04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5856 í B-deild Alþingistíðinda. (5212)

447. mál, leigubifreiðaakstur

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Þannig háttar til að af sérstökum ástæðum hefur staðið nokkur styrr um leigubifreiðaakstur í Reykjavík undanfarið. Eins og mönnum er kunnugt eru í gildi sérstök lög um leigubifreiðaakstur og fjalla þau um heimildir ráðh. til takmörkunar á fjölda leigubifreiða til fólksflutninga, sendibifreiðaaksturs eða vöruflutninga og segir í 2. gr. þessara laga nr. 36 frá 1970, með leyfi hæstv. forseta:

„Samgmrn. er heimilt, eftir beiðni hlutaðeigandi stéttarfélags fólksbifreiðastjóra, að takmarka fjölda leigubifreiða til fólksflutninga á félagssvæðinu, ef fjöldi íbúa á svæðinu er 700 eða fleiri, enda komi til meðmæli þeirra bæjarstjórna og sýslunefnda, er félagssvæðið fellur undir, sbr. þó 7. gr. Þar sem takmörkun er heimiluð skal hún ákveðin af ráðuneytinu með sérstakri reglugerð fyrir hvert svæði.“

Samhljóða eru 4. og 6. gr., en fjalla um sendibifreiðaakstur og vöruflutninga. Þessi lög eru til komin vegna þess að menn töldu sig ekki geta takmarkað fjölda þeirra manna sem þessa atvinnu stunda öðruvísi en með löggjöf og töldu sig þar með vera að fullnægja því ákvæði 69. gr. í stjórnarskránni sem hljóðar svo: „Engin bönn má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.“

Þessu lagaboði telja menn sig hafa fullnægt með þeim lögum sem ég vitnaði til.

Nú stendur réttlæting slíks lagaboðs og fellur með skilgreiningunni á hugtakinu „almenningsheill“. Þar sem þessi mál eru aftur núna í brennidepli og þar sem ráðuneytið hefur fjallað mjög mikið um þau undanfarið langar mig að vita, og hef ég leyft mér að flytja þá fsp. til samgrh., hvaða almenningsheill liggur að baki lögum um leigubifreiðar, nr. 36 frá 9. maí 1970.