04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5860 í B-deild Alþingistíðinda. (5219)

458. mál, almannafriður

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Þó það væri ekki annars vegna, herra forseti, en að leiðrétta mismæli sem mér urðu á í framsögu þar sem ég dró í efa réttmæti þess að framfylgja lögum. Ég átti við að viðhalda lögum sem þessum.

Það er ánægjulegt að heyra að endurskoðun þessara laga er í gangi. Væntanlega ræður sú hugsun þar ríkjum að samræma þau að einhverju leyti þeim tíðaranda sem við búum við.

Aðeins örstutt aths.: Þess vegna nefndi ég Ríkisútvarpið — sjónvarp að það er nýlega fallinn í Hæstarétti dómur um útsendingar sjónvarpsins og rétt manna til höfundagreiðslna vegna þeirra þar sem Hæstiréttur mjög skýrt og klárlega lagði sjónvarp að jöfnu við aðrar tegundir kvikmyndasýninga, þ. e. lagði að jöfnu kvikmyndahúsarekstur og sjónvarpsrekstur og réttlætti þar með greiðslur höfundalauna til ákveðins aðila sem þessi málaferli spunnust út af.

Það er vissulega ástæða til að spyrja og þá ekki þeirrar spurningar sem ég spurði áðan og ekki með það sjónarmið í huga að takmarka rekstur sjónvarpsins, heldur einfaldlega það að heimila mönnum kvikmyndasýningar á þeim tímum sem hér um ræðir, þó það þurfi ekki endilega að vera á aðfangadag og páskadag og það kannske af allt öðrum ástæðum, því að sömu daga sem við erum að tala um bannar enginn fólki að halda skemmtanir á veitingahúsum t. d., þó án þess að stíga dans, og trufla þannig almannafrið, ef um einhverja slíka truflun er að ræða, löngu eftir miðnætti þá daga sem hér um ræðir þar sem öllum slíkum hátíðahöldum átti að vera lokið um miðaftan.