04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5871 í B-deild Alþingistíðinda. (5238)

172. mál, kennslugögn í öllum fræðsluumdæmum

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um kennslugagnamiðstöðvar í öllum fræðsluumdæmum frá allshn.

Nefndin hefur fjallað um till. og leitað umsagnar um hana. Nefndin mælir með samþykkt till. með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eggert Haukdal og Stefán Benediktsson.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa tillgr. eins og hún orðast í brtt. á þskj. 1007:

„1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna, í samstarfi við samtök sveitarfélaga og fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum, hvernig hagkvæmast sé að auðvelda skólum aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og hjálpargögnum þannig að tryggt verði að allir nemendur, hvar sem þeir búa á landinu, geti hagnýtt sér fjölbreytt kennslugögn í námi.

2. Fyrirsögn till. orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um aðgang að náms- og kennslugögnum í öllum fræðsluumdæmum.“

Það kom fram í umsögnum um þetta mál að verulega skortir á að hinir ýmsu skólar, sérstaklega þeir minni, hafi aðgang að þeim kennslutækjum og hjálpargögnum sem hinir stærri skólar hafa. Það er talið að með þessum tillöguflutningi megi spara verulegt fjármagn og jafnframt hraða þeirri þróun að skólar eigi möguleika á þeim kennslutækjum og hjálpargögnum sem æskilegt er að þeir hafi.