04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5863 í B-deild Alþingistíðinda. (5222)

513. mál, fjölgun vínveitingaleyfa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að ég hljóti að verða að hjálpa hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Það er alveg ástæðulaust fyrir hann að vera svo sakbitinn yfir auknum fjölda vínveitingaleyfa. Það kom nefnilega alls ekki fram í hans máli, og er því álíka óáreiðanlegt og ýmsar tölur úr herbúðum áfengisvarnamanna, svokallaðra, hin raunverulega ástæða fyrir auknum fjölda þessara leyfa. Því ætla ég að upplýsa hæstv. ráðh. um það.

Á síðustu árum hefur orðið bylting í íslenskri matargerð og íslenskri veitingahúsamenningu og veitingahúsum hefur einfaldlega fjölgað, sem betur fer. Því fylgir auðvitað að þegar búinn er til sómasamlegur matur í sómasamlegu veitingahúsi fer veitingahúsið fram á að hægt sé að veita vín með matnum. Þetta er hin raunverulega ástæða fyrir þessum fjölda, hæstv. ráðh., og það er ekkert við hann að sakast um það, nema síður sé, að veita þessi leyfi.

Sannleikurinn er sá að það er mikill munur, bæði á Reykjavík og ýmsum öðrum stöðum hér á landi, hvað snertir veitingahúsamenninguna nú og fyrir aðeins örfáum árum. Því ber að fagna. Matargerð er nú til töluverðs sóma víða um land og mörg ágætis veitingahús hér í höfuðborginni hafa gert almenningi kleift að fara út að borða eins og það er kallað. Fyrir örfáum árum var það ekki á færi nema stóreignamanna og peningafursta vegna þess að það var einfaldlega svo dýrt. Áður var ekki hægt að fá hvítvínsglas eða rauðvínsglas með mat nema á Hótel Sögu eða Hótel Borg sem voru þá staðir sem allur þorri manna hafði ekki efni á að sækja. Þessari þróun ber þess vegna alveg hiklaust að fagna og engin ástæða fyrir þá í dómsmrn. til þess að hafa áhyggjur af því.

Ég hef ekki orðið vör við það hér í Reykjavík að þessum litlu notalegu matsölustöðum, sem vissulega hafa vínveitingaleyfi, hafi fylgt neinn sá ósómi sem skaði sé að. Ég vil hins vegar benda hv. þm. á að aðeins hefur borið við að slíkt fylgi hinum svokölluðu bjórstofum, og ég skal líka upplýsa ykkur, hv. þm., af hverju það er. Það er af því að það má ekki drekka bjór. Þar má nefnilega sulla í sig einhverju brennivíni í samsulli við eitthvað annað og fólk hefur á tilfinningunni að það beri að gera af einhverjum subbuskap vegna þess að öll þessi umræða, þessi svokallaða áfengisvarnaumræða, háir vínmenningu almennings og því að Íslendingar bætist í hóp siðmenntaðra þjóða. Syndin skal vofa yfir fólki sem fær sér vínglas.

Nei, hæstv. dómsmrh., þeir eru ekkert til að hafa áhyggjur af, matsölustaðir landsins. Það væri kannske von til að auka vínmenningu Íslendinga enn ef fólk gæti líka fengið sér bjórglas.