04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5852 í B-deild Alþingistíðinda. (5202)

489. mál, fóstureyðingar

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Það er ekki oft sem þessi mál ber á góma á Alþingi og ekki oft sem mál er snerta konur sérstaklega eru til umræðu. En ég vil hefja mál mitt á því að mótmæla því harðlega að íslenskar konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn. Þær tölur sem komu fram í máli hæstv. ráðh. eru mjög lágar miðað við heildarfjölda þeirra fóstureyðinga sem fram fara hér á landi. Ég held að það sé öllum ljóst, sem þekkja til þessara mála, að fóstureyðing er mjög alvarlegt mál og alvarleg ákvörðun og ég leyfi mér að fullyrða að konur hlaupa ekki í fóstureyðingar nema brýna þörf beri til.

Það er skoðun mín að þau lög sem hér eru í gildi hafi reynst vel og að standa beri vörð um þau. En mér finnst brenna við í umræðum um þessi mál hér á landi að alltaf sé byrjað á vitlausum enda. Ég get vel skilið það fólk. Þetta er mikið tilfinningamál. Fóstureyðing er í margra augum mjög alvarlegt mál og er alvarlegt mál. En það gleymist oft að spyrja: Hvers vegna eiga fóstureyðingar sér stað? Hvers vegna þurfa konur á fóstureyðingum að halda? Það gleymist oft að þeim lögum sem hér voru samþykkt fyrir um það bil 10 árum fylgdu ákvæði um fræðslu. Ég held einmitt að þeir sem finnst fóstureyðingar of margar hér á landi ættu að byrja á réttum enda, byrja á því að bæta félagslega stöðu kvenna og stórefla fræðslu um þessi mál. Það held ég að sé meginatriðið í þessu máli öllu saman.