04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5849 í B-deild Alþingistíðinda. (5198)

489. mál, fóstureyðingar

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Lagasetning um fóstureyðingu var umdeild á sínum tíma. Ég hef nú lagt fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um framkvæmd fóstureyðinga:

1. Hve margar fóstureyðingar hafa verið framkvæmdar árlega frá og með árinu 1976 til og með ársins 1984, skv. lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir?

2. Hvernig skiptast fóstureyðingar milli ára:

a) af félagslegum ástæðum skv. a-, b- og c-lið 1. tl. 9. gr. laganna,

b) af félagslegum ástæðum skv. d-lið 1. tl. 9. gr. laganna,

c) af læknisfræðilegum ástæðum skv. 2. tl. 9. gr. laganna?

3. Í hve mörgum tilvikum er um endurteknar fóstureyðingar að ræða árlega framangreint tímabil?

4. Í hve mörgum tilvikum á þessum tíma er um að ræða fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eftir lok 12. viku meðgöngu?