04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5848 í B-deild Alþingistíðinda. (5197)

471. mál, stofnun Útflutningsráðs

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka viðskrh. fyrir svörin við þessum fsp. Það fer ekki milli mála að eitt mikilvægasta atriðið í íslensku atvinnulífi og atvinnustarfsemi er efling útflutningsmála. Það kom fram nýlega í fjölmiðlum að Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hafi fengið danskt ráðgjafarfyrirtæki til að kanna hvernig útflutningsmál stæðu í um það bil tug íslenskra iðnfyrirtækja. Niðurstaða þeirrar könnunar og þeirrar skýrslu var á þá lund að þeir tóku það dæmi að ef um 100 metra spretthlaup væri að ræða þá hefðu hinir erlendu keppinautar 50 metra forskot fram yfir íslensku fyrirtækin. Svo báglega horfir að sumu leyti í íslenskum fyrirtækjum hvað varðar útflutningsstarfsemina.

Því er ekki að leyna að skilningur hefur farið mjög vaxandi á síðustu misserum og síðustu árum á nauðsyn þess að efla útflutning, markaðsleit og markaðskynningu á íslenskum vörum. Þess vegna var ánægjulegt að heyra að að þessum málum er unnið í viðskrn. og í þremur nefndum. Niðurstöðu að því er varðar almennt útflutningsráð fyrir allar atvinnugreinar er að vænta innan skamms.

Í því sambandi er kannske ástæða til að undirstrika tvö atriði.

Í fyrsta lagi höfum við utanríkisþjónustu sem rekur sendiráð í yfir tug landa. Utanríkisþjónustan og sendiráðin hafa sem eitt af hlutverkum sínum að vinna að markaðsleit og markaðskönnunum. En sá þáttur er lítill í störfum utanríkisþjónustunnar og sendiráðanna, mun minni en tíðkast hjá mörgum öðrum þjóðum. Ég held að það sé sérstök ástæða til þess fyrir viðskrn. og þá nefnd, sem við athugun á stofnun almenns útflutningsráðs starfar, að gera könnun á því og koma með tillögur um hvernig má virkja utanrrn. og sendiráðin miklum mun betur en nú er til þess að kynna íslenskar vörur erlendis og afla markaða þó svo að þó nokkur störf hafi þegar verið unnin á því sviði sem ber ekki að vanþakka.

Í öðru lagi er víða pottur brotinn hvað varðar menntun í íslenska skólakerfinu að því er varðar sölumennsku, markaðsleit og útflutningsmál. Það er að vísu á þau efni drepið lítils háttar í viðskiptadeild Háskólans, en í mjög litlum mæli. Hið almenna skólakerfil, þ. e. menntaskólar og fjölbrautaskólar, bjóða upp á sáralitla menntun og fræðslu á þessu sviði. Þetta má undrum sæta þegar litið er til þess, eins og ég gat hér um áðan, að engin þjóð álfunnar byggir afkomu sína að jafnmiklu leyti og Íslendingar á útflutningi afurða. Það er þess vegna tímabært að þessi mál séu tekin til rækilegrar endurskoðunar, eins og frá því í janúar hefur verið unnið að á vegum rn.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni að það starf megi verða árangursríkt og rn. sjái til þess að allt verði gert sem unnt er á þessu sviði.