06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

67. mál, skoðun fiski- og skemmtibáta

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Jóhann Ársælsson, varamaður minn, sem sat hér á hv. Alþingi fyrstu fundi þingtímans, bar fram þá fsp., sem nú hefur verið tekin á dagskrá, fyrir hæstv. samgrh., en ekki gafst tækifæri til að svara fsp. á þeim tíma sem Jóhann var hér á þingi. Ég flyt útskýringu Jóhanns á fsp. eins og hann hafði samið hana. — En fsp. er svohljóðandi:

„Hvernig hefur Siglingamálastofnun ríkisins háttað skoðun á opnum fiskibátum og skemmtibátum á sjó og vötnum?“

Þá segir Jóhann:

Öryggismál sjómanna hafa verið mikið til umræðu að undanförnu og er það vel. Sú umræða hefur þó beinst að ákveðnum þáttum í öryggisbúnaði stærri báta og skipa. Eftirlit með bátum og búnaði þeirra í þeim stærðarflokkum sem eru tilgreindir í þessari fsp. er í megnasta ólestri. Ég þekki það og fullyrði að svo er. Allt í kringum landið eru á floti bátar sem menn nota, sumir sér til skemmtunar aðrir sér til framfæris að hluta eða öllu leyti. Með langflestum þessara báta er ekkert eftirlit. Það hefur ekkert eftirlit verið með bátum styttri en 6 metrar og skemmtibátum á sjó og vötnum svo að ég viti til, nema með smíði nýrra báta.

Bátum af þessu tagi fjölgar mikið um þessar mundir. Það virðist vera mikill áhugi á alls konar útivist tengdri sjómennsku, veiðiskap eða siglingum. Það er þess vegna mikil ástæða til að yfirvöld geri upp við sig hvaða eftirlit verður að telja nauðsynlegt með þessum fleytum. Fsp. mín er þó fyrst og fremst fram komin til að draga athygli yfirvalda að öryggismálum sjómanna á opnum vélbátum. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að bátar í þessum flokki eru 3.3 tonn að meðaltali samkvæmt síðustu skrá Siglingamálastofnunar. Þetta eru þess vegna alvörufiskibátar og víða róið mestallt árið. Eftirliti með þessum bátum er mjög ábótavant. Og innan um þennan flota eru margar manndrápsfleytur sem hafa ekki verið skoðaðar áratugum saman. Það er þó skylda að láta skoða þessa báta árlega.

Ég vona að í svari hæstv. samgrh. komi fram að hve miklu leyti þessum reglum er framfylgt og hvers vegna Siglingamálastofnun hefur ekki fylgt þessum reglum eftir. Einnig hvort uppi eru áform um að bæta þetta eftirlit.