04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5859 í B-deild Alþingistíðinda. (5216)

447. mál, leigubifreiðaakstur

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Bara örstutt athugasemd.

Mér þykir leitt, vegna þess að hér fer fram umr. um nokkur grundvallaratriði, að við ráðh. skulum á vissan hátt tala dálítið hvor fram hjá öðrum. Það hefur enginn maður afneitað rétti löggjafans til að setja ákveðin skilyrði fyrir þeim kröfum sem menn verða að uppfylla sem veita ákveðna þjónustu og þær kröfur eigi þar með að tryggja neytandanum ákveðinn lágmarksstaðal þessarar þjónustu; í sambandi við leigubíla t. d. um gjaldmælingu, aðbúnað í bifreiðunum og þar fram eftir götunum. Það er aftur á móti ekki það sama og að takmarka með ítölu fjölda þeirra manna sem þessa atvinnu stunda. Ef menn uppfylla þær kröfur sem settar eru um þessa þjónustu svipað og um lyfjafræðinga og aðra hljóta þeir samkv. almennum mannréttindum og samkv. stjórnarskránni, að mínu mati, að eiga rétt á að fá að veita þessa þjónustu.