04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5867 í B-deild Alþingistíðinda. (5229)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vona að það sé ljóst að ég er algerlega sammála hv. flm. um tilgang þessarar till. Ég er einungis að ræða um vinnuhagræðingu í kerfinu, ef ég má svo segja. Hér stendur í grg. með till. þessari:

„Félmrn. er yfirstjórnandi þessa málaflokks skv. lögum og hlýtur að vera sá aðili, sem þetta tekur að sér.“

Þá er átt við málaflokk fatlaðra. En engu að síður hefur menntmrn. þá skyldu að annast fræðslu fatlaðra eins og annarra í þjóðfélaginu og það hefur einmitt verið talið jafnréttisatriði að svo sé. Þess vegna held ég að það hefði verið betra að niðurlag þessarar till. orðaðist eitthvað í þessa veru: Menntmrn. stendur fyrir þessum námskeiðum í samráði við félmrn. — Þá hygg ég að hlyti að vera náð þeim tilgangi að ná til þeirra einstaklinga sem félmrn. hefði hugmynd um og af einhverjum ástæðum hefðu ekki komið inn í það kerfi sem menntmrn. hefur með höndum eða gefur kost á. Þá held ég að væri nokkuð tryggt að slíkt stæði til boða einmitt fyrir þá einstaklinga sem ég hygg að hér sé verið að hugsa um.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. segir, að þetta er ekki alls staðar komið í fullkomið horf. Hér er um alveg nýja starfsemi að ræða sem er að komast á laggirnar og skiptir miklu máli að farið sé skynsamlega og skipulega í og það sé samræmi í því hvernig tekið er á hlutum eins og tölvufræðslunni.

Ég vil nú bera fram, hæstv. forseti, skriflega brtt. því að ég hygg að till. sé á afgreiðslustigi. Ég tel fyrir mitt leyti mjög skynsamlegt að greiða fyrir því að slík námskeið komist á. En ég held að það eigi að vinna þetta mál með sama hætti og löggjöf um ýmiss konar fræðslu ætlast til, en aftur á móti sé mjög æskilegt að samstarf sé við félmrn. um þetta. Þess vegna legg ég til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því að haldin verði fyrir fatlaða námskeið um meðferð og notkun á tölvum, sem menntmrn. standi fyrir í samráði við félmrn. Námskeiðin verði hinum fötluðu að kostnaðarlausu og þeim gert kleift að taka þátt í almennum tölvunámskeiðum til þess að auðvelda þeim störf á vinnumarkaðinum.“

Ef hæstv. forseti umber það að ég ljúki við að skrifa till. nú í sæti mínu mun ég leggja hana fram.