04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5859 í B-deild Alþingistíðinda. (5217)

458. mál, almannafriður

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Þetta mál er ekki stórt að vöxtum og að vissu leyti ekki lengur tímabært vegna þess hve langt er um liðið frá páskum og hvítasunnan m. a. s. líka fram hjá okkur farin.

Þannig háttar til að ég komst að því af eigin reynslu að ekki er hægt að fara í kvikmyndahús í Reykjavík og þá væntanlega ekki heldur annars staðar eftir kl. sex laugardaginn fyrir páska og sama gildir víst um hvítasunnu án þess að ég hafi sannreynt það Þetta mun vera, samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra Reykjavíkur, í samræmi við framkvæmd á lögum um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þar segir í viðauka við 7. gr.:

„Kvöldið fyrir aðra stórhátíðisdaga eru allar almennar skemmtanir bannaðar eftir miðaftan.“

Þann sama dag sem ég ekki átti þess kost að fara í kvikmyndahús, sem er kannske í sjálfu sér ekki neitt stórtjón, var sjónvarpið á ferðinni í húsum okkar mestan hluta þess dags og alveg fram yfir miðnætti. Og mér er spurn: Fellur ekki sjónvarpið undir hugtakið „almennar skemmtanir“ eða er nokkur skemmtun almennari á þessu landi en sjónvarpið? Ég sleppi því að fara nánar út í þá dagskrá sem flutt var laugardaginn fyrir páska, en hún var aldeilis ekki í anda þeirra þurrpumpulegheita sem venjulegast ríkja á þessum dögum. En spurningin ætti kannske frekast að orðast þannig: Hvaða ástæða er til þess að framfylgja lögum sem þessum í jafnókristnu landi og Ísland er?