04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5858 í B-deild Alþingistíðinda. (5214)

447. mál, leigubifreiðaakstur

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég held þó að skort hafi á að svarið væri nægjanlega skýrt. Mér sýndist þó af þeim röksemdum, sem hann rifjaði upp fyrir upphaflegri samþykkt laganna sem hér um ræðir, að þar hafi menn að nokkru leyti ekki farið eftir spurningunni um hvað væri almannaheill heldur hvað væri heill þessarar sérstöku starfsstéttar og það hafi frekar verið hennar hagsmunir sem hafðir voru fyrir augum en raunveruleg almannaheill.

Ég tel að þær hugmyndir, sem þar voru notaðar sem röksemdir fyrir flutningi frv. og samþykkt þess um að takmarka fjölda manna í starfi til að tryggja afkomu þeirra, styðji þá fullyrðingu mína að það hafi verið afkoma þessara manna sem réði þarna miklu frekar en spurningin um heildarafkomu stærra samfélags. Að vísu má segja að röksemdin þar sem talað var um fjölda bifreiða í akstri á götum hafi á þeim tíma að einhverju leyti átt við sem spurning um almannaheill, en í dag mætti ætla að fjölgun leigubifreiða í akstri vegna mikillar eftirspurnar eftir almenningssamgöngum mundi endanlega hafa fækkun bifreiða á götum í för með sér.

Ég vildi gjarnan spyrja ráðherra, sérstaklega vegna þess að hann segir að þessi mál séu nú til mikillar umfjöllunar í ráðuneytinu: Er hæstv. ráðh. því sammála, burtséð frá því hvort við erum að tala hér um leigubílstjóra eða einhverja aðra atvinnustétt, að það þjóni almannaheill að menn takmarki fjölda einstaklinga í hvaða atvinnustétt sem er, og ef hann er almennt sammála því, hvers vegna hafa menn þá ekki fyrir löngu tekið af skarið með það hvað margir menn mega vinna í hverri starfsstétt, ef þetta er það lögmál sem þjónar almannaheill í íslensku atvinnulífi?