04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5852 í B-deild Alþingistíðinda. (5203)

489. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er mitt álit að lögin frá 1975 hafi reynst vel í þessum efnum. Það má alltaf deila um framkvæmd laga og ekki ætla ég að neita því fyrir fram að eitthvað megi setja út á framkvæmdina. En ef við lítum á nágrannaþjóðirnar og höfum líka í huga að við megum ekki miða við tölur fyrir gildistöku laganna af því að þær eru að verulegu leyti óraunhæfar, eins og kom fram bæði í mínu máli og í máli hv. 5. þm. Austurl. tel ég að lögin og framkvæmd þeirra gefi ekki tilefni til sérstakrar gagnrýni. Hins vegar má segja að óeðlilegt sé hvað fóstureyðingar eru margar bæði hér á landi og eins í nágrannalöndunum miðað við það hvað auðvelt er að koma í veg fyrir getnað og þá þróun sem átt hefur sér stað í getnaðarvörnum. Þetta eru viðkvæm mál og erfið. Menn skiptast gjarnan í tvo hópa í þeim efnum. Annars vegar er fólk sem vill algerlega banna fóstureyðingar. Ég tel það ósanngjarnt. Ég tel að réttur konunnar sé mikill og það megi ekki taka af henni þann rétt. En hins vegar eru ákvæði um eftirlitið. Skv. þessum lögum á það að vera með þeim hætti að það á að koma í veg fyrir að hér séu fóstureyðingar umfram það sem þörf er á og sanngjarnt og eðlilegt getur talist.

Í ýmsum löndum þar sem fóstureyðingar hafa algerlega verið bannaðar er nú verið að breyta nokkuð í frjálsræðishátt, þannig að vilji konunnar ræður þar meiru. Nú síðast á Spáni. Fyrir örfáum dögum var sett þar löggjöf í þessum efnum.

Ég get tekið alveg undir það með hv. fyrirspyrjanda að nauðsynlegt er að fylgjast með framkvæmd þessarar löggjafar sem annarrar. Ég hef rætt það mál við landlækni og óskað eftir frekari upplýsingum sem yrði þá meira til þess að rn. vissi mjög skilmerkilega hvað gerst hefði og með hvaða hætti hefur verið staðið að framkvæmd þessara mála þó að það verði reynt að gæta þess að vera ekki með neina persónulega hnýsni.