stofnun útflutningsráðs o. fl.

Það er alkunna að engin sjálfstæð Evrópuþjóð er jafnháð útflutningi og við Íslendingar. Stærri hluti þjóðarframleiðslu okkar er fluttur út en hjá nokkurri annarri þjóð álfunnar. Það lætur því að líkum að miklu varðar hvernig til tekst á öllum sviðum útflutningsmála. Það á fyrst og fremst við um fjölbreytni og gæði þeirrar framleiðslu sem við flytjum úr landi, þar hafa fiskafurðir lengst af verið í fyrsta sæti. Jafnframt skiptir það miklu máli að ná til sem fjölbreytilegastra markaða þar sem best verð fæst hverju sinni.

Að undanförnu hefur það mjög verið haft á oddi í allri umræðu hér á landi hver nauðsyn það sé að efla nýjar atvinnugreinar. Það er hverju orði sannara. En hitt er ekki síður mikilvægt að afla markaða fyrir framleiðslu þessara nýju greina þar sem heimamarkaðurinn er hér svo lítill sem raun ber vitni. Ekki síst á þetta við um margs konar iðnaðarvörur sem hafin er framleiðsla á, en þó kannske allra helst greinar þar sem rafeindatæknin hefur verið nýtt á hugvitsamlegan hátt, svo sem í frystiiðnaðinum og víðar í sjávarútvegi. Þar erum við að vissu leyti þegar orðnir brautryðjendur. En lítt stoðar að framleiða góða vöru ef ekki tekst að selja hana. Þá á ég ekki aðeins við nýjar atvinnugreinar heldur ekki síður hefðbundnar atvinnugreinar og þá fyrst og fremst íslenskan iðnað.

Við Íslendingar höfum lengi verið miklir framleiðslumenn, miklir aflamenn ef svo mætti að orði komast, en miklu síður hugsað um söluna og markaðinn. Þó eru þetta ekki síður mikilsverðir þættir, svo sem nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa fyrir löngu uppgötvað. Danmörk er hráefnasnautt land, en auðlind Dana hefur lengi verið hugvitið og sölumennskan. Með því hafa þeir fyrir löngu komist í hóp efnuðustu þjóða heimsins.

Skilningur á mikilvægi markaðsleitar og kynningar á íslenskum afurðum erlendis fer nú vaxandi sem betur fer. Er þar ekki síst að minnast starfs Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins sem vel hefur unnið á undanförnum árum þótt á tiltölulega þröngu sviði hafi verið. Hér er hins vegar spurningin um hvort og hvenær eigi að ráðast í að stefna almennt útflutningsráð sem tæki til allra greina íslensks atvinnulífs. Slíkt hefur m. a. verið gert í mörgum nágrannalöndum okkar með góðum árangri og er þar kannske Noregur tiltækasta dæmið. Því má varpa þeirri spurningu hér fram: Er ekki kominn tími til að slík stofnun verði sett á laggirnar hér á landi þar sem allir aðilar sem hlut eiga að máli gætu sameinað krafta sína, bæði hið opinbera og ekki síður samtök framleiðendanna sjálfra?

Af þessu tilefni hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til viðskrh.:

1. Hvað líður undirbúningi að stofnun útflutningsráðs til kynningar og markaðsleitar fyrir íslenskar framleiðsluvörur erlendis?

2. Hvernig er háttað undirbúningi að ári útflutningsins, þ. e. árið 1986, sem helga á útflutningi?

3. Hver er árangur af störfum nefndar um verkefnaútflutning?