06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

67. mál, skoðun fiski- og skemmtibáta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. 1. janúar 1984 var alls 1461 opinn vélbátur á skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins, stærð þeirra samtals 4835 brúttólestir. Af þessum opnu vélbátum eru 1430 skráðir fiskibátar með samtals 4725 brúttólestir. Skráðir skemmtibátar voru 1. jan. 1984 alls 31, samtals 110 brúttólestir, og 15 seglbátar voru á skrá þá, samtals 67 brúttólestir. Bátar sem eru 6 metrar eða lengri eru skráningar- og skoðunarskyldir og ber eigendum þeirra að fara fram á árlega skoðun hjá Siglingamálastofnun ríkisins.

Eins og kunnugt er eru opnir fiskibátar mismunandi mikið í notkun. Nokkur fjöldi þessara opnu fiskibáta stundar fiskiveiðar reglulega hluta úr árinu og eru þeir því í notkun sem atvinnutæki. Þessir bátar eru langsamlega flestir skoðaðir árlega og eru yfirleitt í sæmilegu eða góðu ástandi. Mikill fjöldi opinna fiskibáta er mjög lítið notaður. Skoðun á opnum fiskibáti er tilgangslaus nema eigandi bátsins sé viðstaddur og hafi um borð allan þann búnað sem krafist er. Engin leið er yfirleitt fyrir eigendur að hafa allan lausan búnað um borð í opnum bátum sem liggja fyrir legufærum, liggja við bryggju eða eru dregnir upp á land. Slíkur búnaður mundi fljótt hverfa úr bátum sem ekki eru í notkun. Siglingamálastofnun ríkisins hefur enga möguleika á að leita uppi eigendur opinna vélbáta til að framkvæma skoðun þeirra, enda ber eiganda skylda til að fara fram á skoðun. Auk þess er alls ekki hægt að treysta því að skráður eigandi opins vélbáts sé raunverulegur eigandi hans þótt hann standi á skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Töluvert er um að opnir bátar séu seldir eða þeim fargað án þess að báturinn sé umskráður eða strikaður út af skrá. Með nokkru millibili hefur Siglingamálastofnun ríkisins endurskoðað þessa skrá fyrir opna vélbáta og þá með aðstoð skipaskoðunarmanna vítt um land. Þeir bátar sem ekki finnast eru þá oft strikaðir út af skrá. Opnir vélbátar eru auðveldir í flutningi. Þeir eru oft fluttir langar leiðir og sumir jafnvel geymdir heima við hús eða bæi langt frá sjó.

Af framansögðu er augljóst að því fer fjarri að allir opnir vélbátar í landinu 6 metrar og lengri séu rétt skráðir og skoðaðir árlega eins og reglur gera ráð fyrir. Siglingamálastofnun hefur því lagt megináherslu á að opnir vélbátar, sem eru í notkun, séu skoðaðir reglulega, en stofnunin hefur hvorki starfslið né fjármuni til að leita opinna vélbáta sem ekki eru í notkun og leita eigenda þeirra vegna ársskoðana.

Varðandi skemmtibáta þá eru þeir líka skoðunar- og skráningarskyldir ef þeir eru 6 metrar eða lengri. Eigendum þessara báta ber einnig að fara fram á skoðun árlega. Til að auka aðhald við skoðun opinna vélbáta, bæði fiskibáta og skemmtibáta, væri hægt að taka upp skyndiskoðanir þessara báta á vegum Siglingamálastofnunarinnar, en til þess þarf hins vegar starfslið og rekstrarfé til ferðalaga. Ég tel æskilegt að það sé aukið, en hins vegar er útilokað að ná til allra þessara báta til skoðunar eins og háttar enn.

Fyrirspyrjandi fékk mér í hendur nokkru eftir að fsp. var lögð fram fjórar spurningar sem hann óskaði eftir að ég svaraði um leið og hinni prentuðu fsp. Hann sagði það vegna þess að hann væri óvanur þingstörfum, enda kominn á þing í fyrsta sinn. Þessar spurningar eru þannig og svör við þeim þessi:

1. Hvaða breytingar hafa orðið á fjölda þessara báta síðustu fimm árin? — Skráðir opnir bátar 6 metrar og lengri miðað við 1. jan. ár hvert voru: 1979: 944 og samtals 3182 brúttólestir, 1980: 1026 eða 3388 lestir, 1981: 1148 eða 3748 lestir, 1982: 1267 eða 4117 lestir, 1983: 7366 eða 4474 lestir og á þessu ári: 1461 eða 4835 lestir.

2. Hvaða reglur gilda um hve oft skoðun eigi að fara fram? — Ákvæði laga nr. 52/1970, um eftirlit með skipum, ná til allra íslenskra skipa og báta sem eru 6 metrar eða lengri, mæli milli stafna. Þannig eru allir þessir bátar skoðunarskyldir árlega.

3. Hve margir bátar voru skoðaðir 1983? — Skoðaður var nálægt helmingur af þeim bátum sem skráðir voru. Flestir eru um átta metrar. Þeir sem eru í stöðugri notkun til fiskveiða voru allir skoðaðir.

4. Hvort er uppi breyting á þessu eftirliti? — Þessu atriði er almennt svarað í því sem ég sagði hér á undan. Eftirlit með opnu bátunum sem ekki eru í stöðugri notkun er erfitt, en einna helst kæmu til greina skyndiskoðanir. En þær krefjast starfsliðs og fjárveitinga til aukinna ferðalaga.

Ég vil segja til viðbótar þessu að í sambandi við þá vinnu sem nú er lögð í öryggismál sjómanna tel ég rétt að auka þessa skoðun með þeim hætti að taka upp skyndiskoðun. Hitt yrði allt of þungt og erfitt í vöfum þar sem þessir litlu bátar eru fluttir jafnvel marga tugi ef ekki hundruð kílómetra. Það yrði erfitt fyrir opinbera stofnun að elta uppi, fyrir utan hvað það er dýrt og aldrei hægt að ná til allra. En hins vegar er vakning uppi í þeim efnum að hvetja menn til aukinnar varkárni og til þess að fara eftir settum reglum. Það er mönnum að lærast í ríkara mæli á seinni árum þó enn vanti mikið á að það sé fullnægjandi.