06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

67. mál, skoðun fiski- og skemmtibáta

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Jóhann Ársælsson er vel kunnugur þeim málum sem hann var að spyrja um og hafði búið sig undir svarið. Flest af því sem þar kemur fram kemur beint heim við það sem hæstv. samgrh. sagði til að svara fsp. og þeim aukaspurningum sem Jóhann hafði borið fram. Ég sé því ekki neina ástæðu til annars en flytja hér það sem Jóhann hafði undirbúið til að svara ráðh. í sambandi við fsp. Ég held að það stangist ekki í einu eða neinu á við þau svör sem hæstv. ráðh. gaf hér:

Svarið er því miður staðfesting á því, sem ég hélt fram í máli mínu hér á undan, að það er ekki allt eins og það á að vera í framkvæmd þessa eftirlits. Ég vil fyrst segja hvað varðar báta styttri en 6 metra og skemmtibáta á sjó og vötnum að þeir hafa ekki verið skráningarskyldir. Það verða oft slys á bátum af þessu tagi og er full nauðsyn á að koma á eftirliti með þeim og búnaði þeirra. Ég vil hvetja til að Siglingamálastofnun verði falið að koma á nauðsynlegu eftirliti með bátum í þessum flokki.

Aðaltilgangurinn með fsp. var að draga athyglina að öryggismálum opinna vélbáta. Ég vil taka fram að eftirlit með smíði þessara báta er í nokkuð góðu lagi af hendi Siglingamálastofnunar, a.m.k. þar sem ég þekki til. Það er ástæða til að gefa þessum málum sérstakan gaum nú vegna mikillar fjölgunar þessara báta á síðustu árum. Þeim fjölgaði, þ.e. opnum vélbátum, úr 944 1. jan. 1979 í 1430 1. jan. 1984. Bátar í þessum flokki eru að meðaltali 3.3 tonn að stærð. Þetta eru fyrst og fremst fiskibátar. Þessa báta ber að skoða árlega. Skoðun er hins vegar ekki framkvæmd nema eigandi óski þess. Þetta hefur það auðvitað í för með sér að aðeins lítill hluti þessa flota er skoðaður árlega. Þeir bátar, sem menn vita að uppfylla ekki öryggiskröfur, eru aldrei færðir til skoðunar. Afleiðingin af þessu er að langflestir eru þessir bátar með ófullnægjandi öryggisbúnað, margir í mjög lélegu ásigkomulagi og sumar fleyturnar hreinlega ónýtar. Menn geta svo gert sér í hugarlund hvaða hættur eru þessu samfara. Þessar lélegustu fleytur ganga gjarnan kaupum og sölum og eru keyptar í grandaleysi af mönnum, kannske óvaningum, sem sitja uppi með bát sem er stórhættulegur, jafnvel ónýtur eða kostar stórfé að gera nothæfan.

En hvers vegna sér Siglingamálastofnun þá ekki um að þetta eðlilega öryggiseftirlit fari fram? Siglingamálastjóri ber því við að hann hafi árum saman reynt að fá aukið starfslið í þeim tilgangi að sinna þessum ótvíræðu skyldum stofnunarinnar, en ekki orðið ágengt. Hann segist hafa óskað eftir þremur og hálfu stöðugildi skoðunarmanna vegna fjárlaga nú, en verið synjað. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvort hann telji ekki að ástæða sé til að endurskoða þessa afgreiðslu á beiðni Siglingamálastofnunar. Hvernig ástand halda menn að yrði á bílaflota landsmanna ef Bifreiðaeftirlitið hefði ekki mannskap til að framkvæma eðlilegt eftirlit og menn réðu því sjálfir hvort þeir færðu bíla sína til skoðunar?

Ég vil biðja hv. alþingismenn að gefa gaum að þessum málum. Það er óverjandi að stofnun eins og Siglingamálastofnun ríkisins geti ekki rækt skyldu sem þessa vegna fjárskorts. Það kann vel að vera að það megi spara með því að draga úr eða leggja niður eitthvað af starfsemi Siglingamálastofnunar. Mér finnst sjálfsagt að það sé athugað. Ég vil t.d. benda á til athugunar að tollar eru eftirgefnir af hverri vél sem inn er flutt í fiskibáta. Það er eftir því sem ég best veit, starfsmaður í stofnuninni í því að fylgjast með þessu og skrifa upp á þessar tollaniðurfellingar. Væri ekki einfaldara að þessi innflutningur væri tollfrjáls? Þá gæti Siglingamálastofnun sparað sér þetta eftirlit og útgerðarmenn losnuðu við hvimleiðan eltingaleik við bankatryggingar og fleira sem fylgir því að fá tolla eftirgefna.

Herra forseti. Ég fullyrði að það eru miklar hættur því samfara að fylgja ekki þessu eftirliti eftir. Ég skora á hæstv. samgrh. að hann beiti sér fyrir því að Siglingamálastofnun verði gert mögulegt að koma á eðlilegu eftirliti með þessum bátum.