04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5851 í B-deild Alþingistíðinda. (5201)

489. mál, fóstureyðingar

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir ítarleg svör við þessari fsp. Mér virðist ljóst að staða þessa máls sé þannig að ástæða sé til að skoða það nánar.

Það kemur í ljós að tíðni fóstureyðinga hefur hækkað allverulega, eða yfir 100%, á árabilinu sem um er að ræða. Það kemur einnig í ljós að fóstureyðingar skv. d-lið, þ. e. af öðrum ástæðum en tíðni fæðinga, bágum ástæðum, heilsuleysi eða aldri eru yfir 50% af umræddum fóstureyðingum. Það finnst mér sýna að ástæða er til að skoða málið á ný, fara yfir það sem hefur átt sér stað og kanna hvort þarna er rétt að búið.

Það kemur einnig í ljós skv. 3. lið fsp. að fóstureyðingar framkvæmdar að því er virðist sem bein getnaðarvörn eru 20% af heildartölunni. Það er einnig alvarlegt að mínu mati að slík þróun skuli eiga sér stað.

Það hefur verið vitnað til þess og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns að hér á landi væru skráðar færri fóstureyðingar en í nágrannalöndunum. Einnig hefur komið fram í viðtali við prófessor Gunnlaug Snædal að hér á landi væri notkun getnaðarvarna hjá konum mun almennari en í nágrannalöndum. Hafa verið nefnd 80–90% hér á landi miðað við 50–60% á Norðurlöndum. Þetta sýnir að ekki er raunhæft að taka skráningarfjölgunina til viðmiðunar í þessari niðurstöðu. Þegar um er að ræða 5000 fóstureyðingar á umræddu tímabili og meira en helming þeirra af öðrum ástæðum en brýnastar eru taldar í lögunum tel ég fulla ástæðu til að kanna framkvæmd laganna nánar. Varpa ég því hér með fram. Fóstureyðing fyrir 12. viku virðist framkvæmd hindrunarlaust hér á landi og full ástæða til að kanna hvort rétt hefur verið staðið að framkvæmd laganna.